Fréttablaðið birti í dag grein eftir Egil Ólafsson formann Samtaka um tónlistarhús:
Samtök um tónlistarhús – SUT, hafa starfað í 28 ár. Samtökin hafa haldið á lofti mikilvægi byggingar tónlistarhúss í Reykjavík. Barátta fyrir tónlistarhúsi er þó enn lengri og má segja að hún hefjist á ofanverðri 19. öld. Þannig hefur hún staðið í rúm eitt hundrað ár. Baráttunnar sér m.a. stað í Stefnuskrá Bandalags íslenskra listamanna 1937, þar sem hvatt er til að komið verði upp fullkomnu hljómleikahúsi í Reykjavík. Oft voru áformin kveðin niður af ráðamönnum, sem vildu niður með fjöllin og upp með dalina. Enn dreymdi framfaramenn um tónlistarhús við stofnun Sinfóníuhljómsveitar Íslands 1950, áfram var því mætt af ámóta dalamennsku og fyrr. Andsnúnir sögðu slík monthús ekki vera fyrir Íslendinga. Áfram sýndu stjórnvöld hugmyndum um tónlistarhús lítinn áhuga – hlutverk SUT fólst í að þoka ráðamönnum og almenningi til skilnings á málefninu. Undir aldamótin 2000 fór að rofa til, baráttan eignaðist talsmann í Birni Bjarnasyni þ.v. menntamálaráðherra og í kjölfarið lýsti ríkisstjórnin stuðningi við málið. Árið 2002, hinn 11. apríl, var undirritað samkomulag milli ríkis og borgar um að vinna að því að reisa tónlistarhús, húsið yrði tilbúið í lok árs 2006. Þar var kveðið á um að einkaaðilar skyldu byggja og reka húsið, en borg og ríki leggðu fjármuni til reksturs árlega. Þá hófst forvinna að byggingunni. Samkeppni um útlit, byggingarframkvæmd og rekstur – nýjar tímasetningar sem miðuðu við að húsið opnaði 2009. Portus, félag Björgólfs Guðmundssonar varð fyrir valinu. Byggingahraðinn varð annar en ætlað var og hrunið kom í veg fyrir opnun 2009. Til stóð að hætta framkvæmdum, en þá kom til dirfska, sem fólst í ákvörðun yfirvalda um að halda áfram, þar fóru fyrir; Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttur borgarstjóri. Þá verður að geta samstöðu margra, sem héldu réttilega fram að byggingin eyðilegðist við að standa sem gapandi stekkur um ókomin ár.
Traustir stuðningsaðilar Samtakanna
Samtök um tónlistarhús hafa frá byrjun átt að trausta stuðningsaðila. Þar í flokki eru einlægir áhugamenn um tónlist, fjöldi listamanna, sem gefið hafa vinnu sína á tónleikum, við upptökur sem gefnar hafa verið út í nafni SUT. Þá gleymist ekki fjöldi fyrirtækja og einstaklinga, sem styrkt hafa Samtökin með stórum fjárhæðum af ýmsu tilefni. Ekki verður og litið framhjá þeim sem í ræðu og riti héldu uppi baráttu fyrir húsinu.Ekki má heldur gleyma öllum formönnum og stjórnum samtakanna frá upphafi, sem unnið hafa mikið starf í sjálfboðavinnu.
SUT slitið – nýr styrktarsjóður
Nú eru tímamót; með tilkomu Hörpu er hlutverki SUT lokið. Þeir peningar sem safnast hafa á löngum tíma verða að styrktarsjóði, sem styrkja mun sköpunarstarf í Hörpu, þetta er ákvörðun aðal- og fulltrúaráðsfundar Samtakanna frá því í október 2009. Sjóðurinn mun heita; Styrktarsjóður SUT og Ruth Hermanns, en Ruth ánafnaði öllum eignum sínum málstaðnum. Sjóðurinn mun starfa innan Hörpu og í stjórn eru fulltrúar þriggja fagfélaga tónlistarmanna; FÍH, STEF, FÍT, fulltrúi frá Sinfóníuhljómsveit Íslands og tónlistarstjóri Hörpu. Sjóðurinn veitir tvo styrki árlega til tónlistarmanns eða -hóps. Styrkþegi er skuldbundinn til að halda tónleika í viðeigandi sal Hörpu. Fyrstu tónleikar af þessu tilefni verða að vori 2012. Það er mat stjórnar SUT, að þannig sé peningunum best varið; til sköpunar nýrra landvinninga í tónlist. Stofnfé Styrktarsjóðsins verður um 120.000.000 kr. Nánari upplýsingar um sjóðinn er að finna á heimasíðum FÍH, FÍT, STEFS og Hörpu.
Stuðningsaðilum boðið á tónleika í Hörpu
Nú er ástæða til að gleðjast yfir glæsilegu tónlistarhúsi. Það er ánægjulegt að segja frá því að 19. ágúst. nk. kl. 20:00, verður styrktaraðilum SUT boðið á tónleika í Hörpu. Á efnisskrá er m.a. Mozart flautukonsert með Stefáni Ragnari Höskuldssyni, flautuleikara hjá Metropolitan óperunni í New York. Þá verður og afhjúpaður minnisvarði, koparskjöldur þar sem Samtökum um tónlistarhús – stuðningsaðilum eru færðar þakkir fyrir 28 ára baráttu. Næstu daga mun þeim berast boðsbréf á þennan viðburð og nánari upplýsingar um slit Samtakanna og stofnun Styrktarsjóðsins.
Ný viðmið
Það eru tímar sundurþykkju í gjörvallri veröld – tilgangsleysi og fátækt eru hlutskipti margra – við snúum ekki til baka með það sem íþyngir okkur í veraldlegum og andlegum efnum – en til að halda vöku okkar er mikilvægt að við missum ekki sjónar á því sem við þó höfum. Þetta er inntak tónlistar – og tónlistin ber í sér eðli viljans. Sá sem kynnist því eðli, veit að hann getur breytt sjálfum sér til hins betra og þannig verður til afl sem leiðir til betra samfélags.
Harpan ber með sér vortíð og nýja tíma – tíma sem færa okkur áður óþekkt viðmið og lífsgæði. Nú berst tónlistin til okkar óhindrað í glæstum sölum. Nú þarf að efla sköpun tónlistar í húsi sem við öll gerum tilkall til, þangað getum við sótt styrk, sem eflir okkur til nýrra átaka. Til hamingju með Hörpu – heiðskíra von um framtíð.