Aðalfundur BÍL skorar á ríki og sveitarfélög að standa vörð um tónlistarskóla landsins og ganga nú þegar frá samkomulagi um kostnaðarskiptingu sem tryggir að tónlistarnemar þessa lands geti stundað tónlistarnám óháð aldri búsetu og efnahag. Það ástand sem ríkir í málaflokknum er með öllu óþolandi. Nú er svo komið að til stendur að skera niður framlög til tónlistarkennslu í Reykjavík allt að 18% til viðbótar þeim 14% sem nú þegar hafa komið til framkvæmda 2009-2010. Auk þess ætla borgaryfirvöld einungis að greiða með nemendum 16 ára og yngri. Ef þetta gengur eftir mun fjöldi tónlistarnema, sem ætla sér að verða tónlistarmenn að atvinnu, hrökklast frá námi og nýliðun stöðvast í tónlistarlífi þjóðarinnar.

Rökstuðningur:

Öldum saman hefur tónlist verið ríkur þáttur í lífi og starfi manna, gleði og sorgum. Tónlistin er óaðskiljanlegur hluti af menningararfi þjóða. Markvisst tónlistaruppeldi miðar að auknum þroska einstaklinga, þjálfar huga og eflir tjáningarhæfni nemenda. Auk þess veitir gott tónlistarnám lífsfyllingu og hefur víðtækt félagslegt gildi. Tónlistarskólar gegna lykilhlutverki við miðlun tónlistarþekkingar og uppbyggingu tónlistarlífs í hverju sveitarfélagi og gegna þar mikilvægu menningarhlutverki. Skólarnir þjóna breiðum hópi tónlistaráhugafólks á ýmsum aldri, jafnt þeim sem stunda námið sér til ánægju og þeim sem hyggjast leggja tónlistina fyrir sig. Mikilvægt er að tónlistarnám veki ánægju og örvi nemendur til að iðka tónlist og njóta hennar. Menntun í tónlist er fjárfesting í lífsgæðum einstaklings og samfélagsins í heild sinni.

Andrúmsloft og það samfélag sem ríkir innan veggja tónlistarskóla, þar sem allt snýst um tónlist og tónlistariðkun, er einstakt. Eindregið er mælt með því að nemendum gefist kostur á skólastarfi í slíku umhverfi, einkum þegar áleiðis miðar í náminu, sé þess nokkur kostur. Tónlistarskólar landsins eru uppspretta þess fjölbreytta og gróskumikla tónlistarlífs sem þjóðin státar sig af.