Stjórn BÍL hélt 11 reglulega fundi á starfsárinu. Aðildarfélög BÍL eru fjórtán talsins. Hér er listi yfir formenn félaganna ásamt nöfnum þeirra stjórnarmanna, sem komið hafa að starfi stjórnar BÍL á árinu:Arkitektafélag Íslands, AÍ, – formaður: Logi Már Einarsson (fulltr í stjórn BÍL: Gíslína Guðmundsdóttir)
Félag íslenskra leikara; FÍL, – formaður: Randver Þorláksson
Félag íslenskra listdansara; FÍLD, – formaður: Guðmundur Helgason
Félag íslenskra tónlistarmanna; FÍT, – formaður: Kristín Mjöll Jakobsdóttir/Nína Margrét Grímsdóttir (varamaður Hallveig Rúnarsdóttir)
Félag íslenskra hljómlistarmanna; FÍH, – formaður: Björn Th. Árnason
Félag kvikmyndagerðarmanna FK, – formaður: Hrafnhildur Gunnarsdóttir (varamaður Anna Þóra Steinþórsdóttir)
Félag leikstjóra á Íslandi FLÍ, – formaður: Jón Páll Eyjólfsson (varamaður Gunnar Gunnsteinsson)
Rithöfundasamband Íslands RSÍ, – formaður: Kristín Steinsdóttir (varamenn Jón Kalmann Stefánsson og Kristín Helga Gunnarsdóttir )
Samband íslenskra myndlistarmanna; SÍM, – formaður: Hrafnhildur Sigurðardóttir
Samtök kvikmyndaleikstjóra; SKL, – formaður: Ragnar Bragason
Tónskáldafélag Íslands; TÍ, – formaður: Kjartan Ólafsson
Félag tónskálda og textahöfunda; FTT, – formaður: Jakob Frímann Magnússon
Félag leikmynda- og búningahöfunda; FLB, – formaður: Rebekka Ingimundardóttir (varamaður Þórunn María Jónsdóttir)
Félag leikskálda og handritshöfunda; – formaður: Hávar Sigurjónsson

Fulltrúar BÍL í nefndum og ráðum (jan 2013):

Menningar- og ferðamálaráð Kolbrún Halldórsdóttir áheyrnarfulltrúi
Reykjavíkur Hrafnhildur Sigurðadóttir áheyrnarfulltrúi

Fulltrúar í faghópi menningar- og ferðamálaráðs Rvíkur 2012:
Sólrún Sumarliðadóttir menningarfræðingur og tónlistarm.
Gunnar Hrafnsson tónlistarmaður
Randver Þorláksson leikari
Lárus Ýmir Óskarsson leikstjóri
Ólöf Nordal myndlistarmaður

Kvikmyndaráð Ágúst Guðmundsson skipaður til 30.09.2012
Ásdís Thoroddsen, varamaður

Barnamenningarsjóður Kristín Mjöll Jakobsdóttir 15.08.2011 – 14.08.2013
Rebekka Ingimundard varamaður

Fulltrúaráð Listahátíðar Kolbrún Halldórsdóttir

Stjórn listamannalauna Margrét Bóasdóttir 10.10.2012 til 01.10.2015
Randver Þorláksson varamaður

Stjórn Skaftfells Hrafnhildur Sigurðardóttir
Ásta Ólafsdóttir, varamaður

Menningarfánaverkefni Reykjavíkurborgar Karen María Jónsdóttir

List án landamæra Edda Björgvinsdóttir

Fulltrúi í samráðshóp um málefni ungs fólks Agnar Jón Egilsson skipaður 12.06.12
Oddný Sen, varamaður

Stjórn Gljúfrasteins Kolbrún Halldórsdóttir skipuð til 22. apríl 2016

Umsagnarnefnd v/heiðurslauna Pétur Gunnarsson skipaður 17. des. 2012

Forseti BÍL er fulltrúi mennta- og menningarmálaráðherra í stjórn Íslandsstofu og í stjórn Listaháskóla Íslands, formaður þar síðan 16. desember 2011. Forseti gegnir formennsku í fagráði Íslandsstofu í listum og skapandi greinum. Þá er forseti formaður stjórnar Leikminjasafns Íslands. Forseti var kjörinn í fagráð Austurbrúar, sameinaðrar stoðstofnunar sveitarfélaga á Austurlandi, á stofnfundi 8. Maí 2012 og var skipaður í ráðgjafarhóp Samtaka Sveitarfélaga á Höfuðborgarsvæðinu vegna sóknaráætlunar 20/20. Þá á forseti sæti í úthlutunarnefnd Minningarsjóðs Guðjóns Samúelssonar og í úthlutunarnefnd námsmannastyrkja Landsbanka Íslands -Námunnar. Forseti BÍL átti sæti í starfshópi um starfsskilyrði skapandi greina, sem mennta- og menningarmálaráðherra setti á laggirnar vorið 2011, hópurinn skilaði tillögum sínum í október 2012.

