Þann 15. febrúar 2007 sat stjórn BÍL afar gagnlegan fund með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, og fulltrúum úr menntamálaráðuneytinu. Fundurinn stóð í hátt á þriðju klukkustund.
Málefnaskrá fyrir árlegan samráðsfund bandalagsins og menntamálaráðherra.
15. febrúar 2007.
Starfslaun listamanna.
Aðalfundur BÍL, 24. janúar samþykkti ályktun þar sem skorað er á Alþingi að fjölga starfslaunum listamanna.
“Í heilan áratug hefur fjöldi starfslauna listamanna staðið í stað. Á sama tíma hefur flest annað tekið stórfelldum breytingum, til dæmis hefur þjóðinni fjölgað um 13% og landsmenn búið við hagvöxt og vaxandi velmegun.”
Menningarmálaráðuneyti
Aðalfundur BÍL, 24. janúar samþykkti ályktun um að stofnað verði sérstakt menningarráðuneyti.
“Margt bendir til þess að verðmætasköpun framtíðarinnar verði hvað mest í hinum skapandi atvinnugreinum – en alveg burtséð frá því er löngu tímabært að mikilvægi lista í íslensku samfélagi verði viðurkennt”.
Menningarhlutverk Ríkisútvarpsins og skilgreining hugtaka.
Aðalfundur BÍL, 24. janúar samþykkti ályktun um “mikilvægi menningarhlutverks Ríkisútvarpsins og hve mikilvægt það er að á vegum þess fari fram fjölbreytt íslensk dagskrárgerð og þá ekki síst vandað leikið efni.”
BÍL bendir á nauðsyn þess að sameiginlegur hugtakaskilningur ríki og vísar til þjónustusamnings Menntamálaráðuneytis og RÚV ohf.
1. Skilgreining á því hvað telst vera íslenskt dagskrá og hvað telst vera innlent sjónvarpsefni, sbr. útvarpslög nr.53/2000, 7.gr. og svar menntamálaráðherra við fyrirspurn skv. þingskjali 485.
2. Skilgreining á hugtakinu sjálfstæður framleiðandi sbr. 3. gr. Samnings um útvarpsþjónustu í almannaþágu (s.k. þjónustusamningur) þar sem fjallað er um nýsköpun í dagskrárgerð.
3. Skilgreining á leiknu efni sbr. svar Bjarna Guðmundssonar framkv.stjóra RÚV til SÍK í okt. 2006.
Heiðurslaun listamanna.
BÍL telur mikilvægt að fagnefnd komi að veitingu slíkra launa. Fram hefur komið sú hugmynd að skilgreina þau að hluta til sem eftirlaun. Mikill vansi er að bágum kjörum aldinna listamanna sem hafa lagt þjóðinni til ómetanleg listaverk.
Skattprósenta á tekjur af hugverkum.
Aðalfundur BÍL, 24. janúar samþykkti ályktun um “að skora á stjórnvöld að viðurkenna hugverk sem eign er lúti sömu lögmálum og aðrar eignir á borð við húsnæði, hlutabréf og kvóta og beri samkvæmt því 10% fjármagnstekjuskatt.”
Skattlagning verðlaunafjár
BÍL álítur að lagabreytingar sé þörf og bendir á að verðlaun eru frekar hagnaður en tekjur, og ættu þau þ.a.l. að bera 10% skatt. Einnig er bent á að lottó- og happdrættismiðar eru skattfrjálsir.
Verðlaunafé í samkeppnum um byggingar og skipulag ber 24.5% virðisaukaskatt. Jafnræði þarf að vera með verðlaunafé arkitekta og verðlaunum annarra listamanna.
Byggingalistarstefna.
Þetta er vonandi síðasta árið sem Arkitektafélag Íslands þarf á samráðsfundi að ítreka
margra ára baráttumál sitt um mótun opinberrar byggingalistarstefnu. Heyrst hefur að nefndin hafi skilað verkinu af sér, svo að nú er beðið eftir útgáfu ritsins. Vinna þarf næst að því að opinberri byggingalistastefnu verði framfylgt á metnaðarfullan hátt.
Endurskoðun grunnskólalaga – þáttur listuppeldis og samvinna skóla og listamanna.
Fulltrúar BÍL komu sjónarmiðum sínum á framfæri við nefndarmenn á fundi sl. vor. Flestir virðast sammála um mikilvægi listkennslu og nauðsyn sköpunar og frumkvæðis innan grunnskólans. Kennslustundafjöldi í listgreinum er takmarkaður og finna þarf farveg fyrir samvinnu skóla og listamanna.
Lagasetning um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla og skipting skólastiga í listnámi.
Tónlistarskólar hafa fóstrað miklar auðlindir þjóðarinnar og hefur tónlistarfólk átt drjúgan þátt í að skapa ímynd Íslands meðal annarra þjóða. Sú óvissa og átthagafjötrar sem tónlistarnemar búa við, grefur undan framtíðarsýn þeirra og þjóðarinnar.
Skipting listnáms í skólastig er einn þáttur þessa vanda.
Um nám í listdansi.
stjórn Félags íslenskra listdansara vill leggja eftirfarandi spurningar fyrir menntamálaráðherra:
1. Síðastliðið haust tóku þrír skólar að starfa eftir nýrri aðalnámskrá í listdansi á framhaldsskólastigi. Hvenær verður lögð fram skýr reglugerð varðandi rekstrarfyrirkomulag þessa náms þ.e. varðandi fjárhagslegan stuðning við listdansnám á framhaldsskólastigi?
