Greinar

Röddin okkar

Listamenn skrifa skrifa grein í Fréttablaðið í dag í tilefni uppsagna á Ríkisútvarpinu, sem tilkynnt var um í fyrradag: 

Þjóðin á sér rödd. Sú rödd er ekki ómþýð. Eina stundina minnir hún á stamandi unglingspilt í mútum, þá næstu á langþreytta kerlingu með reykingahósta. Stundum minnir hún á hikstandi smástelpu, augnabliki síðar á örvæntingarfullan tenór. Hljómur hennar er margradda. Þannig verður það að vera, öðruvísi getur þjóðin ekki átt sér rödd. Forsenda þess að röddin fái að hljóma í öllum sínum blæbrigðum, þessum kraftmikla lífsþorsta, er að hér á landi sé rekið öflugt ríkisútvarp með reynsluríku dagskrárgerðarfólki. Aðeins þannig er hægt að tryggja að röddin sé sönn.
Nú á að lækka rostann í þessari hljómmiklu rödd. Blóðtakan hjá RÚV er svo yfirgengileg að það er engu líkara en það eigi að gelda allan kórinn, þessa þrætugjörnu en þó líflegu þjóð. Það er verið að þvinga röddina þannig að hún verði hjómið eitt. Við þessar aðstæður verður að teljast ólíklegt að RÚV geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu sem skyldi. Það er svo hátt reitt til höggs að afleiðingarnar verða tæpast afturkræfar.

Það er ekki að ástæðulausu að rúm 50% þjóðarinnar treysta RÚV (samanborið við 16% traust á Alþingi eða 14% traust á öðrum fjölmiðlum samkvæmt könnun MMR í október). Landsmenn treysta RÚV af því að þar vinna starfsmenn af heilindum og ástríðu. Það sækir enginn um að vinna við dagskrárgerð eða á fréttastofu til að verða ríkur eða til að þjóna hagsmunum fárra.

Nú eru slegnar sprungur í Spegilinn á Rás 1 og Kastljós sjónvarps þarf að lýsa landsmönnum veginn með sífellt færri perum. Kona ein veitti lesendum Smartlands Mörtu Maríu eitt sinn það fegrunarráð að slökkva ljósið. Það er engu líkara en ríkisstjórn Íslands hafi tekið þetta til sín.
Það lítur út fyrir að Tónlistardeild Rásar 1 verði vart starfandi eftir þessa uppsagnahrinu, okkur telst til að nú starfi 2,4 starfsmenn á deildinni. Svo virðist einnig sem barnaefni í útvarpi hafi verið slegið af þar sem báðir dagskrárgerðarmenn Leynifélagsins eru í hópi þeirra sem var sagt upp – og þannig mætti lengi upp telja.

Dagskrárgerðarfólk RÚV á stóran þátt í sköpun menningar dagsins í dag, en auk þess varðveitir RÚV menningararf síðustu 70 ára og heldur honum lifandi. Útvarpsperla er réttnefni fyrir þá dagskrárliði. Vegna RÚV hafa landsmenn í senn getað litið um öxl og horft fram á veginn; en nú á að sjá til þess að okkar tími verði eyða í safni útvarpsins. Þetta er svartur dagur. Er hann virkilega kominn?

Við neitum að trúa að þetta sé óhjákvæmileg forgangsröðun á fjárlögum. Við neitum líka að trúa að stjórn Ríkisútvarpsins hafi ekki getað forgangsraðað hlutunum á annan hátt en raun ber vitni. Hvað er mikilvægara en að fjárfesta í dagskrárgerðarfólki með ómetanlega reynslu? Er einhver skynsamleg skýring á þessu? Nei, segjum við. Nei. Kannski er munurinn á þjóðmenningu og menningu sá að í þjóðmenningunni felst það eitt að vera með íslenskt vegabréf á meðan menningin er það sem fólk gerir vel. Það er verið að segja okkur að við höfum ekki efni á því lengur.

Víkingur Heiðar Ólafsson
Auður Jónsdóttir
Jón Kalman Stefánsson
Kristín Ómarsdóttir
Andri Snær Magnason
Guðrún Eva Mínervudóttir
Ingi Björn Guðnason
Eiríkur Örn Norðdahl
Vigdís Grímsdóttir
Lísa Kristjánsdóttir
Þórunn Erlu Valdimarsdóttir
Sigurbjörg Þrastardóttir
Rannveig (Gagga) Jónsdóttir
Birna Anna Björnsdóttir
Eiríkur Guðmundsson
Þórarinn Leifsson
Ragna Sigurðardóttir
Kristín Eiríksdóttir

 

Öllum til vegsauka

Sigtryggur Baldursson tónlistarmaður og framkvæmdastjóri ÚTÓN skrifar grein í helgarblað Fréttablaðsins:
Í nýframlögðu frumvarpi til fjárlaga kemur fram að ríkisstjórnin hefur ákveðið að fella niður fjárfestingaráætlun í skapandi greinum, sem komið var á fót á síðasta ári, einkum í formi smærri sjóða.

Tónlistarsjóður mennta- og menningarmálaráðuneytis var og færður til móts við verðlagshækkanir úr 43 milljónum í 86 milljónir. Þá var komið á fót afar mikilvægum, en hófstilltum 20 milljóna króna útflutningssjóði. Þessar aukningar hafa verið teknar af dagskrá.

Aftur til fortíðar?
Þetta er miður í ljósi þess árangurs sem náðst hefur í útflutningi íslenskrar tónlistar á síðustu árum en nú stefnir í liðlega 100% aukningu á tónleikahaldi íslenskra tónlistarmanna á erlendri grundu milli áranna 2012 og 2013. Alls voru 720 tónleikar haldnir árið 2012 en eru nú komnir yfir 1024 tónleika það sem af er árinu 2013. Þetta er mikill vöxtur. Vaxtarbrodds íslenskrar tónlistar er helst að vænta að utan, þar sem innanlandsmarkaður er einfaldlega of lítill.