Skattamál og félagsleg réttindi
Starfsáætlun BÍL, sem samþykkt var aðalfundi 28. janúar 2012 hefur legið til grundvallar starfi Bandalagsins þetta árið ásamt með ályktunum þess sama fundar. Segja má að verkefnin skiptist upp í hagsmunagæslu, sem aldrei tekur enda annars vegar og svo tímabundin verkefni sem hægt er að ljúka hins vegar. Af dæmigerðri hagsmunagæslu Bandalagsins má nefna skattamál og réttindi til fæðingarorlofs og atvinnuleysisbóta. Í þeim málaflokkum hefur ekki dregið til stórra tíðinda á árinu, þó hefur BÍL verið í sambandi við formann efnahags- og skattanefndar Alþingis og rætt mögulegt áframhald frumvarps til laga um virðisaukaskatt frá í desember 2011, þar sem ákveðið var að fresta meðhöndlun tillgöu um undanþágugrein laganna varðandi listaverk. Eftir að þingið frestaði afgreiðslu þess máls má segja að þeir listamenn, sem vinna listmuni eða við listhandverk, hafi ekki orðið varir við aðgerðir skattyfirvalda í líkingu við það sem var. Einnig hefur það áhrif að skýrslan „Skapandi greinar – Sýn til framtíðar“, sem kynnt var 19. október 2012, hefur að geyma tillögur í skattamálum, sem falla algerlega að stefnu BÍL í málaflokknum. Þar er lagt til að lögum um virðisaukaskatt verði breytt þannig að skattlagning og skilgreinining listaverka og listmuna verði sambærileg við það sem gerist á Norðurlöndunum. Einnig að stjórnvöld taki afstöðu til óska listamanna um skattalega meðferð launatekna listamanna annars vegar og tekna sem aflað er með leigu af hugverkaeign hins vegar. Loks er lagt til að stjórnvöld taki afstöðu til þess hvort hækka beri greiðslur úr launasjóðum listafólks til samræmis við reglur RSK um mánaðarlegt reiknað endurgjald. Það er því nokkuð ljóst að næsti leikur í þessu málum er hjá ríkisvaldinu, sem um þessar mundir er að skipa þverfaglegan samstarfshóp, sem fær það verkefni að fylgja eftir tillögum skýrslunnar að samræmdri uppbyggingu skapandi atvinnugreina. Nánar verður fjallað um efni skýrslunnar síðar í þessari skýrslu.

Opinber stuðningur við listir og menningu.
Óhætt er að segja að áfram miði í rétta átt hvað varðar það baráttumál listafólks að úthlutun opinbers fjár til verkefna á sviði lista og menningar verði leyst af hendi með sem faglegustum hætti. BÍL átti sinn þátt í því að á fjárlögum 2012 var fjármunum á þessu sviði veitt í meira mæli en áður til sjóða, sem hafa það lögbundna hlutverk að styðja við listir og menningu, í stað þess að fjárlaganefnd þingsins auglýsi eftir umsóknum og veiti sjálf styrki til menningartengdra verkefna. Þessi þróun heldur sem betur fer áfram á yfirstandandi ári. Þannig hækka framlög milli áranna 2012 og 2013 í þá sjóði sem helst snerta störf listamanna. Launasjóðir listamanna hækka úr 488.9 m.kr. í 506.2 m.kr, Kvikmyndasjóður úr 515 í 1.020, Tónlistarsjóður úr 47 í 81, að auki verður 20 m.kr. varið til útflutnings íslenskrar tónlistar, Bókmenntasjóður úr 42 í 92, Bókasafnssjóður höfunda úr 23.1 í 42.6, sjóður til starfsemi Sjálfstæðu leikhúsanna úr 71.2 í 89.8. Safnliðurinn „Styrkir á sviði listgreina“ hækkar úr 54.6 í 64.6. Framlög til miðstöðva listgreina og hönnunar hækka í heildina úr 90.7 m.kr í 99.1 m.kr að undanskilinni Kvikmyndamiðstöð sem hækkar meira eða úr 97.8 í 137.2. Einu sjóðirnir sem sitja eftir í þetta sinn eru Listskreytingasjóður með 1.5 m.kr eins og 2012 og Barnamenningarsjóður, sem lækkar úr 4.1 m.kr í 4 m.kr. Þá er að geta þess að tveir nýjir sjóðir líta dagsljósið á fjárlögum ársins 2013, það eru Hönnunarsjóður upp á 45 m.kr og Myndlistarsjóður upp á 45 m.kr. Auk þess sem hér hefur verið talið þá hækkar framlag ríkisins til menningarsamninga við sveitarfélög á landsbyggðinni einnig. Þannig hækkar samningur við Akureyrarbæ um menningarstarfsemi úr 125.1 m.kr í 140.1 m og aðrir samningar úr 230.4 í 235.1. Af öðrum sjóðum menningartengdum má nefna að Húsafriðunarsjóður hækkar um 210 m.kr (úr 94.3 í 304.3). Hluti þeirra hækkana sem hér er gerð grein fyrir á rætur í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, en hún var fyrst kynnt á fundi með aðilum vinnumarkaðarins 18. maí 2012. Það var nokkur nýlunda að forseti BÍL skyldi boðaður til fundar af því tagi, en gefur vonandi fyrirheit um breytt viðhorf stjórnvalda gagnvart listum og skapandi geinum.
Síðar í skýrslu þessari verður vikið að stuðningi Reykjavíkurbor við list- og menningartengd verkefni.