Menntamálaráðuneytið hefur nú þegar tjáð fulltrúum FÍLD að verið sé að vinna að slíkri reglugerð. En sú vinna hefur staðið í tæpt ár og nú eru kosningar í nánd. Hvað verður gert til þess að koma í veg fyrir að málið lendi aftur á byrjunarreit ef t.d. til ríkisstjórnarskipta kemur? Verða sett einhver bráðabirðalög til þessa? Skólarnir þurfa nú að huga að skipulagi náms og inntökuprófum fyrir næsta ár og ríkir mikið óöryggi um hvort einhver grundvöllur sé til þess að starfa áfram.
2. Hvar er umræðan stödd milli ríkisins og sveitafélaganna varðandi breytt rekstrarfyrirkomulag listdansnáms í landinu sem og skiptingu skólastiga innan listdansins í menntakerfinu?
Í fyrra tjáði ráðherra fulltrúa FÍLD um að listdansnámið mundi fá sömu meðferð og annað listnám hjá sveitarfélögum, búið væri að funda með sambandi íslenskra sveitarfélaga um málið en ekki væri búið að ræða við einstök sveitarfélög að svo stöddu. Svo virðist sem hvorki gangi né reki í málinu þar sem enn er engin lausn í sjónmáli: af hverju og hver eru ykkar næstu skref í þessu máli?
3. Hvernig sér ráðherra fyrir sér uppbyggingu sjálfstæða dansgeirans svo kraftur hans geti nýst landinu frekar sem afl til uppbyggingar og umbóta?
Íslenski dansflokkurinn er eini starfandi dansflokkurinn á föstum fjárframlögum frá ríkinu. Fyrir stuttu jókst framlag ríkissjóðs til dansflokksins til muna og nú starfa innan hans 12 dansarar í fastri stöður. Fjöldi sýninga Íslenska dansflokksins á íslenskri og erlendri grundu eru nú orðinn svipaður og fjöldi sýninga sjálfstætt starfandi danshópa, dansara og danshöfunda.
Innan þessa hóps sjálfstætt starfandi aðila eru okkar fremstu danslistamenn, þeir sem aukið hafa hróður greinarinnar á innlendum og erlendum vettvangi svo um munar. Verkin á verkefnadagskrá þessara aðila eru afar fjölbreytt og ólík og býður þessi hópur listamanna íslenskum og erlendum leikhúsgestum upp á fjölbreytta íslenska dansmenningu, menningu á heimsmælikvarða. Ekki þarf að taka fram að aðbúnaður þessara sjálfstæðu aðila er mjög slakur og möguleikar á hinum ýmsu sviðum þar af leiðandi vannýttir.
Nám í kvikmyndagerð á háskólastigi.
Kvikmyndagerð er ein mikilvægasta listgrein samtímans. Listaháskólinn hefur lagt fram tillögur að námsbraut við skólann en fjármagn skortir til að byggja upp slíka deild. Mikilvægt er að slíkt nám geti hafist sem fyrst.
Sjálfstæðir Atvinnuleikhópar.
Starfsumhverfi sviðslistamanna hefur breyst umtalsvert. Stöðugildi ótímabundið ráðinna sviðslistamanna í stofnanaleikhúsunum hefur fækkað um 50% á undanförnum 5 árum.
Á sama tíma hefur starfsemi atvinnuleikhópa eflst til muna. Það er því mikilvægt að Menntamálaráðuneytið beiti sér fyrir auknum fjárframlögum til þeirra.
Fjárhagur listastofnana, s.s. Þjóðleikhúss og Listaháskóla.
Mikilvægt er að stofnunum sé tryggt fjármagn til eðlilegs viðhalds og þróunar.
Byggingamál Listaháskóla Íslands.
Við stofnun skólans var fyrirheit gefið um fullbúið húsnæði sem síðan hefur oft verið staðfest. Ein bygging sem hýsir alla starfsemi Listaháskólans er forgangsmál til að samlegðaráhrif listanna fái notið sín. Brýnt er að ákvarða í þessu máli.
Tónlistarhús
Aðalfundur BÍL, 24. janúar samþykkti ályktun og “lýsti yfir ánægju sinni með að hafin sé bygging tónlistarhúss í Reykjavík, sem víst er að muni enn efla hið blómlega tónlistarlíf í landinu.”
Tónlistarsjóður
Fjármagn sjóðsins hefur ekki aukist frá stofnun hans, en stórum verkefnum fjölgað. Framlag úr sjóðnum til stofnunar Útflutningsskrifstofu tónlistar, tekur afar stóra hlutdeild.
Umsóknareyðublöð eru mjög efnismikil þegar sótt er til smærri verkefna.
IHM sjóður
Mikil nauðsyn er að gjald leggist á harða diska, eins og á myndbönd og geisladiska.
Vinnuaðstaða myndlistarmanna og vinnustofur fyrir erlenda listamenn.
Mikilvæg aðstaða er fengin fyrir myndlistarmenn en leigukjör á ,,markaðsverði“ eru afar erfið. Mikilvægt að fá stuðning við rekstur vinnustofa fyrir erlenda listamenn en slíkur rekstur virðist falla vel að markmiðum norrænu ráðherranefndarinnar og hins nýja ,,residency- og mobilitetsprógrams“.
Listskreytingasjóður ríkisins og list í opinberum byggingum.
Mikilvægi myndlistar í opinberum byggingum er hér með undirstrikað.