Bandalag íslenskra listamanna sendi stjórnmálaflokkunum, sem bjóða fram á landsvísu í komandi kosningum til Alþingis, fjórar spurningar um málefni listamanna og skapandi atvinnugreina. Fimm flokkar hafa nú svarað spurningunum og fara bæði spurningarnar og svörin hér á eftir:
Hvaða sjónarmið hefur flokkurinn varðandi þá verkefnatengdu sjóði sem komið hefur verið á með fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar til þriggja ára? Þar er um að ræða stórefldan Kvikmyndasjóð, Hönnunarsjóð, Myndlistarsjóð og Útflutningssjóð íslenskrar tónlistar. Mun flokkurinn beita sér fyrir því að þessir sjóðir fái sess á fjárlögum til frambúðar?
Björt framtíð: Þingmaður Bjartrar framtíðar, Guðmundur Steingrímsson, hafði frumkvæði að þessu máli og greiddi því að sjálfsögðu atkvæði ásamt Róbert Marshall. Flokkurinn mun beita sér fyrir því að þessir sjóðir fái sess á fjárlögum til frambúðar.
Dögun: Dögun hefur ekki ályktað sérstaklega um sjóði tengda fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar en hefur lagst gegn fjármögnunarleiðum hennar, þ.e. arðgreiðslum bankanna og sölu ríkisins á eignarhlutum sínum í þeim. Dögun er hins vegar fylgjandi styrkjum til menningarstarfs almennt og í stefnu flokksins segir að styrkja eigi þá í sessi. Dögun telur hins vegar nauðsynlegt að tryggja fagmennsku og gegnsæi í allri úthlutun opinberra fjármuna
Framsóknarflokkurinn: Framsóknarflokkurinn hefur í gegnum árin lagt sérstaka áherslu á að standa við bakið á verkefnum sem styðja við þróun og útrás á íslenskri list og hönnun. Efla þarf Kvikmyndasjóð Íslands og kanna þarf með hvaða hætti hægt er að greiða enn frekar fyrir en nú er að erlendir kvikmyndaframleiðendur sjái sér hag í því að taka upp kvikmyndir sínar hérlendis. Sérstaklega þarf að horfa til kynninga á erlendri grundu og vitundarvakningar innanlands ásamt því að skoða það skattaumhverfi sem slíkum verkefnum fylgir.
Lýðræðisvaktin: Það er engin spurning að sóknarfærin eru mest í vitundariðnaðinum/listunum. Við eigum að stórefla framleiðslu á leiknu sjónvarps- og kvikmyndaefni. Myndlistin og tónlistin eiga sömuleiðis að eiga sess í fjárlögum, þar á að gjörbylta framlögum. Það á að koma á hvetjandi skattalögjöf fyrir þessar greinar – t.d. má sjá fyrir sér tímabundið afnám skatta á meðan viðkomandi listamaður/listamenn koma undir sig fótunum varðandi kynningar og vinnslu listafurða.
Píratar: Píratar beita sér fyrir fjölbreyttu atvinnulífi. Píratar eru jafnframt flokkur beins lýðræðis og teljum við að fjárlagagerð ætti að vera lýðræðislegt ferli þar sem flestir eiga að koma að borði svo að hagsmunum allra sé gætt. Eins og er hafa Píratar það ekki á stefnuskrá sinni að koma í veg fyrir að þessir sjóðir verði festir í sessi í fjárlögum.
Við teljum það eindregið vera samfélaginu til framdráttar að hið opinbera styðji við skapandi iðnað og hafa margir innan flokksins mikinn áhuga á þessum málaflokki, hafa t.d. kynnt sér skýrslu Dr. Margrétar Sigrúnar Sigurðardóttur, ‘Kortlagning á hagrænum áhrifum skapandi greina’, Skýrslu Iðnaðarráðuneytisins og hönnunarmiðstöð Íslands – ‘Rannsóknarvinna fyrir gerð hönnunarstefnu íslands’, Skýrslu mennta- og menningamálaráðuneytisins, ‘Skapandi greinar – sýn til framtíðar’ og Stefnumörkun Mennta og menningarmálaráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins, SÍK – Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Félag kvikmyndagerðarmanna (FK) og Samtök kvikmyndaleikstjóra (SKL). fyrir íslenska kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu árin 2012 og 2015.
Sérstakur málefnahópur innan framboðsins hefur verið stofnaður og mun hann beita sér fyrir eflingu á skapandi iðnaði, samhliða stuðningi hins opinbera við hann, þar á meðal við lítil og meðalstór fyrirtæki.
Regnboginn: Já Regnboginn munum beita sér fyrir því.