Launasjóðir og verkefnasjóðir
Á árinu lauk fyrsta þriggja ára tímabili stjórnar listamannalauna, sem skipuð var skv. nýjum lögum um listamannalaun 2009. Af því tilefni boðaði stjórn BÍL stjórn listamannalauna á sinn fund til að fara yfir reynsluna af lögunum. Mikilvægar ábendingar komu fram á fundinum um atriði sem betur mættu fara varðandi framkvæmd laganna. Þar var t.d. rætt um verksvið og vinnulag úthlutunarnefndanna, starfsaðferðir og hæfisreglur, kostnað og fyrirkomulag við umsýslu sjóðanna og samspil launatengdra sjóða og verkefnasjóða. Það var sameiginlegt álit beggja stjórnanna að hvetja þyrfti stjórnvöld til að gera nýja áætlun um þróun launasjóðanna núna þegar þriggja ára áætluninn, sem kynnt var 2009, hefur runnið sitt skeið. BÍL hefur haldið þeirri hvatningu á lofti við menningarmálaráðherra og vonast til að ný áætlun um eflingu sjóðanna líti dagsins ljós áður en langt um líður. Það gæti mögulega gerst í tengslum við vinnu sem nú á sér stað í mennta- og menningarmálaráðuneytinu og gengur út á samræmingu og straumlínulögun þeirra sjóða sem styðja listir og menningu. Þær hugmyndir ganga m.a. út á að kanna hvort hagkvæmt og skynsamlegt sé að fela RANNÍS umsýslu og utanumhald launasjóðanna og annarra sjóða, sem styðja verkefni á sviði lista og hönnunar en hafa hingað til verið í vörslu ráðuneytisins. BÍL tekur virkan þátt í þessari umræðu á vettvangi ráðuneytisins, ásamt kynningarmiðstöðum listgreina og hönnunar og fleiri tengdum aðilum.
Á samráðsfundi BÍL og menningarmálaráðherra í 13. apríl ítrekaði stjórn BÍL þessi sjónarmið sín lagði auk þess áherslu á að kannaðir verði kostir þess að í sviðslistunum verði komið á svipuðu fyrirkomulagi og Kvikmyndasjóður starfar eftir, þ.e. að stofnaður verði sviðslistasjóður með sameiningu launasjóðar sviðslistafólks og verkefnasjóðar til starfsemi atvinnuleikhópa. Slíkur sameinaður sjóður verði opinn fyrir umsóknum allt árið og Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista verði falið svipað hlutverk í úthlutunarferlinu og Kvikmyndamiðstöð hefur varðandi styrki til kvikmyndagerðar. Þar sem sviðslistalög eru nú til meðferðar á Alþingi má gera ráð fyrir að tillögur af þessu tagi séu til skoðunar á þeim vettvangi. BÍL mun fylgja leiðsögn sviðslistafélaganna í samskiptum við allsherjarnefnd þingsins sem hefur málið til meðferðar.
Í maí endurnýjaði stjórn BÍL tilnefningu fulltrúa síns í stjórn listamannalauna og gegnir Margrét Bóasdóttir því hlutverki áfram til 2015.

Umsagnir um þingmál
BÍL tekur virkan þátt í vinnu við lagasetningu með því að veita Alþingi umsagnir um mál á vettvangi lista og menningar. Á árinu hefur BÍL fjallað um fjölda ólíkra mála, ber þar hæst tillgöu til þingsályktunar um menningarstefnu, sem lögð var fram á Alþingi í upphafi yfirstandandi þings. Svo sem rakið er í skýrslu forseta BÍL vegna starfsársins 2011 þá hefur aðkoma BÍL verið talsverð á nokkuð löngum meðgöngutíma tillögunnar. Tillagan er enn óafgreidd, en vonir standa til að hún verði samþykkt á vorþingi.
Önnur þingmál, sem BÍL hefur fjallað um á árinu eru:
tillaga um aðgang almennings að hljóðupptökum Blindrabókasafns Íslands, tillagan hefur ekki verið afgreidd frá þinginu;
frumvarp til laga um bókmenntasjóð og miðstöð íslenskra bókmennta, sem varð að lögum 20. desember 2012;
tillaga til þingsályktunar um vernd tjáningarfrelsis og upplýsingafrelsis, sem samþykkt var á þinginu 2010 en er nú til meðhöndlunar í starfshópi á vegum menningarmálaráuneytis og var það starfshópurinn sem óskaði umsagnar BÍL um framkvæmd tillögunnar;
frumvarp til fjárlaga 2013;
frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, frumvarpið er enn til meðferðar í þinginu;
frumvarp til sviðslista, málið er enn til meðferðar í þinginu.
Allar umsagnir BÍL til Alþingis eru aðgengilegar á vefsíðu BÍL www.bil.is
Eitt þingmál er ótalið og er það frumvarp til laga um heiðurslaun listamanna, sem meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar lagði fram 31. mars 2012. Málið var langt frá því að samrýmast áherslum BÍL um akademíu heiðurslistamanna, eins og þær höfðu verið kynntar þingmönnum með ályktun aðalfundar BÍL 2011. BÍL stjórnin freistaði þess að fá málinu breytt með vel rökstuddri umsögn til nefndarinnar, sem fól í sér stuðning við þá hugmynd að heiðurslaunum skuli settur rammi í lögum, en jafnframt með áherslu á að fjöldi heiðurslistamanna sé í samræmi við skilgreinda þörf og að úthlutunin sé á hendi faglega skipaðrar nefndar (ef ekki akademíunnar sjálfrar) en ekki í höndum stjórnmálamanna eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Að öðru leyti undirstrikaði BÍL sjónarmið þau sem koma fram í fyrnefndri aðalfundarsamþykkt. Nefndin tók í engu tillit til athugasemda BÍL og varð frumvarpið að lögum 12. júní með nokkrum breytingum, sem breyttu ekki afstöðu BÍL til málsins. Þegar kom að því að framkvæma þá grein frumvarpsins, sem varðar skipan nefndar þeirrar sem ætlað er að gefa þingmönnum umsögn um þá listamenn sem til greina kemur að njóti heiðurslauna, þá tilnefndi stjórn BÍL Pétur Gunnarsson til setu í nefndinni. Þeirri tilnefningu var fylgt eftir með nokkuð harðorðu bréfi sem undirstrikaði enn sjónarmið BÍL varðandi heiðurslaun listamanna.

