Sigtryggur Baldursson tónlistarmaður og forstöðumaður ÚTÓN skrifar grein í Fréttablaðið í morgun:
Undanfarin misseri hefur margt verið skrifað og ekki síður skrafað um skapandi greinar á Íslandi, enda ört vaxandi starfsgreinar sem velta miklu, skapa störf og afleidd störf og hafa raunveruleg hagræn áhrif.
Hönnun, tónlist, myndlist, tölvuleikir, bókmenntir, sviðslistir og kvikmyndir mynda kjarnann í þessum greinum og saman mynda þau samtök skapandi greina.
Í fersku minni er Hönnunarmars sem var nýlega haldinn með 140 sýningum úti um allar koppagrundir, yfir 300 hönnuðir sýndu eigin hönnun, allt frá minnstu skartgripum til borgarskipulags.
Bókmenntirnar dafna og sækja á nýja markaði og myndlistin líka, kvikmyndagerð á Íslandi er með miklum blóma þótt fjármagn þurfi oft að sækja út fyrir landsteinana. Þúsundir iðkenda EVE-online flykkjast árlega til landsins á „fanfest“ með tilheyrandi umstangi.
Þegar umfang greinanna eykst verður æ nauðsynlegra að taka saman hagtölur fyrir þær til þess að geta betur séð hvað er að gerast í heildarmyndinni. Við sjáum þetta glöggt með ferðaþjónustuna sem hefur verið að berjast fyrir rannsóknarmiðstöð sem komin er í gang á Akureyri og hefur verið að skila veigamiklum hagtölum fyrir greinina.
Hvað tónlistina varðar höfum við séð gífurlegar breytingar á umhverfi okkar síðustu árin, með minnkandi fjárfestingum frá plötufyrirtækjunum vegna minnkandi plötusölu, höfum við séð lifandi tónlistarflutning margfaldast og okkar listamenn streyma inn á stærra markaðssvæði. Milli áranna 2012 og 2013 tvöfaldaðist tónleikahald íslenskra tónlistarmanna erlendis, frá 718 tónleikum á ári í rúmlega 1460. Þetta eru sláandi tölur, en hvað þýða þær hagfræðilega? Hver er heildarveltan á öllu þessu tónleikahaldi? Mikill uppgangur er á íslenskum tónlistarhátíðum líka, Iceland Airwaves veltir meira en einum og hálfum milljarði á viku í nóvember, hefur áhrif á gengi krónunnar, það sjáum við vegna þess að ÚTÓN gerir könnun á því – en heildarmyndin fyrir skapandi greinar, það er erfitt að sjá. Hagstofan tekur ekki saman þessar tölur. Við erum enn að giska, og það eru ekki góð vísindi. Nú síðast að skapandi greinar velti meiru en ál á ársgrundvelli. Hér þarf einhverjar alvöru tölur. Ekki ágiskanir.
Í nýlegri grein í Iceland Review kemur fram að sú jákvæða ímyndarbreyting Íslands í Bandaríkjunum, sem rakin er til vinsælda íslenskrar tónlistar, hefur haft mjög jákvæð áhrif á sölu fiskafurða Íslendinga á Bandaríkjamarkaði. Hljómar lygilega, ekki satt? Það þarf að vera hægt að skoða þetta nánar og fleira sem væri mun auðveldara að mæla.
Merkilegt nokk þá er Rannsóknarmiðstöð skapandi greina til, en hún er ekki virk. Vegna þess að hana skortir rekstrarfé. R.S.G. (áður Rannsóknaráherslusvið menningar og lista) var stofnað innan Viðskiptafræðistofnunar Háskóla Íslands árið 2004.
Rannsóknum á skapandi greinum á Íslandi hafa verið takmörk sett vegna aðgengis að hagtölum. Með tilkomu fyrirtækjasviðs Hagstofu hefur aðgengi að gögnum um skapandi greinar þó batnað til muna, en þó er ekki nema hálf sagan sögð því greining og vöktun á gögnum í þágu þeirra sem vinna í skapandi greinum og einnig í þágu stjórnvalda verður ekki unnin hjá Hagstofu. Með rannsóknarmiðstöð sem sérhæfir sig í rannsóknum á skapandi greinum verða upplýsingar um skapandi greinar á einum stað, greindar og gerðar aðgengilegar.
Nú er mál að drífa þetta í gang með sameiginlegu átaki ríkis, borgar og greina, öllum til hagsbóta. Hagstofan mælir vel allt sem lýtur að fiski og landbúnaði. Við hjá skapandi greinum þurfum að hætta að giska á fiska.