Á fundi stjórnar BÍL í dag var samþykkt umsögn um drög að menningarstefnu stjórnvalda, sem hefur verið aðgengileg á vef mennta og menningarmálaráðuneytisins síðan 8. júní sl. Umsögn BÍL er svohljóðandi:

Stjórn BÍL hefur kynnt sér drög að menningarstefnu, sem hafa verið opin til umsagnar á vef ráðuneytsins síðan 8. júní, og sendir ráðuneytinu eftirfarandi umsögn.

Stjórn BÍL fagnar því að nú skuli loks hylla undir það að menningarstefna íslenskra stjórnvalda líti dagsins ljós. BÍL hefur tekið þátt í því ferli, sem er búið að vera langt og snúið. Þau drög sem nú liggja fyrir eru nokkuð almenn og mætti að ósekju fylgja þeim stutt skýrsla Hauks F. Hannessonar “Er til menningarstefna á Íslandi?”,sem unnin var fyrir ráðuneytið 2009, þar sem upp er talin gildandi löggjöf um menningarmál. Fyrirliggjandi drög eru eins konar rammaáætlun, sem ætla má að verði notuð sem grunnur að vel skilgreindri aðgerðaáætlun á menningarsviðinu.

BÍL tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í inngangi um að mikilvægt sé að stjórnvöld vandi aðkomu sína að málaflokknum og að menningarstefna eigi að vera hvatning þeim sem starfa að menningarmálum um að vanda til verka og horfa til framtíðar. Þess ber þó að gæta að strax við slíka fullyrðingu koma upp spurningar um fjárframlög til þeirrar starfsemi sem um er að tefla, því vandvirknin ræðst oftar en ekki af þeim fjármunum sem fást í viðkomandi verkefni eða til rekstrar menningarstofnana. Það er því nánast óhjákvæmilegt að ræða leiðirnar að markinu í sömu andrá og markmiðssetninguna.

Til að tryggja að aðkoma stjórnvalda að menningarmálum sé vönduð má nýta þau leiðarljós sem gefin eru um skilvirka og samhenta stjórnsýslu í skýrslu nefndar um endurskoðun laga um stjórnarráð Íslands og gefin var út af forsætisráðuneytinu í desember 2010.

Í inngangi segir að mikilvægt sé að stefnan sé reglulega tekin til endurskoðunar. Það orðalag orkar tvímælis og skynsamlegra að segja að stefnan skuli vera í stöðugri endurskoðun, enda er meiningin að hún endurspegli aðkomu og áherslur stjórnvalda á hverjum tíma. Á hitt má svo líta hvort ekki er álíka mikilvægt að á grunni stefnunnar sé sett fram tímasett áætlun með mælanlegum markmiðum ásamt áætlun um eftirfylgni.

Það er mat BÍL að full mikið sé gert úr því í drögunum að hlutverk stjórnvalda sé að “styðja við” og “veita skjól”, skynsamlegra sé að tala um að stjórnvöld “skapi skilyrði” eða “veiti brautargengi” verkefnum eða áformum sem fagfólk í geiranum er sammála um að skipti máli. Í því sambandi skiptir virkt samráð höfuðmáli og að ósekju mætti undirstrika það betur í væntanlegri menningarstefnu. Í raun eru vandkvæði listafólks og menningarstofnana oftar en ekki þau að ríkisvaldið segist vilja framkvæma tiltekin verkefni en sker fjárframlög til þeirra svo við nögl að segja má að þau séu vængstífð frá uphafi. Mikilvægt er að stjórnvöld finni leiðir til að vinna raunhæft kostnaðarmat á verkefnum eða treysta kostnaðargreiningum fagfólks og nái síðan samkomulagi um framkvæmd þeirra og kostnaðargrunn. Með því móti má ætla að verkin verði á endanum í samræmi við það sem til stóð og stjórnvöld ætluðust til.

Þar sem sagt er í leiðarljósum að stjórnvöld hafi ekki beina aðkomu að dagskrá og daglegu starfi lista- og menningarstofnana, þyrfti að koma fram með skýrum hætti að stjórnvöld bera engu að síður ábyrgð gegnum stjórnarmenn sem þau setja til starfa, m.ö.o. stjórnvaldið getur ekki skotið sér undan ábyrgð á ákvörðunum stjórna sem það á aðild að. Þetta krefur stjórnvöld um að gefa stjórnarmönnum á þeirra vegum skýrt umboð til starfa.

Í leiðarljósum segir að leggja beri áherslu á regluna um hæfilega fjarlægð við úthlutun opinbers fjár. Sú yfirlýsing er afar mikilvæg og mætti hnykkja enn frekar á henni ef það kæmi skýrt fram í hverju sú regla er fólgin. Þannig væru skilaboðin um þessa mikilvægu reglu send með skýrum hætti til annarra stjórnvalda, t.d. sveitarfélaganna.

