Í dag verður Þorvaldur Þorsteinsson borinn til grafar. Þorvaldur gegndi embætti forseta BÍL 2004 – 2006. Listamenn syrgja góðan félaga og votta ástvinum hans innilega samúð.

„Því hér er ég þótt horfinn sé í raun
ef lít ég mig með sýnar minnar sjónum
sem endurvarp eins manns er fór hér fyrr
og lifnar við í leikaranum, mér.“

Þorvaldur með eigin orðum, úr örleikritinu Kall, og nú er hann hér þótt horfinn sé í raun. Hann er í verkunum sem lifa hann og í minningum okkar. Ein af mínu fyrstu minningum um hann er einmitt af leiksviðinu, það var í Stúdentaleikhúsinu og hann lék glæsilega trönsu í kabarett, og söng. Hvílíkt leikaraefni! hugsuðum við mörg og áttum von á að sjá hann næst í Leiklistarskóla Íslands. Skömmu síðar fréttist af honum í Myndlista- og handíðaskólanum. Þar hófst ferðalagið inn í ævintýraskóginn fyrir alvöru og leitin að gulleplum og töfrafuglum. Áður hafði hann reyndar frelsað prinsessuna Ibbý úr helli drekans og hún hvatti hann áfram þegar hann lét sig dreyma um að bjarga líka Rauðhettu frá úlfinum, Hans og Grétu frá norninni og Mjallhvíti frá vondu stjúpunni. Svo urðu dularfullir atburðir til þess að skilaboðaskjóða Stóra dvergs hvarf úr felustað sínum og barst eftir langt ferðalag í hans hendur. Og mikið gladdi það okkur þegar hann leysti frá skjóðunni og hleypti út sögunni um Putta og Möddumömmu, …..jafnvel þótt nátttröllið fylgdi með….

Veruleiki Þorvaldar var ævintýri líkur, hann lifði lífinu lifandi og ferðaðist um draumheima vakandi, stundum með nátttröllið á hælunum;

„Svo sjálfur er ég vitni þess ég vaki
er hrópa ég: Æ, tími, slepptu taki!“

Og tíminn sleppti óvænt taki 23. febrúar! Síðast sat hann við eldhúsborðið hjá mér í janúar og sýndi mér handrit sem hann var með í smíðum. Lífið virtist leika við hann, það var bjart yfir honum og spennandi verkefni framundan. Dvölin í Belgíu, með prinsessunni Helenu, hafði gert honum gott. Við skröfuðum um erindið sem hann ætlaði að flytja á málþinginu í tengslum við aðalfund BÍL 9. febrúar og hann bjó mig undir að hann ætlaði að vera ómyrkur í máli. Það kom ekki á óvart, það var hann yfirleitt. Nú deila menn upptöku af erindi þessu á facebook, þar sem hann fjallar af ákefð um hugðarefni sitt; menntun. Á eftir var setið um hann, félagar og vinir sópuðust að honum til að spyrja frétta úr ævintýraskóginum. Síðasta minning okkar margra, síðasta senan í leiknum margslungna sem líf Þorvaldar Þorsteinssonar var. Og það gustaði af honum í hlutverkinu, þá og alla tíð. Þess er gott að minnast nú á sorgarstundu.

Þessum fátæklegu kveðjuorðum fylgja kveðjur og þakklæti frá Bandalagi íslenskra listamanna, en Þorvaldur gegndi embætti forseta bandalagsins um skeið. Hugurinn dvelur hjá fjölskyldu og ástvinum, sem syrgja góðan dreng, megi óskir Möddumömmu fylgja honum í hans hinstu för:

„Vaka yfir værri brá,
vonir mínar allar.
Móðurhjartans heitust þrá;
heitir góðar vættir á,
að prinsinn minn rati heim til sinnar hallar.“

Kolbrún Halldórsdóttir