Stjórn BÍL átti í dag fund með Steingrími J. Sigfússyni ráðherra atvinnuvega og nýsköpunar. Eftirfarandi minnisblað var lagt fram á fundinum:
- BÍL fagnar stofnun hins nýja ráðuneytis atvinnuvega og nýsköpunar og lýsir áhuga á samstarfi um uppbyggingu skapandi atvinnugreina á Íslandi, enda eru þær einhver mikilvægasta vaxtargrein þjóðarbúisins á næstu árum og áratugum.
- BÍL fagnar fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, sérstaklega áformum um aukin framlög til lista og skapandi greina, t.d. í Kvikmyndasjóð og aðra verkefnatengda sjóði greinanna.
- BÍL óskar eftir upplýsingum um hvernig skapandi greinum verður sinnt innan hins nýja ráðuneytis. Hver verður tengiliður BÍL inn í ráðuneytið, starfshlutfall, fagþekking, samband við önnur ráðuneyti, -ekki síst mennta- og menningarmálaráðuneytið?
- Mikilvægt er að gerði verði áætlun um meðhöndlun/innleiðingu þeirra tillagna sem settar eru fram í skýrslunni ,,Skapandi greinar – sýn til framtíðar“. Þar er kallað er eftir samhentri stjórnsýslu og þverfaglegri nálgun varðandi málefni skapandi greina og að nauðsynleg fagþekking verði höfð að leiðarljósi við ákvarðanir tengdar hinum skapandi geira.
- Afar mikilvægt er að skapa heildstætt rannsóknarumhverfi um skapandi atvinnugreinar, þ.m.t. veltu, virðisauka, útflutningsvirði og samkeppnishæfni á alþjóðavísu. Skoða þarf samspil atvinnutengdra rannsókna og rannsókna innan háskólanáms í listum og skapandi greinum. Fjölga þarf fulltrúum skapandi greina í fagráðum sjóða hjá RANNÍS, innleiða mælistikur sem henta skapandi greinum varðandi mat á umsóknum og skoða möguleika á tímabundnum sjóði hjá RANNÍS í þágu skapandi greina.
- Skýrslan bendir á ýmsa ágalla í núverandi starfsumhverfi þeirra sem starfa í skapandi greinum, m.a. varðandi skattaumhverfi listamanna, virðisaukaskatt og nauðsyn á skattalegri hvatningu til einkaaðila til að fjárfesta í listageiranum. Hvernig hyggst ráðherrann vinna áfram með tillögur skýrslunnar og hvar er samráð ráðuneytanna fjögurra á vegi statt?
- BÍL hefur áður lagt áherslu á það við ráðherra að skapandi greinar verði skilgreind stærð í þjóðhagsreikningum líkt og aðrar atvinnugreinar. Hefur eitthvað gerst í þeim efnum eða er eitthvað í undirbúningi?
- Í kjölfar tillagna nefndar um menntunarmál kvikmyndagerðarmanna og aukinnar stéttarvitundar þeirra sem starfa við kvikmyndagerð, þarf FK stuðning ráðherra við að vinna greiningu starfa í kvikmyndagerð. Skoða þarf starfsumhverfi, hæfniskröfur og möguleika á löggildingu starfa innan geirans. Flestir kvikmyndagerðarmenn eru verkefnaráðnir og starfa sem verktakar, það kallar á óhóflega langan vinnudag, mikið álag og litla hvíld. Þá eru tryggingamál innan geirans í miklum ólestri, sem kallar á markvissari greiningu starfanna og undirbúning kjarasamninga fyrir þennan hóp. Hvað sér ráðherra til úrbóta?
- BÍL heldur árlega samráðsfundi með mennta- og menningarmálaráðherra. Það er skoðun BÍL að sambærilegir fundir með ráðherra atvinnuvega og nýsköpunar gætu verið mjög gagnlegir, ekki síst meðan verið er að þróa samskiptin og finna skapandi atvinnugreinum stað í stjórnsýslunni. Þess er óskað að ráðuneytið skoði möguleika á slíkum árlegum fundum .
- Með eflingu menningarsamninga í landsfjórðungunum hefur BÍL verið kallað til í auknum mæli sem ráðgjafi við að byggja upp atvinnutækifæri fyrir skapandi fólk á landsbyggðinni. Dæmi: BÍL er stofnaðili að Austurbrú, sameiginlegri stoðstofnun sveitarfélaga á Austurlandi. BÍL á aðild að ráðgjafarráði SSH, sem vinnur að sameiginlegri sóknaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið. BÍL á tvo áheyrnarfulltrúa í Menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkur, skipar í fagráð um úthlutun framlaga borgarinnar til list- og menningartengdra verkefna og heldur árlega samráðsfundi með borgarstjóra. Mikilvægt er að ráðuneytið styðji við BÍL í að rækja starf af þessu tagi.
- BÍL vill undirstrika þátt listafólks í skapandi atvinnugreinum, sem ekki alltaf er augljós eða auðskilinn. Listafólk og aðrir skapandi einstaklingar kveikja neista þeirra verkefna sem skapandi atvinnugreinar snúast um. Þáttur listafólksins getur verið með ýmsum hætti og þarf ekki alltaf að vera sýnilegur í viðskiptahugmyndinni sem slíkri. Mikilvægt er að gæta að því að efnahagslegir þættir atvinnugreinanna yfirskyggi ekki þátt frumsköpunarinnar.
- BÍL væntir þess að samstarfið við hið nýja ráðuneyti verði skapandi og leiði til betra starfsumhverfis fyrir listafólk og aðra sem starfa innan skapandi atvinnugreina.