Skapandi greinar – Sýn til framtíðar
Í september lauk vinnu starfshóps mennta- og menningarmálaráðherra sem hafði fengið það verkefni, í upphafi árs 2011, að meta hvernig hægt væri að bæta starfsumhverfi skapandi greina, nýta þau tækifæri sem til staðar eru, efla rannsóknir, menntun og stefnumótun, og styðja við útflutningsstarfsemi. Forseti BÍL átti sæti í starfshópnum og hafði stjórn BÍL fylgst reglulega með vinnunni. Skýrsla hópsins var kynnt með viðhöfn í Hörpu 19. október og tóku 4 ráðherrar þátt í kynningunni og sátu fyrir svörum um stefnu stjórnvalda í málefnum skapandi atvinnugreina.
Skrýslan greinir stöðu skapandi greina og leggur fram tillögur til styrkingar greinunum. Megintillögur skýrslunnar ganga út á að stjórnskipuleg ábyrgð skapandi greina verði skýr, samráð við skapandi geirann verði styrkt og upplýsingaflæði aukið. Áhersla er lögð á það að ráðuneytin auki þekkingu sína á geiranum og að innan ráðuneytanna verði til sérfræðingar, sem hafi það skilgreinda hlutverk að sinna skapandi atvinnugreinum. Lagt er til að settur verði á stofn þverfaglegur hópur ráðuneyta og geirans, sem fái það hlutverk að vinna að samræmdri uppbyggingu greinanna á grundvelli skýrslunnar. Í skýrslunni eru einnig tillögur um styrkingu miðstöðva lista og hönnunar, þær verði miðstöð þekkingar á geiranum og virki sem brú milli stjórnsýslunnar og þeirra sem starfa innan geirans. Þá er lögð áhersla á að skapandi greinar verði skilgreind stærð í þjóðhagsreikningum og að söfnun tölulegra upplýsingar verði stórefld t.a.m. undir hatti Hagstofunnar. Einnig að ríki og sveitarfélög samræmi skráningu sína og upplýsingagjöf um tölfræði greinanna, t.d. upplýsingar um fjárhagslegan stuðning en ekki síður um framlag greinanna til hagkerfisins. Í skýrslunni er lögð mikil áhersla á fagmennsku í framlögum opinberra styrkja til skapandi greina og sérstök áhersla lögð á frumsköpun. Undir frumsköpun falla störf listamanna, sem eru bæði hluti af skapandi atvinnugreinum en líka sjálfstæð starfsemi, sem ekki er heppilegt að hneppa um of í bönd stjórnsýslulegs aga. Það hefur verið hlutverk BÍL í þessari vinnu að standa vörð um sérstöðu listanna í hinum skapandi geira og verður sérstaklega fjallað um þann þátt á málþingi í tengslum við aðalfund BÍL 2013.

Nýtt ráðuneyti atvinnu- og nýsköpunar
Í framhaldi af kynningu skýrslunnar um skapandi greinar sendi stjórn BÍL erindi til ráðherra í sameinuðum málaflokki atvinnumála og nýsköpunar og óskaði eftir fundi til að kynna sjónarmið listamanna varðandi uppbyggingu skapandi greina og fá upplýsingar um með hvaða hætti ráðuneytið hyggðist sinna skapandi atvinnugreinum. Það tók nokkurn tíma að fá slíkan fund, en þegar hann var haldinn um miðjan nóvember, var meginstefið í málflutningi BÍL mikilvægi áætlunar um samhenta stjórnsýslu og þverfaglega nálgun varðandi málefni skapandi greina og að nauðsynleg fagþekking verði höfð að leiðarljósi við ákvarðanir tengdar þeim. Þá undirstrikaði BÍL mikilvæg heildstæðs rannsóknarumhverfis um greinanna, þ.m.t. um veltu, virðisauka, útflutningsvirði og samkeppnishæfni á alþjóðavísu, ásamt samspili atvinnutengdra rannsókna og rannsókna innan háskólanáms í listum og skapandi greinum. Einnig var undirstrikuð þörfin á að fulltrúum skapandi greina í fagráðum sjóða hjá RANNÍS verði fjölgað og innleidar mælistikur sem henta skapandi greinum varðandi mat á umsóknum . Ásamt því að skoða þurfi möguleika á tímabundnum sjóði hjá RANNÍS í þágu skapandi greina. Loks voru ítrekuð sjónarmið BÍL varðandi skattaumhverfi listamanna, virðisaukaskatt og nauðsyn á skattalegri hvatningu til einkaaðila til að fjárfesta í listageiranum.
Það er mat stjórnar BÍL að full ástæða sé til að stjórn BÍL hitti ráðherra atvinnuvega og nýsköpunar á árlegum fundi, líkt og tíðkast með mennta- og menningarmálaráðherra og borgarstjórann í Reykjavík. Þeirri hugmynd var hreytft við ráðherrann og verður áhugavert að fylgjast með hvort slík hugmynd nær fram að ganga. Það var svo skömmu fyrir áramótin að BÍL var tilkynnt að búið væri að skipa sérstakan fulltrúa skapandi atvinnugreina innan hins nýja ráðuneytis. Það er Helga Haraldsdóttir, sem sinnt hefur málefnum ferðaþjónustunnar um árabil innan iðnaðarráðuneytisins og þegar þetta er ritað hefur forseti þegar átt einn fund með Helgu, sem lofar góðu um áframhaldandi samskipti BÍL við ráðuneytið.

