Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur birt á vef ráðuneytisins nýmæli vegna starfslauna listamanna 2013. Breytingarnar eru að frumkvæði og beiðni stjórnar listamannalauna og fela það í sér að listamenn geti sótt um starfslaun sem hópur vegna skilgreindra samstarfsverkefna, annað hvort úr einum og sama sjóðnum eða úr mismunandi sjóðum. Einnig verður einstaklingum gert kleift að sækja um starfslaun í fleiri en einn sjóð, ef verkefnið er þess eðlis að það falli að hlutverki fleiri sjóða.
Hugmyndirnar komu fyrst til BÍL 16. júlí og þá óskaði stjórn eftir svigrúmi til að kynna sér þær áður en endanlegar ákvarðanir væru teknar. 23. júlí fékk BÍL tillögurnar til umsagnar og sá stjórn BÍL ekki ástæðu til að leggjast gegn áformuðum breytingum en gerði athugasemd við dagsetningu þá sem áætlað var að markaði lok umsóknarfrests, sem var áætlaður 18. september. Ráðuneytið hefur nú ákveðið að umsóknarfrestur í launasjóðina verði til 25. september.
Hér fer á eftir svar stjórnar BÍL við erindi ráðuneytisins:
Bréf þetta er ritað í framhaldi af samskiptum ráðuneytisins og BÍL í tölvupóstum dags. 16. júlí og 19. júlí og af erindi ráðuneytisins frá 23. júlí um breytingar á úthlutun úr launasjóðum listamanna. Eftir samráð stjórnar BÍL um málið liggur fyrir sú afstaða stjórnarinnar að ekki sé tilefni til að leggjast gegn breytingum þeim, sem lagðar eru til, þó æskilegt hefði verið að þær hefðu komið fram mun fyrr svo meira svigrúm hefði gefist til að ræða markmið þeirra og væntanleg áhrif. Það hefði einnig verið þakkarvert ef breytingarnar hefðu verið í samhengi við áætlun um áframhaldandi uppbyggingu launasjóðanna og samspil breytinganna við lögbundna verkefnasjóði listanna.
Stjórn BÍL fer þess á leit við ráðuneytið að bætt verði við fyrirliggjandi drög að fréttatilkynningu málsgrein sem skýrir markmið breytinganna, eins og þeim er lýst í erindi formanns stjórnar listamannalauna til formanns BÍL dags 27. júlí og fylgir bréfi þessu. Stjórn BÍL telur í raun mjög óheppilegt að tímafrestur skv. tillögunum skuli færður fram og renna út um miðjan september, þar sem hætt er við að ágúst verði umsækjendum ódrjúgur og þeir þurfi septembermánuð til að fullgera umsóknir sínar. Það er því mikilvægt að kynna þessa breytingu afar vel. Stjórn BÍL fagnar því hins vegar ef þetta verður til þess að hægt verði að tilkynna fyrr um úthlutunina en verið hefur og vonast til að hægt verði að tilkynna um hana strax að lokinni samþykkt Alþingis á fjárlögum 2013 í desember nk. Eins leggur stjórn BÍL til að kannað verði hvort í framhaldi af þessum breytingum verði dagsetningum um skil umsókna og tikynningu úthlutana komið í fastar skorður.
Stjórn BÍL ítrekar sjónarmið sín varðandi þörf á stefnumótun um eflingu launasjóðanna til næstu þriggja ára og samspil þeirra við lögbundna verkefnasjóði, eins og rætt var á samráðsfundi menntamálaráðherra og BÍL 13. apríl sl., sjá punkt 4 í fundargerð af fundinum:
Starfslaunasjóðir listamanna. Eftir nýlegan fund BÍL stjórnar með stjórn listamannalauna er ljóst að skerpa þarf tilgang listamannalauna og skoða hvort tilefni er til breytinga á launasjóðunum svo þeir megi betur sinna hlutverki sínu. Í því sambandi er brýnt að skýra eðlismun verkefnasjóða og launasjóða. T.d. þarf að skoða hugmyndir um sviðslistasjóð; kanna kosti og galla þess að koma á svipuðu fyrirkomulagi og Kvikmyndasjóður starfar eftir. Þó fjölgun og efling verkefnatengdra sjóða létti álagi af launasjóðunum, þarf engu að síður að gera áætlun um fjölgun mánaðalauna á næstu árum. Endurskoða þarf upphæð mánaðalaunanna og möguleikann á að fólk eigi val um verktakagreiðslur eða launagreiðslur.