Frá fundi BÍL 30. september 2006

Dagur Kári:

Staða sjónvarpsins

 

Þegar ég var beðinn um að halda lítið erindi um stöðu Ríkissjónvarpsins, þá fannst mér sjálfsagt að verða við þeirri bón. Taldi það bæði ljúft og skylt að taka þessa stofnun og valta yfir hana í örfáum orðum. Létt verk og löðurmannlegt að hakka hana í spað fyrir hlálega frammistöðu og algera vanrækslu á skyldum sínum? En ég var rétt búinn að bretta upp ermarnar og spýta í lófana, þegar þau tíðindi bárust að samningur hefði verið rissaður upp milli RÚV og Menntamálaráðuneytis, þar sem Ríkisútvarpið skuldbindur sig til að auka vægi innlends efnis um 50% á næstu 5 árum? Óneitanlega pirrandi fréttir fyrir mann sem er nýbúinn að brýna hnífana og kominn með blóðbragð á tunguna? Mér kom ósjálfrátt í þegar Ragnar Reykás hefur rétt náð sér á flug í sínum innblásnu niðurrifsræðum þegar nýjar upplýsingar berast sem verða til þess að hann neyðist til að taka U-beygju og söðla algerlega um. Eða hvað?… Kannski ætti maður bara halda sínu striki eins og ekkert hafi í skorist, því það er einhverra hluta vegna svo miklu auðveldara að vera neikvæður en jákvæður. Og í þeim anda ætla ég hérmeð að segja að mín fyrstu viðbrögð við þessum samningi eru eiginlega „So what?“. Auðvitað eru það gleðitíðindi að menn ætli að taka sig á, en miðað við kalt mat á stöðunni í dag, þá virkar 50% aukning á innlendu efni dálítið eins og dropi í hafið, nema hvað í þessu tilfelli þá er ekkert haf til að setja dropann í. Þótt ég viðurkenni fúslega að vera arfaslakur í reikningi þá óttast ég satt best að segja að þessi munur verði vart greinanlegur miðað við þá tölu sem þessi 50% eiga að leggjast ofaná. Í samningnum kemur fram að á næstu fimm árum skuldbindi Ríkisútvarpið sig til að verja meiri fjármunum til kaupa á innlendu dagskrárefni þannig að í lok samningstímans verði sú upphæð komin í 250 milljónir. Af hverju ekki 2,5 milljarða? Nú er að vísu hugtakið um peninga og fjárhæðir orðið svo hrottalega abstrakt eftir að Ísland varð aftur víkingaþjóð og hóf sína margumtöluðu útrás, að þegar ég heyri upphæðina 250 milljónir þá ímynda ég mér að svipað magn af klinki myndi hrynja á gólfið ef Björgúlfur hvolfdi úr buxnavösum sínum? En þetta er náttúrulega ósanngjarn og algerlega gagnslaus samanburður, en engu að síður þá svimar mig ekki við að heyra þessa tölu. En ég er þess fullviss að það þurfi einmitt svimandi upphæðir til að koma Sjónvarpinu á réttan kjöl. Og þessi sannfæring mín er ekki afsprengi græðgi eða vanþakklætis, því eins og heimurinn er að þróast þá er alveg ljóst að við verðum að berjast með kjafti og klóm fyrir menningu okkar og tungu. Við blöktum eins og kertalogi í ofsaroki og það verða allir að leggja fram lófa sína til að skýla þessari týru svo hún slokkni ekki. Þarna spilar Ríkisútvarpið stóra rullu og mín skoðun er sú að það eigi að leggja niður alla aðra starfsemi en þá að framleiða innlent dagskrárefni. Ríkissjónvarpið hefur í alltof langan tíma reynt af miklum vanefnum að þóknast öllum og þókast þar með engum. Landslag fjölmiðlunar hefur breyst gríðarlega á undanförnum áratugum, en í stað þess að endurskilgreina sig og marka sér sérstöðu, hefur Ríkissjónvarpið reynt að eltast við alla og dreift kröftum sínum alltof víða. Áðurfyrr var Sjónvarpið eina sjónvarpið og þurfti því að spanna allt sviðið, en í dag er staðan önnur. Ef þú hefur áhuga á íþróttum þá kaupir þú þér aðgang að íþróttarás. Ef þú kýst að horfa á Hollywood myndir þá kaupir þú þér aðgang að bíómyndarás… Fyrir mér þá þjónar Ríkisútvarpið bara einum tilgangi í dag og það er að vera fýsibelgur íslenskrar menningar. Að verja fjármunum og kröftum í annað eru ekki bara peningar út um gluggann, heldur líka vatn á myllu kölska.