Norræna menningarmálaáætlunin – Kultur Kontakt Nord
7. des. 2011 brást BÍL við beiðni mennta- og menningarmálaráðuneytis og sendi inn lista með nöfnum 7 einstaklinga fyrir ráðuneytið til að velja úr í sérfræðingahópa Norrænu ferða- og dvalarstyrkjaáætlunarinnar á menningarsviðinu tímabilið 2012 – 2015. Af þeim lista varð Gunnar Gunnsteinsson fyrir valinu í sérfræðingahóp um ferðastyrki. Ísland fékk hins vegar enga fulltrúa í sérfræðingahóp um dvalarstyrki að þessu sinni og ekki heldur í sérfræðingahóp um tengslanetin.
Þ. 25. október 2012 fékk BÍL svo beiðni frá mennta- og menningarmálaráðuneyti um að tilnefna tvo fulltrúa sem hæfir væru til að taka sæti í sérfræðingahópi áætlunarinnar um verkefnastyrki, en sá hópur sýslar með hæstu upphæðirnar í áætluninni. Frestur til að tilnefna var ein vika. BÍL mótmælti þessum skamma fresti, sem kom til vegna þess að ráðuneytið gleymdi að óska eftir tilnefningum þegar erindið frá Norrænu ráðherranefndinni barst þeim, en það var 11. júní. Þ. 7. nóv. sendi BÍL tillögu til ráðuneytisins um Báru Lyngdal leikkonu og Pétur Jónasson tónlistarmann. Þ. 11. des. 2012 tilkynnti ráðuneytið BÍL að Örn Hrafnkelsson, sviðsstjóri varðveislu og stafrænnar endurgerðar hjá Landsbókasafni Íslands, hafi verið valinn úr tilnefningum landanna til setu í sérfræðingahópi um verkefnastyrki KKN. Örn mun hafa verið tilnefndur af ráðuneytinu. Um þessar mundir er Gunnar Gunnsteinsson því eini fulltrúinn sem BÍL hefur átt þátt í að tilnefna í sérfræðingahópa Norrænu menningaráætlunarinnar KKN. Loks má geta þess að Ísland hefur ekki átt aðalfulltrúa í rekstrarstjórn KKN síðan í lok árs 2011.
Þetta fyrirkomulag tilnefninga í sérfræðingahópana hefur verið tilefni nokkurrar umræðu á vettvangi Nordisk Kunstnerråd (systursamtök BÍL á Norðurlöndunum) og var meðal þess sem fjallað var um á fundi embættismannanefndar Norrænu Ráðherranefndarinnar og Nordisk Kunstnerråd í desember 2012. Það er mat systursamtaka BÍL að regla hæfilegrar fjarlægðar sé best virt með því að samtök á sviði lista og menningar tilnefni fulltrúana, sem valið er úr í sérfræðingahópana, það sé óeðlilegt að ráðuneytin sjái um tilnefningarnar. Einnig að tilnefningarferlið þufi að vera gagnsætt og unnið í samstarfi aðila. Slík vinnubrögð voru því miður ekki viðhöfð í þetta sinn.
Stjórn BÍL ræddi þessi mál á fundi með fyrrum fulltrúum í sérfræðingahópum KKN í febrúar 2012, þeim Ágústi Guðmundssyni, Ragnheiði Tryggvadóttur og Hávari Sigurjónssyni. Þau hvetja aðildarfélögin til að fylgjast vel með málefnum KKN á heimasíðu áætlunarinnar og gegnum rafrænt fréttabréf, sem gefið er út reglulega.

