• Sameiginlegir hagsmunir listafólks varðandi skattlagningu verði í brennidepli á árinu. BÍL endurnýi áherslur sínar í skattamálum, beiti sér áfram í baráttunni fyrir sem sanngjarnastri skattálagningu á störf og afurðir listamanna, auk þess að vinna markvisst að því að tryggja rétt listamanna hjá samfélagsstofnunum á borð við Vinnumálastofnun og Tryggingarstofnun.
  • BÍL undirbúi tillögur um breytt fyrirkomulag heiðurslauna listamanna. Markmiðið verði að skilgreina betur grundvöll heiðurslaunanna, fjöldi þeirra verði í samræmi við þörfina, úthlutunin verði á hendi faglega skipaðrar nefndar og sjálf upphæðin verði ámóta hlutfall af starfslaunum listamanna og almennt gildir um eftirlaun. Að öðru leyti vísast til ályktunar aðalfundar BÍL um málið 2011.
  • Heimasíða BÍL verði þróuð áfram og hún gerð að vettvangi skoðanaskipta um listir, auk þess sem hún miðli greinum frá listafólki og samtökum þeirra um störf og hagsmunamál listafólks. Mikilvægt er að efla þá hluta síðunnar sem miðla upplýsingum um BÍL á erlendum tungumálum (ensku og dönsku) eftir því sem fjárhagur BÍL leyfir. Þá verði áfram unnið að því að koma starfi BÍL á framfæri á samskiptasíðum á vefnum.
  • BÍL setji á fót starfshóp, sem leitist við að tryggja skráningu listafólks í rétta atvinnugreinaflokka hjá skattyfirvöldum, með það að markmiði að stjórnvöld (þ.m.t. Hagstofa Íslands) hafi á hverjum tíma sem gleggstar upplýsingar um störf innan geirans svo auðveldara sé að leggja mat á þjóðhagslegt vægi lista og menningar.
  • BÍL fylgist með undirbúningi lagasetningar á sviði lista og menningar, t.d. um RÚV ohf., sviðslistir, miðstöð íslenskra bókmennta og tónlistarsjóð, með það að markmiði að vinna sameiginlegum hagsmunamálum listamanna brautargengi við lagasmíð. Í því sambandi er minnt á ályktun ársfundar BÍL 2011 um að Ríkisútvarpið axli ábyrgð sem einn af hornsteinum íslenskrar menningar með því að veita íslenskri menningu aukið rými í dagskrá og að tryggja vandaða umfjöllun um störf listamanna.
  • BÍL skipi starfshóp sem sjái til þess að Listalausi dagurinn verði þróaður áfram og haldinn í nóvember 2012. Farið verði yfir framkvæmdina 2011 og skoðað það sem vel tókst. Leitað verði samstarfs við stofnanir á sviði menningar og lista, með það í huga að aðgerðirnar nái sem mestum slagkrafti og veki fólk til umhugsunar um þýðingu listarinnar fyrir samfélagið.
  • BÍL leiti nýrra leiða til að styrkja fjárhagslega stöðu sína með það að markmiði að ráða til sín starfskraft sem auka myndi slagkraftinn í hagsmunabaráttu listamanna. Í ljósi vaxandi áhuga á uppbyggingu skapandi atvinnugreina, jafnt meðal stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins, er mikilvægt að BÍL hafi bolmagn til að taka virkan þátt í þeirri uppbyggingu með heildarhagsmuni listamanna að leiðarljósi.
  • BÍL fylgist með framvindu mála hjá starfshópi innanríkisráðuneytisins sem hefur til skoðunar fyrirkomulag íslenskra talnagetrauna (þ.m.t. íslenska lottósins). BÍL tryggi að starfshópurinn fái upplýsingar um fyrirkomulagið í þeim löndum sem tryggja listum og menningu hlutdeild í arði slíkra getrauna.