Þess utan skapar allur þessi útflutningur tónlistar afleiddan arð í formi kynningar á landinu til ferðamennsku og upplifunar.
Heildarframlag ríkisins til útflutnings tónlistar nemur í dag aðeins um 40 milljónum króna sem er mjög lág tala miðað við aðrar atvinnugreinar. Að óbreyttu mundi sú upphæð lækka um helming sem væri afar dapurleg lokaniðurstaða.

ÚTÓN vinnur að útflutningi á íslenskri tónlist og styrkingu íslenskra tónlistarhátíða og á IA sem annast rekstur Iceland Airwaves-tónlistarhátíðarinnar sem veltir rúmum milljarði í hagkerfinu á innan við viku í byrjun nóvember á ári hverju.

Efling annarra tónlistarhátíða á Íslandi, m.a. til markaðssóknar á mið erlends tónlistaráhugafólks er forgangsmál í menningartengdri ferðaþjónustu. Þar ber að byggja á þeirri reynslu sem fyrir er hjá Iceland Airwaves og nýta má frekar til að hjálpa öðrum tónlistarhátíðum að nálgast hinn tónlistarþyrsta ferðamann, en slíkum fer stöðugt fjölgandi.

Tónlistin og aðrar skapandi greinar hafa reynst afar vel til þess að bæta ímynd þjóðarinnar á alþjóðavettvangi eftir hrun og hefur það vakið heimsathygli að hér hafi verið hlúð sérstaklega að listum til að byggja samfélagið upp að nýju.

Mannleg mistök? 
Skapandi greinar hafa vaxið mjög á undanförnum árum og því er illskiljanleg með öllu sú fyrirhugaða ákvörðun ríkisstjórnarinnar að kippa til baka jafn smáum fjárfestingum í geirum sem skapa jafn mikinn vöxt og raun ber vitni. Til að endurgreiða megi skuldir þjóðarinnar verður að hlúa að þeim atvinnugreinum sem best virðast dafna á eigin forsendum.

Útflutningur tónlistar er afar mikilvægur hlekkur í stækkandi keðju íslenskra atvinnugreina sem skapa verðmæti og gjaldeyristekjur án mengunar eða fórna náttúruverðmæta og eiga að auki stóran þátt í að efla þjóðartekjur á vettvangi ferðaþjónustu. Að strika fyrirvaralaust út þá hóflegu fjárfestingar sem í greinina fara eftir áralanga tilvistarbaráttu væri vísbending um alvarlegan skort á heilbrigðri, nútímalegri framtíðarsýn.

Slíkt væri fljótlegt og auðvelt að leiðrétta, öllum til vegsauka.

Jakob Erlich?

Gunnar Guðbjörnsson formaður FÍT – Félags íslenskra tónlistarmanna skrifar eftirfarandi grein í Fréttablaðið í morgun:

Drög að fjárlögum gefa fólki í skapandi greinum ekki ástæðu til bjartsýni þótt þakkarvert sé að hlífa lykilstofnunum á menningarsviðinu. Meðal listamanna í grasrótinni er útlitið hinsvegar svart.

Jakob Magnússon benti á erfiða stöðu fólks í nýgildri tónlist í grein í Fréttablaðinu síðastliðinn miðvikudag. Ég er sammála Jakobi um nauðsyn á stuðningi við nýsköpun í tónlist og kæri mig kollóttan um hvaða nafni hún nefnist. Hin nýgilda óperutónlist Gunnars Þórðarsonar verður flutt í Íslensku óperunni á næsta ári og í næsta mánuði flytur Sinfóníuhljómsveit Íslands tónlist Skálmaldar.

Þar fyrir utan skila fjárfestingar í skapandi greinum, sem öll tónlist tilheyrir, sígild og nýgild, ávinningi hvort heldur það er í krónum eða auknum lífsgæðum. Hinsvegar nær ekki nokkurri átt að kalla „útverði sígildrar tónlistar af þýska skólanum“ helstu óvildarmenn nýgildrar tónlistar. Nýlega birtist ég á skjáum landsmanna og túlkaði söngljóð Schumanns í þættinum Útúrdúr og hlýt því að vera holdgervingur þessara illu afla.

Í dag stunda ég umfram allt söngkennslu en horfi satt best að segja með eftirsjá til áranna sem starfandi tónlistarmaður í Þýskalandi, Bretlandi og Frakklandi. Ekki er þar með sagt að slæmt sé að syngja fyrir Íslendinga og vera útvörður sígildrar tónlistar en hinn stórtæki fjárhagslegi stuðningur við störf mín, sem Jakob gefur í skyn, hefur gjörsamlega farið framhjá mér.

Í sama fámenni
Flytjendur sígildrar tónlistar búa í sama fámenni og hryntónlistarmenn. Markaðurinn er lítill. Undirbúningur tónleikahalds er tímafrekur, tímakaupið við æfingarnar lágt en kröfurnar ekki minni en hjá fjölmennustu þjóðum. Við þurfum flest að stunda önnur störf til að framfleyta okkur og halda svo tónleika í „frítímanum“.
Ekki agnúast ég út í Sinfóníuhljómsveit Íslands, alsaklausan Jakob Magnússon eða aðra sem hafa náð góðum árangri á tónlistarmarkaði hér á landi þótt ég hafi ekki átt möguleika á fastráðningu sem söngvari heldur varð að dveljast erlendis til að geta lifað af list minni. Það væri mikil einföldun.

Reyndar voru það útgjöld vegna tónleikaferðar Sinfóníuhljómsveitarinnar vestur um haf sem Jakob sá ofsjónum yfir. Með sama hætti má súpa hveljur yfir fjárframlögum til íslenskra leikhúsa og listasafna að ógleymdum stuðningi til framgangs bókmennta. Nú er ekki ljóst hvort Jakob vill skerða hlut tónlistar í fjárlögum almennt með því að skera Sinfóníuna niður við trog, jafna hlut hryntónlistar og sígildrar tónlistar eða auka heildarframlög til tónlistar.