Það er eðlilegt og sjálfsagt að stjórnvöld skuli vilja efla menningu barna og ungmenna, það hafa þau viljað í orði kveðnu á öllum tímum. En ástæðu þess að betur þarf að gera í þeim efnum er fyrst og fremst að leita hjá stjórnvöldum sjálfum. Með aðhaldi í opinberum rekstri hefur menning fyrir börn og ungmenni, sem oftar en ekki fer fram gegnum skólastarf, orðið sérlega illa úti, m.a. vegna þess að skólayfirvöld réttlæta niðurskurð á menningarstarfi með því að opinber framlög dugi ekki lengur fyrir grunnþáttum í skólastarfi. Þannig var metnaðarfullt samstarfsverkefni BÍL og skólayfirvalda í Reykjavík “Litróf listanna” skorið niður 2009 eftir innan við tveggja ára reynslutímabil og ekki hefur tekist að koma því á legg á nýjan leik.

Markmið um að greiða fyrir “samstarfi” ólíkra aðila í menningarlífinu er óljóst og sama verður að segja um áherlsuna á “samspil” milli stofnana og grasrótar í listum og menningu. Það er líka undarlegt að þessu samstarfi og samspili skuli komið fyrir í sömu grein leiðarljósanna og fjallar um tjáningarfrelsi og lýðræði. Betur færi ef hvort um sig fengi sjálfstæða grein í leiðarljósum stefnunnar.

Í köflum þeim sem fjalla um menningu fyrir alla, lifandi menningarstofnanir og samvinnu í menningarmálum er lögð áhersla á mikilvæga þætti sem útheimtir verulega aukið fjármagn. Þar má nefna aðgengismál fatlaðra, aðgengi ólíkra menningarhópa að menningu, miðlun menningararfsins á netinu og samstarf listamanna og skóla. Að mati BÍL er nauðsynlegt að menningarstefnan beri þess merki að stjórnvaldið, sem setur stefnuna fram átti sig á þessu. Þarna skiptir mestu máli að orð og athafnir haldist í hendur. Slíkt væri til marks um þá fagmennsku sem stefnudrögin eru að boða.

Tekið er undir það grundvallarsjónarmið stefnunnar að hún fjalli ekki um einstakar menningarstofnanir eða málefni einstakra listgreina. Í því ljósi hlýtur að vera sjálfsagt að fjarlægja grein neðst á bls. 4, sem fjallar um eina menningarstofnun sérstaklega; Ríkisútvarpið.

Varðandi kaflann um samvinnu í menningarmálum á bls. 6, þá er nokkuð óljóst hvað átt er við varðandi samstarf við einkaaðila, enda hafa stjórnvöld ekki umboð til að setja einkafyrirtækjum skyldur á herðar á sviði menningarmála. Á bls. 8 er komið meira kjöt á beinin þar sem því er lýst að stefnan feli í sér að skoðaðir verði möguleikar á tilteknum leiðum í þessum efnum t.d. skattaívilnunum til fyrirtækja (og einkaaðila) sem axla ábyrgð í menningarlegu tilliti. Mögulega mætti kveða skýrar að orði varðandi þessi atriði strax á bls. 6.

Í kaflanum um forsendur starfsumhverfis í menningarmálum vantar að telja rannsóknir í listum og menningu með þeim atriðum sem mestu máli skipta. Það er mikilvægt að menningarstefna viðurkenni hið þríþætta hlutverk safna (safna-miðla-rannsaka) og jafnframt að sambærileg áhersla sé lögð í akademísku starfi á menningarsviðinu. Það skortir nokkuð á að nægilega vel hafi verið búið að rannsóknum á sviði lista fram að þessu, en líklegt að úr rætist með aukinni áherslu á meistaranám í listum. Í því sambandi mætti í menningarstefnu leggja áherslu á rannsóknir í listum í þeim háskóla sem hefur viðurkenningu á fræðasviðinu listir.

Það er sannarlega mikilvægt að í menningarstefnu sé lögð áhersla á menningarlega fjölbreytni. Í því sambandi væri eðlilegt að nýta meginmarkmið UNESCO samningsins um menningarlega fjölbreytni, sem Íslendingar eru aðilar að og hafa skuldbundið sig til að innleiða. Þeim markmiðum mætti gera skil í nokkrum orðum í kaflanum um starfsumhverfi.

Þegar á heildina er litið þá fagnar BÍL inntaki þeirrar menningarstefnu sem nú liggur fyrir í drögum en undirstrikar nauðsyn þess að fjárframlög hins opinbera til lista og menningar byggi á raunhæfu mati á verkefnunum og aðstæðum hverju sinni. Þrátt fyrir þessa áherslu ber að hafa það hugfast að stuðningur stjórnvalda er ekki eina forsenda þess að menning skapist og menningararfur framtíðarinnar verði til. Þar er sköunagáfa og sköpunarkraftur frumforsenda. Það er hins vegar eðlilegt og sjálfsagt að stjórnvöld vilji standa undir þeim kröfum sem nútímalegt menningarsamfélag gerir um lífsgæði. Í þeim kröfum eru fólgnar ýmsar áskoranir, sem reynt er að takast á við í menningarstefnu. Bandalag íslenskra listamanna er reiðubúið til að vera áfram þátttakandi í sköpun menningarstefnu stjórnvalda.