Efni: Umsögn um frumvarp til laga um heiðurslaun listamanna 719. mál

Stjórn BÍL hefur fjallað um málið og komið sér saman um svohljóðandi umsögn til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis:

Það er sannarlega tímabært að marka heiðurslaunum til listamanna ramma í lögum. Slík ráðstöfun er til þess fallin að skýra markmiðið með laununum og gera ferlið við val listamannanna faglegra/ málefnanlegra.

Í aðdraganda málsins var forseta BÍL boðið að koma til fundar við starfshóp allsherjar- og menntamálanefndar þar sem sjónarmið BÍL varðandi málið voru skýrð og lögð fram ályktun ársfundar BÍL 2011 um Akademíu og heiðurslaun listamanna (sjá fylgiskjal). Sjónarmið BÍL varðandi frumvarpið mótast af þeirri ályktun.

Á þeim fundi voru lögð fram drög að frumvarpi, sem gerði ráð fyrir að fjöldi listamanna á heiðurslaunalista Alþingis gæti verið allt að 40. Það olli því vonbrigðum að sjá frumvarpið í endanlegum búningi þar sem fjöldi listamanna skv. fyrstu grein var kominn niður í 25. Það er umhugsunarefni þegar litið til þess að á fjárlagaárinu 2012 eru 28 listamenn á heiðurslaunalista þingsins. Í því sambandi mætti benda á að ef fjöldi heiðurslistamanna væri í réttu hlutfalli við stærð þjóðarinnar, t.d. 0.01%, þá hefðu 32 listamenn þann sess í dag. Meginsjónarmið BÍL varðandi fjölda listamanna á heiðurslaunum er að hann taki mið af þörfinni, sem liggur fyrir að kanna þurfi með skipulegum hætti.

Grunnhugmynd BÍL varðandi fyrirkomulag heiðurslauna til listamanna tekur mið af því að sá hópur, sem nýtur launanna hverju sinni, er auðlind í sjálfu sér. Þar er um að ræða besta listafólk þjóðarinnar og þó það sé (eðli málsins samkvæmt) komið af léttasta skeiði þegar það fær sess á heiðurslaunalista, þá er reynsla þess og þekking mikils virði fyrir samfélagið. BÍL hefur því mótað tillögu um að handhafar heiðurslauna myndi Akademíu, sem verði nokkurs konar útvörður menningarinnar. Akademían komi saman mánaðarlega og ræði saman um listina, menninguna og þjóðina. Hún hafi frumkvæði að fyrirlestrum, efni til málþinga og hugsanlega veiti viðurkenningar og verðlaun.

Til að þessi hugmynd gangi upp þarf að breyta fyrirkomulaginu sem hefur verið við lýði varðandi val á listamönnum á heiðurslaunalistann. Nú þegar skipar úrvalshópur listamanna sess á þeim lista í viðurkenningarskyni fyrir listrænan feril sinn. Slíkur hópur væri prýðilega til þess fallinn að mynda uppistöðu íslenskrar akademíu. Einn er þó hængur á og hann er sá að samkvæmt núverandi fyrirkomulagi eru þeir sem þiggja heiðurslaun valdir af Alþingi, án þess að valinu til grundvallar liggi nokkurt hlutlægt mat. Þetta er óviðunandi og í mótsögn við kröfu tímans um gagnsæi við töku ákvarðana og fagleg viðhorf við úthlutun opiberra fjármuna.

Það mætti halda að nokkrum áfanga sé náð með 3. grein fyrirliggjandi frumvarps hvað þetta varðar, þar sem gert er ráð fyrir að þriggja manna nefnd verði skipuð til að gefa umsögn „um þá listamenn sem til greina koma“. Gallinn við þessa hugmynd er augljós þegar betur er að gáð; því hvergi er þess getið hverjir eiga að ákvarða hvaða listamenn það eru „sem til greina koma“. Ef hugmyndin er sú að það séu nefndarmenn allsherjar- og menntamálanefndar, þá er það að mati BÍL óásættanlegt og festir í sessi það fyrirkomulag sem gagnýnt hefur verið. Nær væri að fela Akademíunni sjálfri að gera tillögur nýja listamenn inn í Akademíuna.

Í 4. grein frumvarpsins er kveðið á um að heiðurslaun taki mið af starfslaunum listamanna hverju sinni. Þetta telur BÍL mjög mikilvæga breytingu og hvetur til þess að hún verði samþykkt, hver sem afdrif frumvarpsins verða að öðru leyti.

Niðurstaða:
BÍL styður það að heiðurslaunum verði settur rammi í lögum.
BÍL leggur til að fjöldi þeirra sem eiga möguleika á heiðurslaunum sé í samræmi við skilgreinda þörf.
BÍL leggur til að úthlutunin verði á hendi faglega skipaðrar nefndar, sem starfi skv. starfsreglum, en einnig að skoðaður verði sá möguleiki að Akademían sjálf geri tillögur um nýja heiðurslaunaþega.
BÍL leggur til að skoðað verði hvort ekki sé skynsamlegt að mæla fyrir um breiðan faglegan vettvang, sem nefndin leiti til um tilnefningar til að vinna með. Slíkt er a.m.k. nauðsynlegt ef nefndina skipa einungis þrír fulltrúar.

Virðingarfyllst,
f.h. BÍL – Bandalags íslenskra listamanna
Kolbrún Halldórsdóttir, forseti