Við lestur greinar hans situr einna helst eftir gremja hans yfir því að hafa verið vísað á náðhús í Bandaríkjunum og öfund út í sígilda tónlist. Er hún þó síst öfundsverð en hefur engu að síður verið hryggjarstykkið í uppbyggingu á tónlistarsviðinu. Þótt Stuðmenn séu góðir efast ég um að þjóðin vilji án Beethovens, Verdis og Jóns Leifs vera.

Viljum við vera þjóð meðal þjóða verðum við að standa straum af þeim kostnaði sem fylgir sinfóníuhljómsveit, þjóðarleikhúsi, listasöfnum og öðrum nauðsynlegum menningargæðum, m.a.s. þjóðarleikvangi fyrir íþróttakappleiki.

Ég vona að stjórnvöld skerði framlög til allrar tónlistar sem allra minnst. Til dæmis óska ég þess innilega að þau sjái sig um hönd og veiti Útflutningssjóði fjármagn til stuðnings nýgildri íslenskri tónlist. Segir sig samt sjálft að tónlistarmaður á borð við mig, sem flytur mestmegnis erlenda tónlist, þarf að leita annarra leiða til að fjármagna kynningar á erlendri grundu. Eitt léti ég mér þó aldrei til hugar koma. Það er að ásælast þá naumlega skömmtuðu fjármuni sem menningarstofnanir eða listamenn í öðrum greinum njóta til að leiðrétta ætlað misrétti gagnvart mér og mínum líkum.

Segja að mikilvægi skapandi greina sé oft vanmetið

Fréttablaðið birti í morgun umfjöllun um skapandi atvinnugreinar eftir Harald Guðmundsson blaðamann:

Skapandi greinar eins og bókaútgáfa, myndlist og kvikmyndagerð vilja oft gleymast þegar talað er um arðvænar og mikilvægar atvinnugreinar í íslenska hagkerfinu.

Í maí 2011 var kynnt skýrsla sem unnin var af stjórnvöldum og samráðsvettvangi skapandi greina um efnahagsleg áhrif greinanna. Samkvæmt henni var heildarvelta þeirra um 190 milljarðar króna árið 2009. Sama ár voru útflutningstekjur greinanna um 24 milljarðar króna, eða um þrjú prósent af heildarútflutningstekjum þjóðarinnar.

Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands og Laufey Guðjónsdóttir, forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, segja Íslendinga oft eiga erfitt með að skilja mikilvægi skapandi greina og að boðaður niðurskurður í opinberum fjárveitingum til greinanna hafi komið þeim í opna skjöldu.

Greinarnar orðnar sýnilegri
„Þetta eru greinar sem hafa verið mjög áberandi á síðustu fimm árum eða frá efnahagshruninu. Þá fórum við Íslendingar að fara oftar í leikhús, á tónleika og að sjá íslenskar kvikmyndir. Þess vegna er mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því að greinarnar eru mjög mikilvægar fyrir verðmætasköpun í íslensku atvinnulífi til lengri tíma,“ segir Halla.

Hún og Laufey benda á að smærri fyrirtæki eins og leikhópurinn Vesturport og kvikmyndaframleiðslufyrirtæki Baltasars Kormáks, Sögn, hafi að undanförnu aukið umsvif sín, bæði hér á landi og erlendis.

„Ég held að fáir hefðu trúað því fyrir tíu árum að íslensk leiklist gæti orðið að útflutningsvöru eins og hefur gerst í tilviki Vesturports,“ segir Laufey.

„Svo eru einnig önnur fyrirtæki úr skapandi greinum sem eru orðin stór og vaxandi fyrirtæki,“ segir Halla og nefnir sem dæmi Sagafilm, CCP og Íslensku auglýsingastofuna.

„Hér á landi eru einnig mörg stór fyrirtæki, eins og stoðtækjaframleiðandinn Össur, sem treysta á framlag hönnuða og þeirra listrænu sýn og forystu,“ bætir Laufey við.

Aðlaðandi fyrir ungt fólk
„Skapandi greinar þykja aðlaðandi fyrir ungt fólk og í Evrópu og öðrum heimsálfum vita menn að þetta eru vaxandi greinar og fjárfesta í þeim sem slíkum. Þessar greinar hafa mikið að segja varðandi ferðamennsku og það er margir hér á landi sem mennta sig innan þeirra. Því þurfum við að tryggja að þetta fólk fái góð störf og geti í framtíðinni nýst okkar samfélagi,“ segir Halla.

Hún bætir því við að sér þyki Íslendingar oft eiga erfitt með að skilja mikilvægi skapandi greina.

„Við skiljum byggingalist, bókaútgáfu og vægi kvikmyndagerðar en þegar kemur að greinum eins og vöruhönnun eða fatahönnun þá eru það miklu yngri og ómótaðri greinar hér á landi.“

Þegar tal berst að einstökum greinum sem hafa verið talsvert til umfjöllunar í fjölmiðlum upp á síðkastið nefnir Halla að íslensk kvikmyndagerð sé gott dæmi um mikla grósku innan skapandi greina.

„Kvikmyndagerð sameinar flestar greinarnar því þar eru innanborðs rithöfundar, leikarar, búningahönnuðir og aðrir. Fyrir nokkrum árum tóku þáverandi stjórnvöld ákvörðun um að fjárfesta í Kvikmyndasjóði og í kjölfarið vorum við komin með öflugan bransa sem veitir erlendum fyrirtækjum þjónustu,“ segir Halla.

