Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna var haldinn í Landnámssetrinu í Borgarnesi þann 20. janúar 2007. Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum hélt Ágúst Einarsson rektor á Bifröst innblásinn fyrirlestur undir fyrirsögninni: Hvers vegna á að styðja við listir út frá hagrænu sjónarmiði?

 

Ályktanir aðalfundar BÍL,

Bandalags íslenskra listamanna,

í Borgarnesi 20. janúar 2007

 

Ályktun um nauðsyn þess að fjölga starfslaunum listamanna.

Í heilan áratug hefur fjöldi starfslauna listamanna staðið í stað. Á sama tíma hefur flest annað tekið stórfelldum breytingum, til dæmis hefur þjóðinni fjölgað um 16% og landsmenn búið við hagvöxt og vaxandi velmegun. Bandalag íslenskra listamanna skorar á alþingismenn að ráða á þessu bót.

 

Ályktun um menningarráðuneyti

Aðalfundur BÍL leggur til að stofnað verði sérstakt menningarráðuneyti. Margt bendir til þess að verðmætasköpun framtíðarinnar verði hvað mest í hinum skapandi atvinnugreinum – en alveg burtséð frá því er löngu tímabært að mikilvægi lista í íslensku samfélagi verði viðurkennt..

 

Ályktun um skattprósentu á tekjur af hugverkum

Bandalag íslenskra listamanna skorar á stjórnvöld að viðurkenna hugverk sem eign, er lúti sömu lögmálum og aðrar eignir á borð við húsnæði, hlutabréf og kvóta og beri samkvæmt því 10% fjármagnstekjuskatt.

 

Ályktun um menningarhlutverk Ríkisútvarpsins

Aðalfundur BÍL vill enn og aftur benda á menningarhlutverki Ríkisútvarpsins og hve mikilvægt það er að á vegum þess fari fram fjölbreytt íslensk dagskrárgerð og þá ekki síst vandað leikið efni.

Brýnt er einnig að Ríkisútvarpið leitist við að bregða ljósi á þá grósku sem ríkir í listsköpun landsmanna, og í því sambandi ber að fagna glæsilegum þáttum um íslenska tónlistarmenn sem nýlega hafa verið á dagskrá sjónvarpsins, auk stuttra þátta um myndlistarmenn. En betur má ef duga skal og það er ekki vansalaust að eini fasti þáttur sjónvarpsins um listir skuli hafa verið lagður niður og brýnt að ráðin verði bót á því sem bráðast.

Aðalfundurinn lýsir ánægju sinni með að sérstakur fréttamaður skuli nú sjá um menningarfréttir á rás eitt í útvarpinu.

 

Ályktun um tónlistarhús

Aðalfundur BÍL lýsir yfir ánægju sinni með að hafin sé bygging tónlistarhúss í Reykjavík, sem víst er að muni enn efla hið blómlega tónlistarlíf í borginni.