Tjáningarfrelsi listamanna
BÍL hefur á árinu beitt sér með margvíslegum hætti í þágu tjáningarfrelsis listamanna vítt um veröldina. Þannig sendi BÍL frá sér yfirlýsingu 20. apríl vegna opinberrar heimsóknar Wen Jiabao forsætisráðherra Kína til Íslands, þar sem vakin var athygli á víðtækum mannrétindabrotum kínverskra stjórnvalda, ekki síst gagnvart listamönnum. BÍL hvatti íslenska ráðamenn til að gera mannréttindi og tjáningarfrelsi að umræðuefni á fundum með forsætisráðherranum.
Þá sendi BÍ ákall til forseta Rússlands og tveggja rússneskra saksóknara í máli pönk-rokk sveitarinnar Pussy Riot, þar sem þess var krafist að listakonunum yrði sleppt úr haldi og allar ákærur gegn þeim látnar niður falla.
Loks má geta þess að BÍL tók á árinu þátt í að stofna alþjóðlegt viðbragðteymi ARTSFEX, sem ætlað er það hlutverk að bregðast við brotum gegn tjáningarfrelsi listamanna, með sérstaka áherslu á sviðslistafólk og myndlistarmenn, í ljósi þess að PEN International vinna nú þegar mikið starf í þágu rithöfunda og Freemuse eru samtök sem leggja sig eftir að sinna tjáningarfrelsi tónlistarmanna. Stofnfundur samtakanna var haldinn í Osló í tengslum við stóra alþjóðlega ráðstefnu „All that is banned is desired“ um tjáningarfrelsi listamanna, sem haldin var í Óperuhúsinu í Osló og bauð upp á samfellda tveggja daga dagskrá með listafólki sem búið hefur við ofsóknir og pyntingar í heimalöndum sínum. Meðal listamanna þar voru tónlistarmenn frá Malí, sem hafa verið í fréttum síðustu daga vegna ofsókna Íslamista gegn tónlistarfólki. Sl. miðvikudag veitti Freemuse tónlistarhátíð í Malí „Festival au Désert“ verðlaun samtakanna 2013.

Lottómál
BÍL hefur beitt sér fyrir því að happdrættislöggjöf á Íslandi verði breytt þannig að ágóða af íslenska lottóinu verði m.a. varið til verkefna á sviði lista og menningar, svo sem títt er í nágrannalöndum okkar. BÍL hefur borið þetta erindi fram við þrjá ráðherra á þessu kjörtímabili, Steingrím J. Sigfússon þáv. fjármálaráðherra, Rögnu Árnadóttur, þáv. dómsmálaráðherra og Ögmund Jónasson innanríkisráðherra. Ráðherrarnir tóku allir vel í málaleitan BÍL, sem lagði til að stofnaður yrði starfshópur sem fengi málið til skoðunar. Á vordögum 2011 skipaði innanríkisráðherra svo starfshóp, sem fékk það hlutverk að skoða umhverfi lottómála á Íslandi og skiptingu ágóða af starfsemi þeirri sem rekin er af Íslenskri Getspá. Eftir því sem BÍL kemst næst þá fór vinna starfshópsins aldrei af stað fyrir alvöru. En af því að vitað var um undirbúning frumvarps um happdrættismál innan ráðuneytisins þá vonaðist BÍL til þess að mál tengd lottóinu væru þar undir. Þegar frumvarpi um happdrætti var dreift á Alþingi í lok nóvemer sl. olli það BÍL vonbrigðum að sjá að þar skyldi ekki með nokkrum hætti fjallað um lottó eða skiptingu ágóða af starfsemi Íslenskrar Getspár, heldur mest áhersla lögð á forvarnarstarf gegn spilafíkn.
Nokkur umræða spratt upp í fjölmðilum í tengslum við þessa umsögn BÍL, enda fór hún ekki leynt, var birt á vefsíðu BÍL eins og aðrar umsagnir BÍL um þingmál. Fjölmiðlum fórst það misjafnlega úr hendi að gera grein fyrir sjónarmiðum BÍL og lögðu megináherslu á það að listamenn væru að seilast í fjármuni sem hefðu hingað til farið til íþróttastarfs. Það er því full ástæða til að undirstrika sjónarmið BÍL í þessum efnum. BÍL gerir ekki athugasemdir við það að íþróttahreyfingin í landinu skipti með sér ágóða getrauna skv. lögum nr. 59/1972 en telur sanngirnismál að listir og menning njóti þess hluta ágóðans af lottóinu (skv. lögum nr. 26/1986) sem nú kemur í hlut ÍSÍ og UMFÍ. Í því skyni leggur BÍL til að þau einkaleyfi sem veitt eru til starfrækslu íslenska lottósins verði endurskoðuð reglulega og að upplýsingar um ráðstöfun þeirra miklu fjármuna, sem lottóið veltir árlega verði aðgengileg almenningi, en slík upplýsingagjöf er sáralítil ef nokkur.
Málið er enn til meðferðar á Alþingi og ekki vitað hvort allsherjarnefnd Alþingis tekur umsögn BÍL til skoðunar, en stjórnin hefur lýst sig reiðubúna að koma á fund nefndarinnar til að ræða málin.

Listalausi dagurinn
Ekkert varð úr því að BÍL gengist fyrir „listalausum degi“ svo sem áformað hafði verið. Það helgast fyrst og fremst af því að ekki reyndist unnt að setja saman vinnuhóp áhugasamra einstaklinga um málið. Þau sem skipulögðu aðgerðir á listalausum degi 2011 voru komin í önnur kröfuhörð verkefni og ekki tókst að finna nýja fulltrúa í slíkan starfshóp. Það var á endanum ákveðið að slá hugmyndinni á frest um sinn og bíða þess að áhugasamir listamenn, sem hefðu brennandi áhuga á hugmyndinni, byðust til að taka framkvæmdina að sér.