„Íslensk kvikmyndagerð byggði grunninn sem var nauðsynlegur til að hingað gætu komið erlend stórfyrirtæki. Í öðrum greinum eins og fatahönnun er þessi grunnur enn í mótun og því er svo mikilvægt að þessar greinar fái áframhaldandi fjármagn frá hinu opinbera,“ segir Laufey.

Segja niðurskurðinn mikið högg
„Þessar greinar urðu sterkari og sýnilegri á erfiðum tímum og því finnst mér skjóta skökku við að nú þegar farið er að sjást í land eigi að fara í niðurskurð á framlagi ríkisins til þessara greina,“ segir Halla og vísar í fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir töluverðum niðurskurði í opinberum fjárveitingum til skapandi greina, þar á meðal til kvikmyndagerðar og myndlistar.

„Með þessum niðurskurði er hætta á að sú gerjun sem hefur átt sér stað hér á síðustu árum falli niður og þá verðmætasköpunin sem henni fylgir,“ segir Laufey.

Halla og Laufey segja tvær síðustu ríkisstjórnir hafa lagt aukna áherslu á að treysta grundvöll skapandi greina.

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs lagði á síðasta ári fram fjárfestingaráætlun sem átti meðal annars að leggja áherslu á uppbyggingu ákveðinna verkefnasjóða innan skapandi greina. Áætlunin átti að vera fjármögnuð með veiðileyfagjöldum og arðgreiðslum af eignarhluta ríkisins í viðskiptabönkum eða sölu á þeim eignarhlutum.

„Fyrri ríkisstjórn ákvað að fjárfesta í skapandi greinum til að flýta fyrir framþróun innan þessara greina. Núverandi ríkisstjórn strikar þessa fjárfestingaráætlun út. Við teljum að málið sé ekki svona einfalt og að það þurfi að skoða ávinninginn af þessum greinum og samhengið þar í kring. Því trúum við því að stjórnvöld endurskoði þessa ákvörðun,“ segir Halla.

Útflutningur á okkar menningu
Halla og Laufey segja einnig að menningarlegur og samfélagslegur ávinningur skapandi greina eigi til með að gleymast.

„Ísland er meðal annars komið á kortið vegna þessara greina. Bókmenntirnar eru orðin alvöru útflutningsvara og bækur rithöfunda eins og Guðbergs Bergssonar og Hallgríms Helgasonar eru seldar í bókabúðum víðs vegar um heim. Þetta er útflutningur á okkar menningu og lífsgildum og hann smitar út frá sér og á stóran þátt í því að ferðamenn koma hingað,“ segir Laufey.

„Vöxtur skapandi greina er langhlaup. Allir stjórnmálaflokkarnir töluðu um skapandi greinar í kosningabaráttunni en í kosningabaráttunni fyrir fjórum árum síðan talaði enginn um þær,“ segir Halla.

„Ég held að íslenskir listamenn og menningarlífið hér hafi algjörlega staðist áskoranir síðustu ára og það sést best á aukinni umfjöllun út á við,“ segir Laufey að lokum.

Sannmæli

Í morgun birtist í Fréttablaðinu grein eftir formann FTT, Jakob Frímann Magnússon:

Strandhögg íslenskra tónlistarmanna í Kennedy Center í Washington fyrr á þessu ári vakti athygli og fyrir sumt meira en annað.
Sinfóníuhljómsveit Íslands lék þar í aðalsal og naut að sjálfsögðu þeirrar fyrirmyndaraðstöðu, búningsherbergja og annars sem í boði er fyrir tónlistarmenn.

Menntamálaráðuneytið hóstaði léttilega upp 30 milljóna króna styrk svo að sveitin mætti fljúga, gista og snæða vel, eins og dagpeningar ríkisstarfsmanna gera ráð fyrir.

Íslensku hrynsveitirnar sem fram komu nutu auðvitað engra dagpeninga né opinberra styrkja frekar en fyrri daginn. Þær ferðuðust þetta á eigin yfirdrætti og undu glaðar við sitt í einum af smærri sölum hallarinnar sem þó skartaði góðum búningsherbergjum til að dveljast í milli atriða og skipta um föt fyrir tónleika.

Vísað inn á salerni
Þegar hrynverjar hugðust koma sér þar fyrir kom forstöðumaður hússins og rak alla úr búningsherbergjunum með fyrirmælum um að lið þetta mætti skipta um föt á salerni hússins og kúldrast þar uns menn yrðu kvaddir á svið!

Umrædd lýsing þarf svo sem ekki að koma neinum á óvart. Þetta er sama viðmótið og flytjendur nýgildrar tónlistar hafa mátt venjast um áratugaskeið.

Sjálfskipaðir menningarpáfar Íslands og útverðir sígildrar tónlistar af þýska skólanum þreyttust ekki á að viðhafa hrakyrði opinberlega um t.a.m. jazztónlist sem kölluð var „hóruhúsatónlist“ og „tónlist djöfulsins“ sem helst ætti að bannfæra með öllu! Poppplötur voru brotnar í hinum gylltu sölum RÚV til að fyrirbyggja mengunaráhrifin af þeim, og stórum hluta af myndbandsupptökum Sjónvarpsins af ármönnum íslenskrar hryntónlistar var hreinlega eytt eða annað efni „göfugra“ tekið upp á sömu spólur. Sá hluti tónlistarsögu okkar er sumsé glataður.

Fyrir 30 árum hófst markviss sókn íslenskra hryntónlistarmanna á erlenda markaði, með öllum þeim áhættuþáttum og gífurlega kostnaði sem slíku fylgir.

Snemma var horft til stoðkerfa annarra þjóða og eftir áratuga baráttu fyrir e.k. Útflutnings- og þróunarsjóði var loksins tilefni til fagnaðar á sl. ári er tilkynnt var að flytjendur nýgildrar tónlistar hefðu nú verið bænheyrðir í ljósi þeirra merka framlags til menningarlífs Íslands, ímyndar þess og ómetanlegrar landkynningar.

