Gunnar Guðbjörnsson formaður FÍT – Félags íslenskra tónlistarmanna skrifar eftirfarandi grein í Fréttablaðið í morgun:
Drög að fjárlögum gefa fólki í skapandi greinum ekki ástæðu til bjartsýni þótt þakkarvert sé að hlífa lykilstofnunum á menningarsviðinu. Meðal listamanna í grasrótinni er útlitið hinsvegar svart.
Jakob Magnússon benti á erfiða stöðu fólks í nýgildri tónlist í grein í Fréttablaðinu síðastliðinn miðvikudag. Ég er sammála Jakobi um nauðsyn á stuðningi við nýsköpun í tónlist og kæri mig kollóttan um hvaða nafni hún nefnist. Hin nýgilda óperutónlist Gunnars Þórðarsonar verður flutt í Íslensku óperunni á næsta ári og í næsta mánuði flytur Sinfóníuhljómsveit Íslands tónlist Skálmaldar.
Þar fyrir utan skila fjárfestingar í skapandi greinum, sem öll tónlist tilheyrir, sígild og nýgild, ávinningi hvort heldur það er í krónum eða auknum lífsgæðum. Hinsvegar nær ekki nokkurri átt að kalla „útverði sígildrar tónlistar af þýska skólanum“ helstu óvildarmenn nýgildrar tónlistar. Nýlega birtist ég á skjáum landsmanna og túlkaði söngljóð Schumanns í þættinum Útúrdúr og hlýt því að vera holdgervingur þessara illu afla.
Í dag stunda ég umfram allt söngkennslu en horfi satt best að segja með eftirsjá til áranna sem starfandi tónlistarmaður í Þýskalandi, Bretlandi og Frakklandi. Ekki er þar með sagt að slæmt sé að syngja fyrir Íslendinga og vera útvörður sígildrar tónlistar en hinn stórtæki fjárhagslegi stuðningur við störf mín, sem Jakob gefur í skyn, hefur gjörsamlega farið framhjá mér.
Í sama fámenni
Flytjendur sígildrar tónlistar búa í sama fámenni og hryntónlistarmenn. Markaðurinn er lítill. Undirbúningur tónleikahalds er tímafrekur, tímakaupið við æfingarnar lágt en kröfurnar ekki minni en hjá fjölmennustu þjóðum. Við þurfum flest að stunda önnur störf til að framfleyta okkur og halda svo tónleika í „frítímanum“.
Ekki agnúast ég út í Sinfóníuhljómsveit Íslands, alsaklausan Jakob Magnússon eða aðra sem hafa náð góðum árangri á tónlistarmarkaði hér á landi þótt ég hafi ekki átt möguleika á fastráðningu sem söngvari heldur varð að dveljast erlendis til að geta lifað af list minni. Það væri mikil einföldun.
Reyndar voru það útgjöld vegna tónleikaferðar Sinfóníuhljómsveitarinnar vestur um haf sem Jakob sá ofsjónum yfir. Með sama hætti má súpa hveljur yfir fjárframlögum til íslenskra leikhúsa og listasafna að ógleymdum stuðningi til framgangs bókmennta. Nú er ekki ljóst hvort Jakob vill skerða hlut tónlistar í fjárlögum almennt með því að skera Sinfóníuna niður við trog, jafna hlut hryntónlistar og sígildrar tónlistar eða auka heildarframlög til tónlistar.
Við lestur greinar hans situr einna helst eftir gremja hans yfir því að hafa verið vísað á náðhús í Bandaríkjunum og öfund út í sígilda tónlist. Er hún þó síst öfundsverð en hefur engu að síður verið hryggjarstykkið í uppbyggingu á tónlistarsviðinu. Þótt Stuðmenn séu góðir efast ég um að þjóðin vilji án Beethovens, Verdis og Jóns Leifs vera.
Viljum við vera þjóð meðal þjóða verðum við að standa straum af þeim kostnaði sem fylgir sinfóníuhljómsveit, þjóðarleikhúsi, listasöfnum og öðrum nauðsynlegum menningargæðum, m.a.s. þjóðarleikvangi fyrir íþróttakappleiki.
Ég vona að stjórnvöld skerði framlög til allrar tónlistar sem allra minnst. Til dæmis óska ég þess innilega að þau sjái sig um hönd og veiti Útflutningssjóði fjármagn til stuðnings nýgildri íslenskri tónlist. Segir sig samt sjálft að tónlistarmaður á borð við mig, sem flytur mestmegnis erlenda tónlist, þarf að leita annarra leiða til að fjármagna kynningar á erlendri grundu. Eitt léti ég mér þó aldrei til hugar koma. Það er að ásælast þá naumlega skömmtuðu fjármuni sem menningarstofnanir eða listamenn í öðrum greinum njóta til að leiðrétta ætlað misrétti gagnvart mér og mínum líkum.