Samstarf við ríki og borg
Stjórn BÍL hittir mennta- og menningarmálaráðherra á árlegum samráðsfundum ásamt starfsfólki ráðherraskrifstofu og menningarskrifstofu ráðuneytisins. Mælt er fyrir um slíkan fund í samningi BÍL og ráðuneytisins um ráðgjöf á vettvangi listanna. Það samkomulag rennur út í lok þessa árs, en áætlað er að endurnýja það áður en fjárlagafrumvarp 2014 verður lagt fram. Fundurinn í ár var haldinn 13. apríl og var farið yfir þau mál sem helst brenna á listamönnum.
Svipaður samráðsfundur er haldinn árlega með borgarstjóra og aðstoðarmönnum, ásamt fulltrúum menningar- og ferðamálaráðs og starfsfólki sviðsins. Byggir sá fundur einnig á samkomulagi borarinnar og BÍL um ráðgjöf á sviði listanna. Um þessar mundir hefur borgarráð til umfjöllunar ósk um endurnýjun þess samkomulags til næstu þriggja ára. Fundur ársins var haldinn 29. mars. Á fundunum með borgarstjóra ber menntamál ævinlega nokkuð hátt í umræðunni og listuppeldi. Til að taka þá umræðu við „rétta“ aðila var efnt til sjálfstæðs samráðsfundar með skóla- og frístundasviði borgarinnar. Sá fundur var haldinn 9. jan. 2013 og var um margt afar gagnlegur. Ákveðið var að halda annan slíkan fund með haustinu, svo líklegt er að samráð BÍL og skóla- og frístundasviðs sé komið til að ver. Meðal hugmynda sem ræddar voru á þessum fundi voru með hvaða hætti mætti efla og auka samstarf listamanna og grunnskóla höfuðborgarinnar, en mikill vilji er til þess á báða bóga. Áframhaldandi viðræður munu byggja á þeim verkefnum sem þegar eru til staðar, t.d. Tónlist fyrir alla og Skáld í skólum. Leitað verður leiða til að útvíkka það starf á grunni reynslunnar af verkefninu „Litróf listanna“ byggt á framkvæmd norska fyrirmyndarverkefnisins „Den Kulturelle Skolesækken“.
Í nóvember sl. var einnig haldinn samráðsfundur með nýjum atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, svo sem fram kemur framar í skýrslu þessari.
Minnisblöð frá öllum þessum fundum eru aðgengileg á vef BÍL.

Samstarfið við Menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkur
Forseti BÍL og formaður SÍM sátu fundi menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkur á árinu, sem áheyrnarfulltrúar. Stuðningur borgarinnar við list- og menningartengd verkefni hækkaði um 2,8 milljónir frá árinu áður, var 60.360.000.- til 100 verkefna, sem faghópur BÍL gerði tillögur um að styrkt yrðu. Tilkynnt var um styrkveitingarnar um miðjan janúar sl. Faghópurinn hafði 185 umsóknir til umfjöllunar og var alls sótt um styrki að upphæð 305 milljónir. Þá var einnig úthlutað úr Borgarhátíðasjóði til 5 listahátíða af ýmsu tagi auk þess sem Bíó Paradís, Nýlistasafnið, Sjálfstæðu leikhúsin, Kling og Bang Gallerí, Dansverkstæðið og Höggmyndagarðurinn fengu rekstrarstuðning. Til viðbótar við þetta veitir borgin árlega stuðning undir yfirskriftinni „skyndistyrkir“, slíkar styrkveitingar fara fram fjórum sinnum á ári og eru afgreiddar beint af menningar- og ferðamálaráði.

Höfundarréttur
Í tengslum við aðalfund BÍL 2012 var haldið málþing um höfundarrétt . Spurningin sem málþingið glímdi við var þessi: Hvernig má tryggja listamönnum sanngjarna hlutdeild í þeim arði sem notkun hugverka þeirra á netinu skapar? Niðurstaða málþingsins var í meginatriðum þessi: Nauðsynlegt er að koma sér saman um hvað er réttmæt umgengni við höfundarétt í stafrænu umhverfi og móta skilning og afstöðu almennings til frambúðar, -að skýra eðli höfundaréttar fyrir almenningi og ungu fólki, gera listamanninn sýnilegan, þannig að sá sem notar efni átti sig á því að hann er að nota vinnu annars einstaklings og eins þarf að hvetja almenning til þess að setja sjálfum sér reglur byggðar á almennt viðurkenndu gildismati og siðferðiskennd. Nauðsynlegt er að finna leiðir til þess að koma í veg fyrir að aðrir hagnýti sér höfundaréttarvarið efni með skipulögðum hætti og í þeim tilgangi einum að hagnast á því. Og nauðsynlegt er að finna leiðir til að tryggja einstaklingum,sem eiga höfundarrétt, greiðslur fyrir afnot af efni þeirra.

BÍL hefur í hyggju að ræða áfram um höfundarrétt á næstunni og hefur þá helst verið stefnt að því að beina sjónum að sæmdarrétti sérstaklega.
Þá má geta þess að BÍL hefur hvatt ráðuneyti mennta- og menningarmálaráðuneytis til að innleiða svokallaðan Bejing-samning um réttindi flytjenda hljóð- og myndflutnings. Það mál er í ferli í ráðuneytinu.
Loks hefur BÍL getað fylgst með málefnum tengdum höfundarrétti í Evrópusambandinu gegnum samstarfið innan ECA – European Council of Artists.