Baráttan hafði reyndar hafist árið 1998 með vilyrði þáverandi iðnaðarráðherra um sjóð, sambærilegan Kvikmyndasjóði, er byggjast mundi á virðisaukaskatti af hljómplötusölu sem þá hefði myndað sjóð að upphæð 150 milljónir kr.

Sjóðurinn langþráði sem loks leit dagsins ljós árið 2012 nam hins vegar einungis 20 milljónum króna og glöddust menn mjög af litlu, enda litlu vanir. Sjóðsstjórn var skipuð, reglur voru samdar og fyrirbærið auglýst og ríkti gleði yfir hinum nýja áfanga. Loks gætu hryntónlistarmenn sótt sínar tónlistarhátíðir og sín tónleikaferðalög erlendis með tilheyrandi frakt og útgerðarkostnaði án þess að borga með sér.

Innan við 5 prósent
Adam var þó ekki lengi í Paradís. Það fyrsta sem kastað var út við gerð nýrra fjárlaga var umræddur Útflutningssjóður!

20 þúsund milljónir til íslenskra kúabænda standa óhaggaðar á meðan 20 milljónir til íslenskra geisladiskabænda eru slegnar af með einu pennastriki!

Þetta beinir óþægilegum kastljósum að nýlegri samantekt FTT á opinberum tölum sem speglar þá staðreynd að af öllum samanlögðum framlögum ríkis og sveitarfélaga til tónlistarlífs á Íslandi er hlutur hryntónlistar ennþá, eftir allt sem á undan er gengið, innan við 5%. FIMM PRÓSENT!

Línurnar, sem lagðar voru á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar af hinum þýsk-andaktugu forkólfum íslensks menningarlífs þess tíma, eru sumsé allsendis óbreyttar árið 2013!
Þeim sem fást við að semja og flytja íslenska tónlist um víða veröld er náðarsamlegast vísað á náðhús, á meðan hlaðið er undir löngu látin þýsk tónskáld!

Skyldi virkilega ekki tími til kominn að þeir íslensku höfundar og flytjendur sem hér er um fjallað fái loks að njóta sannmælis?
Slík stefnubreyting myndi marka sannkölluð vatnaskil í hrynheimum og íslensku menningarlífi á 21. öld.

Er stolið mikið á þínu heimili?

Bubbi Morthens skrifar grein í Fréttablaðið í dag undir þessari áleitnu fyrirsögn. Greinin fer hér á eftir:

Það hefur verið sagt að Íslendingar steli mest af hugbúnaði miðað við höfðatölu. Þetta sá ég í blöðunum hér fyrir margt löngu. Þá er víst verið að tala um tölvuhugbúnað og annað sem honum tengist, síðan koma í kjölfarið auðvitað kvikmyndir, tónlist og mjög líklega verða bækurnar næsta dæmi um það sem menn stela.

Ég hef skrifað um þetta áður og svörin sem ég hef fengið eru á þessa leið: „Þú gerðir díl við bankann.“ „Þú átt þetta skilið því þú hefur selt svo mikið af plötum.“ „Sannaðu að þetta sé þjófnaður.“ „Hef aldrei keypt plötu með þér og fer ekki að byrja á því núna.“ „Þetta gera allir.“ „Diskar eru svo dýrir.“ „Þú átt pening.“ „Farðu nú að halda kjafti.“ „Þetta er nýi tíminn.“ „Fólk vill ekki kaupa diska.“ „Haldið bara tónleika og hættið að væla.“

Þetta eru bara nokkur svör sem ég fékk við að fjalla um þetta. Það er eitt sem ég skil ekki og það er það að fólki finnst í alvöru í lagi að hafa af mönnum tekjur fyrir vinnu sína! Að það sé ekki meiri virðing borin fyrir því sem menn gera. Auðvitað veit ég að það er stór hópur sem enn þá hefur siðferðið í lagi og stelur ekki.

Gjörsamlega galið
Tónlistarmaðurinn David Byrne skrifar merkilega grein þar sem hann varar við að niðurhal tónlistar af internetinu, og nefnir Spotify sem dæmi, geti í raun komið tónlistarmönnum á kaldan klaka. Hann nefnir einnig lag með Daft Punk sem heitir Get Lucky og var langvinsælasti smellur sumarsins.

Það var sótt meira en 100 milljón sinnum á Spotify. Byrne segir að meðlimir hljómsveitarinnar fái um þrettán þúsund Bandaríkjadali hvor fyrir vikið eða rétt um 1,5 milljónir króna. Þetta er fyrir plötu sem tók afar langan tíma að hljóðrita og var mjög dýr í vinnslu. Þetta er auðvitað gjörsamlega galið. Hefði þetta verið tveggja laga plata sem hefði verið seld í 10 milljónum eintaka þá væru þessir menn millar.

Þetta er ágætis dæmi um hvernig þróunin er að verða þar sem fólk greiðir fyrir niðurhal. Listamaðurinn fær nánast ekkert en sá sem stofnar veituna fær milljarða. Þróunin gæti orðið sú að menn einfaldlega hætta að búa til list ef höfundarrétturinn er ekki virtur.

Ef ég kaupi málverk eftir Kjarval og geri síðan eftirprentanir og býð öllum sem vilja að fá sér eintak þá yrði ég stöðvaður og ákærður. Og svar mitt yrði að þetta væri nýr tími og menn yrðu bara að aðlaga sig. Býst nú ekki við að það yrði hlustað á mig. En af því að þetta er netið og þetta er tónlist eða kvikmynd þá er í lagi að stela og hafa af mönnum höfundarréttinn.

Hvert eintak skiptir máli
Að gera plötu á Íslandi kostar mig í kringum 2-5 milljónir. Hvert selt eintak skiptir máli. Það er auðvelt fyrir svo marga að réttlæta að það sé í lagi að hala niður ólöglega. Þú þarft aldrei að horfa í augun á þeim sem þú ert að ræna. Til dæmis hér á landi er komin kynslóð sem er alin upp við að þetta sé í lagi. Foreldar biðja jafnvel börnin að ná í tónlist eða kvikmynd fyrir sig. Þú ert ekki inni í búð að lauma inn á þig, þú gerir þetta heima, í öruggu umhverfi.

