Í dag birtist grein í Morgunblaðinu, skrifuð af stjórn FÍH:
Þann 4. maí rættist langþráður draumur tónlistaráhugamanna og tónlistarmanna á Íslandi þegar að fyrstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands voru haldnir í stóra sal „Hörpunnar“ nýju tónlistarhúsi Íslendinga. Tónleikarnir voru upphaf af opnunarhátið Hörpunnar sem stendur í allt sumar og lýkur í ágúst. Það ríkti mikil spenna hjá tónleikagestum þetta kvöld og strax mátti heyra á fyrstu tónum Sinfóníuhljómsveitarinnar að hér var ævintýri að gerast. Það var vitað að hljómsveitin er góð en í þessum sal og á þessu kvöldi var undirstrikað að hljómsveitin er enn betri en vonir manna hafa staðið til og kvöldið varð stórkostlegt . Harpa er glæsilegt hús og Eldborg einhver fallegasti salur sem hannaður hefur verið til tónleikahalds. Með tilkomu Hörpu mun íslenskt tónlistarlífi lyftast í aðrar hæðir.

Fyrstu heimildir um baráttu tónlistaráhugafólks fyrir tónlistarhúsi eru frá því fyrir um miðja síðustu öld en þá auglýstu tónlistarmenn undir forystu Páls Ísólfssonar eftir „Tónlistarhöll í Reykjavík“. Þá var Hljómskálinn byggður 1923, eina húsið sem byggt var eingöngu fyrir tónlist og tónlistarflutning. Samtök um tónlistarhús voru stofnuð árið 1983 og hefst þá formlega baráttan fyrir tónlistarhúsi í Reykjavík og varanlegu heimili fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands sem þá hafði átt heimili í Háskóla „bíói“ frá 1961. Þar sem Háskólabíó var fyrst og fremst hugsað sem kvikmyndahús var aðstaðan þar ófullnægjandi fyrir hljómsveitina. Skal það ekki tíundað hér enda er það tímabil að baki.

Samnorræn samkeppni um hönnun tónlistarhúss var haldin 1988 og stóðu Samtök um tónlistarhús að henni. Hlutskarpastur var Guðmundur Jónsson arkitekt og í kjölfarið úthlutaði Reykjavíkurborg samtökunum lóð undir húsið í Laugardalnum. Samkeppnin reyndist samtökunum dýr og þar að auki kipptu þáverandi stjórnvöld að sér höndum í kjölfarið þannig að um nokkurra ára skeið var málið saltað þó svo að samtökin héldu jöfnum þrýstingi á stjórnvöld að taka málið upp á sína arma. Líklega er það þó meðal annars þessari samkeppni að þakka að málefni tónlistarhúss fóru í annan og betri farveg nokkrum árum seinna.

Björn Bjarnason varð Menntamálaráðherra 1994 og var það eitt af hans fyrstu verkum að lýsa því yfir að ákvörðun um tónlistarhús yrði tekin á kjörtímabilinu en fyrir lá viljayfirlýsing frá Reykjavíkurborg um stuðning við verkefnið. Við það loforð var staðið og var samkomulag milli ríkis og borgar undirritað í ársbyrjun 1999. Í upphafi nýrrar aldar kom samgöngugeirinn svo að verkinu sem hafði þau áhrif að í stað þess að byggja Tónlistarhús breyttist verkefnið í Tónlistar- og ráðstefnuhús. Ennfremur var húsið flutt úr Laugardalnum að Austurhöfninni í miðbæ Reykjavíkur. Á þessum árum voru miklar breytingar í íslensku samfélagi í átt til einkavæðingar og fór húsið úr höndum ríkis og borgar um nokkurra ára skeið til einkaaðila sem byggðu það upp að miklu leyti en húsið hafnaði svo aftur í fangi hins opinbera ásamt áhvílandi skuldum sem reyndust orðnar verulegar.

Á framkvæmdatíma færðust Samtök um tónlistarhús frá verkefninu þó svo að þau væru kölluð saman öðru hvoru sem samráðsaðili, þá aðallega þegar til umfjöllunar voru mál sem snéru að væntanlegum notendum þ.e. flytjendum og njótendum tónlistar í húsinu. Eðlilega dró úr starfsemi samtakanna þar sem verkefnið sjálft, tónlistarhúsið, var í fullum gangi. Var stjórn samtakanna þó sammála um að samtökin hefðu tilgang allt fram á opnunardag hússins.

Stjórn Samtaka um tónlistarhús hefur nú samþykkt að stofna „Menningarsjóð Samtaka um tónlistarhús og Ruthar Hermanns“ fiðluleikar í SÍ sem ánafnaði tónlistarhúsinu öllum eigum sínum. Hlutverk sjóðsins er að styðja við tvenna tónleika á ári í þeim tilgangi að gefa framsæknu tónlistarfólki möguleika á að halda tónleika í Hörpu um leið og stuðningsaðilum samtakanna í gegnum tíðina yrði boðið á þessa tónleika sem þakklætisvotti fyrir sitt framlag til tónlistarhússins.

Nú þegar Harpan er orðin veruleiki er hljómlistarmönnum ofarlega í huga þakklæti til allra þeirra sem lagt hafa hönd á plóginn til að hugmyndin um tónlistarhús í Reykjavík sé nú orðin að veruleika. Þakklæti til þeirra stjórnvalda sem höfðu dug og áræði að ýta hugmyndinni úr vör og þeirra stjórnvalda sem höfðu þor til þess að halda verkinu áfram þegar efnahagur þjóðarinnar var hruninn. Til þess þurfti kjark. Ekki síst ber að þakka þeim dygga stuðningshópi Samtaka um tónlistarhús sem hefur stutt baráttuna frá upphafi. Í dag tuttugu og átta árum seinna eru enn um 650 stuðningsaðilar hjá Samtökum um tónlistarhús.

Þó svo að Harpan sé ekki byggð fyrir fjármuni Samtaka um tónlistarhús er það félagsmönnum SUT að þakka að hægt var að halda baráttunni á lofti í öll þessi ár og húsið komst í „höfn“. Fyrir það þökkum við hljómlistarmenn um leið og við fögnum þessum merka áfanga í sögu tónlistar á Íslandi og bjóðum alla þá sem hafa stutt okkur í baráttunni fyrir tónlistarhúsi hjartanlega velkomna í Hörpuna.