Tónlistarhúsið Harpa
Eftir talsverð átök tókst loks að lenda eigendastefnu fyrir tónlistarhúsið Hörpu, en það hafði staðið í stappi milli ríkis og borgar um þau mál alveg frá opnun hússins. Það er fagnaðarefni að nú skuli loks hafa tekist að einfalda reksturinn og fækka félögunum sem að rekstrinum koma. Eigendastefnan opnar vonandi frekari möguleika fyrir listráð Hörpu, sem skipað er formönnum tónlistarfélaganna; FÍT, FÍH, FTT og TÍ, en listráðið hefur uppi áform um enn frekari aðkomu listafólks að framtíðarstefnumótun hússins og hefur stjórn BÍL stutt við þau áform. Þá er enn sem fyrr unnið að því að tryggja hagsmuni tónlistafólks í húsinu með því að leiga í sölum hússins verði sanngjörn og að úrval tónlistarviðburða verði svo fjölbreytt sem mest má vera. Ljóst er að Harpa hefur reynst hin mesta lyftistöng fyrir tónlistarlífið í borginni (og landinu) og mikilvægt að allir leggist á eitt við að láta rekstur hússins ganga upp, sem er flókið verkefni og margslungið.

ECA – European Council of Artists
Forseti BÍL hefur nú starfað sem forseti ECA – European Council of Artists í eitt ár. Ársfundur ECA var haldinn í Vilnius í Litháen 10. og 11. nóvember sl. og í tengslum við hann ráðstefna undir yfirskriftinni „Art as a Bridge Builder“ og fjallaði hún um hlutverk listanna í því verkefni að tryggja menningarlega fjölbreyttni í evrópskum samfélögum. Ráðstefnan var vel sótt og gerður að henni góður rómur. Annars hefur áherslan í starfi ECA sl ár verið tengd umsóknum um rekstrarstyrki úr sjóður Evrópusambandsins. Líklegt er að fyrir liggi á vordögum hvort samtökin hafa árangur sem erfiði, en þá verður tilkynnt hvaða samtök komast í gegnum hið þrönga nálarauga Menningaráætlunar ESB.
Framkvæmdastjórn ECA hittist í Bratislava í mars nk og mun þá fjalla um starfsáætlun ársins framundan, sem m.a. gengur út á það að kynna nýlegar reglur sænskra sjórnvalda um greiðslur til myndlistarmanna sem sýna í söfnum og sýningarsölum, sem rekin eru fyrir opinbert fé. Í því verkefni nýtist undirbúningsvinna SÍM og samtaka myndlistarmanna á Norðurlöndunum og líklegt að formaður SÍM muni leggja ECA lið í þeirri vinnu.

Alsace – Islande
Á árinu barst BÍL erindi frá félagsskapnum Alsace – Islande, sem sinnir menningartengslum milli Íslands og Alsace-héraðs í Frakklandi á landamærum Þýskalands. Erindið var borið fram af forseta Alsace – Islande, Catherine Ulrich forseta samtakanna og varðaði breytingar á stofnsmykktum samtakanna, nánar tiltekið um það hvað gera eigi við eignir félagsins við félagaslit. Breytingin, sem var í bígerð, gerði ráð fyrir að eignum félagsins yrði deilt niður við félagaslit og helmingur þeirra myndi þá renna til BÍL með það að markmiði að styðja starf íslenskra listamanna. Þegar ljóst var að BÍL myndi ekki leggjast gegn þessum áformum var tillagan samþykkt á aðalfundi samtakanna og þann 16.júní s.l. undirrtuðu Kolbrún Halldórsdóttir forseti BÍL og Catherine Ulrich forseti Alsace-Islande samkomulag þessa efnis. Stjórn BÍL hefur lýst þakklæti fyrir þennan hug félaga og forseta Alsace – Islande.

Heimasíða og facebook
BÍL hefur á árinu opnað face-bókarsíðu og haldið úti heimasíðunni www.bil.is Það gæti verið meira líf í kringum þessar síður og rétt að hvetja aðildarfélögin enn frekar til dáða í þeim efnum að dreifa slóð síðunnar. Þegar þetta er ritað hefur face-bókarsíðan einungis fengið 64 „like“ .
BÍL hefur uppi áform um að sinna betur færslum inn á heimasíðuna, en slík áform haldast óhjákvæmilega í hendur við styrkari fjárhagsgrundvöll. Mögulega tekst að hækka opinbert framlag til BÍL gegnum endurnýjaða samninga við ríki og borg sem eru framundan á árinu 2013. Í öllu falli þá felast mikilvæg tækifæri í upplýsingagjöf um starf Bandalagsins og listamanna almennt, og því nauðsynlegt að hvetja listafólk til að senda BÍL greinar eða hugleiðingar um hugðarefni sem tengjast baráttunni fyrir bættu starfsumhverfi listamanna.

Málþing um skapandi atvinnugreinar af sjónarhóli listamanna
Í tengslum við aðalfund BÍL 2013 hefur stjórn undirbúið málþing um skapandi atvinnugreinar af sjónarhóli listamanna. Með málþinginu vill BÍL vill undirstrika þátt listafólks í skapandi atvinnugreinum, sem ekki alltaf er augljós eða auðskilinn. Listafólk og aðrir skapandi einstaklingar kveikja neista þeirra verkefna sem skapandi atvinnugreinar snúast um. Þáttur listafólksins getur verið með ýmsum hætti og þarf ekki alltaf að vera sýnilegur í viðskiptahugmyndinni sem slíkri. Mikilvægt er að gæta að því að efnahagslegir þættir atvinnugreinanna yfirskyggi ekki þátt frumsköpunarinnar.