Nú er fólk komið á þing sem telur þetta eðlilegt og vill einfaldlega að ég aðlagi mig og komi til móts við þjófana. Þetta er umhverfið sem íslenskir og erlendir tónlistarmenn búa við. Ég geri mér grein fyrir að þetta er flókið vandamál en ég geri mér líka grein fyrir að þetta er siðferðislegt vandamál.

Meira að segja DV er farið að kenna mönnum hvernig hala á niður ólöglega. Leiðbeiningar um hvernig skuli fara fram hjá höfundarrétti eru ekki neytendavænar, þó að hægt sé að notfæra sér þær til að nálgast efni á ódýrari hátt en með löglegum leiðum. Það mætti líkja leiðbeiningum DV við leiðbeiningar um hvernig hægt er að smygla annars löglegri vöru fram hjá tollinum, hvort sem það væri iPhone, áfengi eða eitthvað annað.

Skriðjöklar hét hljómsveit sem gerði plötu sem hét „Er sungið mikið á þínu heimili?“. Ég gæti alveg eins spurt þig: Er stolið mikið á þínu heimili?

Að slá Sleipni af

Leikskáldið og ritstjórinn Mikael Torfason, ritar leiðara í Fréttablaðið í morgun, þar sem áformaður niðurskurður til kvikmyndagerðar er umfjöllunarefnið:

Hross í oss eftir Benedikt Erlingsson er ein besta bíómynd sem undirritaður hefur séð. Þessi mynd er á heimsmælikvarða og stefnir nú, sem eitthvert efnilegasta trippi sem sést hefur síðan Sleipnir Óðins var og hét, sigurför út í heim. Um síðustu helgi var Benedikt verðlaunaður á Spáni og erlendir gagnrýnendur og kvikmyndaspekúlantar halda ekki vatni yfir snilldinni.

Í þessari viku var fjárlagafrumvarp lagt fyrir alþingi og í því segir að fjármagn til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands verði skorið niður um rúm fjörutíu prósent. Við erum flest sammála um að mikilvægt sé að sýna aðhald í rekstri ríkisins. Hins vegar er ekki skynsamlegt að draga um of úr fjárframlögum til íslenskra kvikmynda.

Friðrik Þór Friðriksson kvikmyndagerðarmaður líkti tíðindunum við að að nú væri verið að slátra mjólkurkúnni. Taka má undir það sjónarmið því rannsóknir sýna að fjárfesting ríkisins í íslenskum kvikmyndum er arðbær. Til er rannsókn sem nær til áranna 2006-2009 og sýnir að þeir 2,7 milljarðar sem íslenska ríkið lagði til kvikmyndagerðar á tímabilinu löðuðu að sér 4 milljarða af innlendu fjármagni og 5,2 milljarða af erlendu fjármagni.

Kvikmyndagerðarfólk talar um að frumforsenda fyrir því að hægt sé að fjármagna kvikmyndir sé fjármagn frá Kvikmyndamiðstöð. Þannig, og aðeins þannig, fáist fjármagn á móti úr erlendum kvikmyndasjóðum.
Tölurnar ættu að sýna svart á hvítu að styrkir til íslenskrar kvikmyndagerðar skila sér til baka í þjóðarbúið með vöxtum, vaxtavöxtum og afleiddum störfum.

Enda sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í viðtali við Kastljós fyrir rétt um þremur vikum að það stæði ekki til að skera framlög til Kvikmyndamiðstöðvar niður um fjörutíu prósent.

Hann var spurður að þessu hreint út og sagði slíkan niðurskurð alls ekki á dagskrá. Enda útskýrði Sigmundur fyrir Sigmari Guðmundssyni, spyrli Kastljóss, að í þeim efnahagsþrengingum sem landið hefur gengið í gegnum síðustu ár hefðu menningin og listirnar sannað mikilvægi sitt:

„Við höfum líka séð að þessar greinar skapa áþreifanlega raunveruleg efnahagsleg verðmæti. Ekki bara þau gæði sem erfitt er að mæla í fjármagni. Þessar greinar skapa líka verulegan ávinning fyrir samfélagið efnahagslega,“ sagði Sigmundur Davíð og óhætt er að taka undir þessi orð hans.

Í heildina ver íslenska ríkið um tíu milljörðum í menningu og listir en geirinn veltir um tvö hundruð milljörðum á ári.

Fjárlagafrumvarpið er nú til umræðu á alþingi og vonandi að þingmenn sjái að sér og slái ekki Sleipni af svo notað sé myndmál sem áhorfendur Hross í oss geta tengt við. Það eru auðvitað engin rök gegn niðurskurði til Kvikmyndamiðstöðvar að Benedikt Erlingsson sé góður leikstjóri og skeiði á milli kvikmyndahátíða.

Umræðan þarf ekki að snúast um smekk, hún þarf heldur ekki að snúast um þá trúverðugu kenningu að Íslendingar þurfi á því að halda að geta speglað líf sitt og aðstæður í íslenskum kvikmyndum. Umræðan þarf ekki einu sinni að snúast um að íslenskar kvikmyndir leggi sitt af mörkum hvað varðar fjölgun ferðamanna – að þær séu liður í landkynningu.

Þetta er hrein og klár stærðfræði, debet og kredit, og snýst um krónur og aura. Fyrir liggur að það borgar sig fyrir ríkið að fjárfesta í íslenskum kvikmyndum. Hvers vegna í ósköpunum ættum við þá ekki að gera það?

