Í dag er listalausi dagurinn, af því tilefni birti Fréttablaðið eftirfarandi grein eftir forseta BÍL; Kolbrúnu Halldórsdóttur:

Nú liggur fjárlagafrumvarp ársins 2012 fyrir Alþingi og víða er rýnt í boðskap þess. Ekki er óalgengt að spjótum sé beint að listum og menningu þegar gagnrýnt er með hvaða hætti opinberu fé er varið. Listafólki eru því töm á tungu rökin, sem réttlæta opinberar fjárveitingar til menningar og lista. Þar vega að sjálfsögðu þyngst rökin um eigið gildi lista og menningar, en upp á síðkastið hafa komið fram tölulegar upplýsingar sem skipta líka máli. Hagræn áhrif lista og menningar eru umtalsverð og ljóst að ríkissjóður fær hverja krónu sem lögð er til listrænnar sköpunar aftur til baka og sumar fimm sinnum.

Hugmyndin um verkfall listafólks hefur oft skotið upp kollinum, til að leggja áherslu á gildi lista og menningar, en slík aðgerð er flókin og jafnvel óframkvæmanleg. Nú hefur hugmyndin verið einfölduð og í stað þess að listafólk fari í verkfall í einn dag, er því beint til hvers og eins okkar að við hugleiðum hversu stóran þátt listir eiga í okkar daglega lífi, hversu víða þær eru í okkar nánasta umhverfi og hversu fátæklegt lífið væri án þeirra. Þetta getum við gert með því að takmarka eigin aðgang að listum og listrænum upplifunum. Til hægðarauka hafa verið útbúin 15 boðorð, sem hægt er að fylgja til að forðast allar listir í dag. Boðorðin eru aðgengileg víða á vefnum og hvetja þau fólk til að hlusta ekki á tónlist, fara ekki í bíó, sækja ekki listasöfn, lesa ekki bókmenntir, horfa ekki á byggingar hannaðar af arkitektum og þar fram eftir götunum. Með sameinuðu átaki og táknrænum gjörningum, sem víðast um landið, er ætlunin að koma boðorðum listalausa dagsins til skila til þjóðarinnar. Allt í þeim tilgangi að skapa umræðu um umhverfi okkar án lista.