Bandalag íslenskra listamanna lýsir furðu sinni á þeirri atburðarás sem átt hefur sér stað, með afskiptum bæjarstjóra og yfirvalda Hafnarfjarðarbæjar af uppsetningu sýningarinnar Töfrafundur – áratug síðar í Hafnarborg.

Hafnarborg er viðurkennt safn samkvæmt safnalögum og ber því að starfa samkvæmt þeim, sem og siðareglum ICOM (International Council of Museums). Inngrip og afskipti stjórnvalda í Hafnarfirði af sýningu listamannanna Libíu Castro og Ólafs Ólafssonar gengur mjög á svig við þær siðareglur og meginreglu stjórnsýslu menningarmála, að viðhafa fjarlægð pólitískra
valdhafa frá listrænum ákvörðunum í rekstri safna og menningarstofnanna. Þetta hugtak um armslengdarfjarlægð hins pólitíska valds er til þess ætlað að tryggja eftir fremsta megni sjálfstæði listarinnar svo henni sé unnt að vera sú gagnrýna rödd sem lýðræðinu er nauðsynlegt.

Listamennirnir Libía Castro og Ólafur Ólafsson eru listamenn sem hafa í sinni myndlist gjarnan verið á mörkum aktívisma og beitt fagurfræði sinni til þess að færa til mörk hefðbundinnar orðræðu stjórnmála. Myndlist þeirra er virk lýðræðisumræða – hvernig lýðræðið birtist okkur í framkvæmd. Þannig er fagurfræði myndlistar þeirra pólitískt ágeng og nátengd hugmyndum aðgerðasinna.

Í því ljósi, og það dylst engum, er þetta inngrip stjórnvalda í sýninguna ritskoðun. Það þarf enginn að velkjast í vafa um að ákvörðun um að láta fjarlægja hluta sýningarinnar af vegg safnsins er fordæmalaus ákvörðun og verður ekki slitin úr samhengi við eðli og form sýningarinnar, allar eftir á skýringar um leyfisveitingar eru hefðbundið yfirklór og tæknilegar aðfinnslur til að réttlæta þá ritskoðun.

Bandalag íslenskra listamanna fer fram á að safnið komi verkinu aftur fyrir á þeim stað sem listamennirnir fundu því í upphafi.