Þannig aukum við lífsgæði

Birna Hafstein, formaður Sjálfstæðu leikhúsanna, skrifar eftirfarandi grein í Fréttablaðið í morgun í tilefni af boðuðum niðurskurði á opinberum fjárframlögum til starfsemi ativnnuleikhópa:

Sjálfstæðu leikhúsin (SL), samtök atvinnufólks í sviðslistum á Íslandi, harma þann mikla niðurskurð til sjálfstæðra sviðslistahópa sem boðaður er í fjárlögum 2014.
Innan sjálfstæða sviðslistageirans er að finna aðalvaxtarbrodd íslenskra sviðslista, nýsköpun, rannsóknir og tækifæri ungs sviðslistafólks til að láta að sér kveða. Jafnframt er meirihluti allra uppsetninga sjálfstæðra hópa ný íslensk verk sem stuðla að framþróun sviðslista með nýsköpun og frumleika.
Sjálfstæðir sviðslistahópar hafa einnig tekið forystu í kynningu á íslenskum sviðslistum á erlendum vettvangi og hafa staðið að markvissri uppbyggingu á alþjóðlegu tengslaneti fyrir tilstuðlan SL og framsækinna sviðslistahópa eins til dæmis Vesturports og Shallala Ernu Ómarsdóttur.
Ísland hefur á síðustu árum verið kröftugur vettvangur skapandi greina sem hafa fjölgað störfum og skapað gjaldeyristekjur eins og glöggt má sjá í skýrslu sem unnin var um hagræn áhrif þeirra. Í þeirri skýrslu eru færðar sönnur á mikilvægi skapandi greina sem einnar af helstu tekjulindum íslenska ríkisins. Þessi skýrsla var unnin í samvinnu og með stuðningi allra helstu ráðuneyta.
Það er því með öllu óskiljanlegt að ekki sé haldið áfram að byggja upp og styðja við skapandi greinar þegar ljóst er að Ísland þarf að halda áfram að byggja upp atvinnulíf sem byggir á hugviti og sköpunarkrafti.
Skapandi greinar eru að stórum hluta lykillinn að því að vekja athygli á Íslandi sem áhugaverðum kosti fyrir ferðamenn. Þær eru grunnur að öflugu menningarlífi, nýsköpun og umbreytingu í atvinnulífi og forsenda fyrir farsælu þjóðfélagi.
Stjórn Sjálfstæðu leikhúsanna– SL hvetur því ríkisstjórn og þingmenn til að draga til baka niðurskurð upp á 24% til starfsemi atvinnuleikhópa í fjárlagafrumvarpi og gefa þeim tækifæri til að halda áfram að byggja upp fjölbreytt og skapandi Ísland. Þannig aukum við tekjur ríkissjóðs – þannig aukum við lífsgæði!

Niðurskurðaráform stjórnvalda kalla fram sterk viðbrögð

Í gær var fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar gert opinbert og er óhætt að segja að þar komi margt afar illa við listamenn sem reiða sig á stuðning verkefnatengdra sjóða í starfi sínu.  Bæði Félag kvikmyndagerðarmanna og Samtök kvikmyndaleikstjóra hafa sent frá sér ályktanir vegna áforma um niðurskurð og segja að nái þau fram að ganga muni það kalla hrun yfir íslenska kvikmyndagerð. Yfirlýsingar félaganna fara hér á eftir:

Félag kvikmyndagerðamanna harmar fréttir um niðurskurð ríkisstjórnarinnar til Kvikmyndasjóðs sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu sem lagt hefur verið fyrir Alþingi. Sú uppbygging og fjárfesting sem hefur átt sér stað í kvikmyndageiranum frá árinu 2012 og varð að veruleika 2013 verður nú að engu og afleiðingar grafalvarlegar fyrir þennan viðkvæma iðnað.

Þessi niðurskurður mun því miður fyrst og fremst kippa fótunum undan innlendri kvikmyndagerð sem stóð mjög völtum fótum eftir þá atlögu sem var gerð þegar sjóðirnir voru skornir niður um 35% 2009. Nú er fjármagnið skorið niður um 42% sem er hrein atlaga að greininni. Áætla má að rúmlega 200 ársstörf tapist í kvikmyndagerð og ljóst er að bæði þekking og faglegt vinnuafl mun hverfa úr landi.

Fjármögnun íslenskra kvikmynda byggir fyrst og fremst á góðu grunnfjármagni frá Kvikmyndasjóði og það hefur hefur verið sýnt fram á það að hver króna margfaldast við það (sjá Hagræn áhrif kvikmyndagerðar eftir Dr. Ágúst Einarsson, Bifröst 2011).

Friðrik Þór Friðriksson kvikmyndagerðarmaður líkti fyrirhugðum niðurskurðaraðgerðum ríksistjórnarinnar við að „slátra mjólkurkúnni“ við tökum heilshugar undir þau orð. Við hvetjum Alþingi til að leiðrétta þennan örlagaríka kúrs og forða íslenskri kvikmyndamenningu frá hruni en við slíkar aðstæður og síendurtekinn niðurskurð getur engin atvinnugrein vaxið og dafnað.

42% niðurskurður til kvikmyndagerðar
Samtök kvikmyndaleikstjóra fordæma harkalega þann mikla niðurskurð á framlögum til kvikmyndagerðar, sem lagður er til í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2014. Ef fram fer sem horfir er þetta stærsti einstaki niðurskurður sem greinin hefur orðið fyrir.

Þetta yrði mikið áfall en á sama tíma illskiljanlegt. Í framhaldi af stóra niðurskurðinum árið 2010 virtist þverpólitísk samstaða um að auka þyrfti verulega fjárfestingu í íslenskri kvikmyndagerð, m.a. vegna jákvæðra hagrænna áhrifa hennar. Íslensk kvikmyndagerð er atvinnugrein í örum vexti sem skapar mikil efnahagsleg og menningarleg verðmæti fyrir þjóðina.

Með tillögum sínum hefur ríkisstjórnin tekið pólitíska ákvörðun um að afþakka hreinar tekjur upp á hundruði milljóna. Rúmlega 200 ársverk myndu tapast vegna þessarar ákvörðunar, þekkingarflótti yrði úr greininni og auknar byrðar yrðu lagðar á ríki í formi atvinnuleysisbóta. En ekki síst verður þjóðin af menningarverðmætum, fjölda verka á okkar tungumáli og sem sprottin eru úr okkar veruleika. Við verðum af sögum sem taka þátt í að skapa sjálfsmynd okkar og eru veigamikill hluti í hinu andlega heilbrigðiskerfi.

Íslensk kvikmyndagerð skapar ekki bara atvinnu heldur er einnig ímyndar- og gjaldeyrisskapandi. Það er nauðsynlegt að frumstuðningur komi að heiman, til að fjármagn náist að utan og sýnt hefur verið fram á með óyggjandi hætti, að hver króna sem ríkið fjárfestir í kvikmyndagerði komi margföld til baka. Hér verður ekki uppskorið nema það sé sáð.

Íslensk kvikmyndagerð hefur slitið barnsskónum og er sú atvinnugrein, ásamt ferðaþjónustu, sem er í hvað örustum vexti, enda eru þessar tvær greinar samtengdar. Íslenskir kvikmyndagerðarmenn vekja í sífellt meira mæli athygli á landi og þjóð á erlendri grundu með kvikmyndum sínum.

Það hefur tekið nokkur ár að græða þau sár sem urðu við niðurskurðinn 2010. Þau eru ekki fullgróin, en í greinina var kominn aukinn kraftur og bjartsýni. Eftir langa eyðimerkurgöngu var uppgangur framundan. Mannauður og fjármagn virtist nægjanlegt til þess að taka næstu skref, en aftur eru vopnin slegin úr höndunum á kvikmyndagerðarfólki og byrjunarreitur blasir við.

Það segir sig sjálft að uppbygging og áætlanagerð er öll úr skorðum. Við skorum á stjórnvöld að leiðrétta þessi áform áður en óbætanlegur skaði er skeður.

Ákall um aukna fjárfestingu í íslenskri menningu

Ragnar Bragason skrifaði eftirfarandi grein í Morgunblaðið 7. sept. sl.:

Við horfum björtum augum til framtíðar. Eftir langa eyðimerkurgöngu er loksins uppgangur innan kvikmyndagreinarinnar. Á þessu ári tvöfölduðust framlög til Kvikmyndasjóðs í gegnum fjárfestingaráætlun og til að svara auknum umsvifum var stefnt að því að fjárfesting ykist enn frekar til ársins 2015.

Þessi aukning var ekki úr lausu lofti gripin.

Þverpólitísk samstaða varð í framhaldi af opinberum rannsóknum, skýrslugerðum og bókaskrifum sem leiddu í ljós mikil hagræn áhrif kvikmyndagerðar. Fulltrúar allra flokka á Alþingi fóru í pontu og lýstu yfir skoðun sinni að auka þyrfti framlög til fjársveltrar atvinnugreinar sem væri í örum vexti.

Afleiðingar þessa eru m.a að hátt í fjórðungs veltuaukning frá fyrra ári varð í greininni á fyrstu fjórum mánuðum ársins og á árinu hafa orðið til um 240 ný ársverk. Þetta skilar sér í rúmlega 1.200 milljónum í beinar tekjur til ríkissjóðs.

Íslensk kvikmyndagerð skapar ekki bara atvinnu heldur er einnig gjaldeyrisskapandi. Rúmur milljarður í kvikmyndasjóð dregur að sér annað eins í erlendu fjármagni enda rekur greinin sig að stórum hluta á því sem íslenskir kvikmyndagerðarmenn draga inn í landið eftir að frumstuðningur kemur að heiman.

Þessi aukna fjárfesting hjálpar einnig til við að svara þeirri aðkallandi þörf að hlutur kvenna verði aukinn, átak verði gert í framleiðslu á efni fyrir börn og unglinga og búið verði í haginn fyrir nýliðun. En einnig er mikilvægt að komið hefur verið í veg fyrir frekari atgerfisflótta eftir að talsvert varð um að lykilfólk innan greinarinnar flutti erlendis hin mögru ár í kjölfar stóra niðurskurðarins 2010.

Íslensk kvikmyndagerð hefur slitið barnsskónum og er sú atvinnugrein, ásamt ferðaþjónustu, sem er í hvað örustum vexti enda eru þessar tvær greinar samtengdar. Stór hluti þeirra ferðamanna sem hingað koma tilgreina kynni sín af menningu og listum sem meginástæðu fyrir heimsókn sinni.

Stærstur hluti þeirra íslensku mynda sem framleiddar eru fara á virtustu kvikmyndahátíðir heims þar sem margar hverjar hljóta verðlaun og viðurkenningar og íslenskir kvikmyndagerðarmenn vekja í sífellt meira mæli athygli á landi og þjóð á erlendri grundu. Baltasar Kormákur átti nýverið mynd í efsta sæti vinsældalistans í Bandaríkjunum (í annað sinn!) og Guðmundur Arnar Guðmundsson fékk verðlaun fyrir stuttmynd sína Hvalfjörður á Cannes nú í vor. Hann bankar á dyrnar með að gera sína fyrstu mynd í fullri lengd, sem og margir efnilegir ungir leikstjórar er vakið hafa mikla athygli eins og Ása Helga Hjörleifsdóttir, Ísold Uggadóttir og fleiri.

Aukin fjárfesting er frábær. En betur má ef duga skal. Mörg aðkallandi verkefni eru framundan og það er mín von að núverandi ríkisstjórn auki fjárfestingu og framlög til kvikmyndagerðar umfram það sem nú er. Það er allra hagur, hvort sem er í efnahags eða menningarlegu tilliti.

Page 4 of 7« First...23456...Last »