Samfylkingin: Samfylkingin styður heilshugar eflingu kvikmyndasjóðs sem og stofnun nýrra sjóða líkt og Hönnunarsjóð, Myndlistarsjóð og Útflutningssjóð íslenskrar tónlistar. Flokkurinn telur einnig að stofnun Sviðslistasjóðs með nýjum sviðslistalögum sé brýn. Samfylkingin stóð að fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar og sýndi í verki vilja sinn til að efla skapandi greinar og setja stuðning við þær í forgang. Samfylkingin vill jafnt meta í verki framlag skapandi greina til atvinnulífs og efnahagslegt gildi þeirra sem og hið listræna og sammenningarlega gildi sem listir, hönnun og aðrar skapandi greinar hafa fyrir samfélagið.
Samfylkingin telur að næsta skref sé að festa árangur greinanna í sessi með langtímaáætlun um eflingu verkefnasjóða, aðgengi skapandi greina að rannsókna- og þróunarfé og aðgengi sprotafyrirtækja í skapandi greinum að skattalegum hvatakerfum. Flokkurinn vill því ekki aðeins að tilgreindir sjóðir njóti til framtíðar stuðnings á fjárlögum heldur einnig að staða greinanna sé skoðuð heildrænt og þeim tryggð góð vaxtarskilyrði á öllum sviðum, frá hinni fyrstu listrænnu sköpun til þess að afurðir listræns hugvits séu settar á markað.
Einnig er brýnt að styrkja menntun í skapandi greinum en líkt og fram kemur í stefnu flokksins frá síðasta landsfundi vill flokkurinn auka framboð á framhaldsmenntun í listgreinum, efla menntun og endurmenntun listgreinakennara í listgreinum.
Sjálfstæðisflokkurinn: Í stefnu Sjálfstæðisflokksins er bent á mikilvægi þess að hlúa að lista- og menningarlífi þjóðarinnar og staðið sé vörð um menningarstofnanir, þar sem mikil þekking og reynsla býr. Með kynningu íslenskrar menningar má gefa jákvæða mynd af landi og þjóð og í henni geta falist fjölbreytileg verðmæti.
Mikilvægt er að þjóðin sé ávallt vel upplýst um sögu sína og menningararf.
Opinber stuðningur við lista- og menningarstarfsemi, eins og aðrar atvinnugreinar, skal ævinlega vera gegnsær og byggður á traustum, faglegum og fjárhagslegum forsendum.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð: Já flokkurinn mun beita sér fyrir því að þörfin fyrir þá sjóði sem hér eru nefndir verði viðurkennd á Alþingi. Á undanförnum mánuðum hefur starfsemi í kvikmyndaiðnaði aukist og nauðsynlegt er að halda kvikmyndasjóði öflugum eftir að það högg sem hann tók á sig í kjölfar efnahagshrunsins hefur verið leiðrétt. Myndlistarsjóður er einn hinna nýju sjóða sem á sér stoð í lögum og því verður fjármögnun hans sett í hefðbundinn farveg hvað fjárlagavinnu varðar. Hönnunarsjóður sem er að taka til starfa er hluti fjárfestingaráætlunar en íslensk hönnun verður sífellt meira áberandi svið í íslenskri menningu. Það svið er breitt en einnig þarf að gæta vel að aðkomu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis á því sviði, eins og á sviði íslenskrar tónlistar sem aukið hefur athygli á Ísland og íslenskri menningu víða um heim. Stuðningur við Útflutningssjóð íslenskrar tónlistar þarf einnig að skoðast í samhengi við mögulegar breytingar á Tónlistarsjóði.
Hvaða sjónarmið hefur flokkurinn varðandi launasjóði listamanna? Nú hefur þriggja ára áætlun um fjölgun mánaða runnið sitt skeið og listamenn hafa kallað eftir nýrri þriggja ára áætlun um áframhaldandi eflingu sjóðanna. Hver er afstaða flokksins til slíkra hugmynda?
Björt framtíð: Björt framtíð styður þriggja ára áætlun um áframhaldandi eflingu sjóðanna.
Dögun: Dögun telur launasjóð listamanna mikilvægan og beri að styrkja í sessi og telur auk þess mikilvægt að úthlutunarnefndir séu faglegar í störfum sínum og nefndarmenn sitji ekki of lengi og að jafnræði gildi á milli listgreina þegar kemur að úthlutunum. Dögun hefur ekki ályktað sérstaklega um fjölgun mánaða en vill almennt efla styrki til menningamála og listamanna sjálfra.
Framsóknarflokkurinn: Gera þarf listastarfsemi sjálfbæra þannig að iðkendur lista geti í auknum mæli haft framfæri sitt af slíkri starfsemi. Framsóknarflokkurinn lítur svo á að heiðurslaun listamanna séu ekki besta leiðin til að stuðla að grósku í íslensk listalífi. Framsóknarflokkurinn leggur til að heiðurslaun listamanna verði lögð niður í núverandi mynd og að það fjármagn sem til sparast verði notað í sérstök starfslaun fyrir unga listamenn.
Lýðræðisvaktin: Koma þarf lagi á launasjóði listamanna. Reiknuð starfslaun listamanna eru allt of lág – þá þarf að vera enn betra aðgengi og yfirlit yfir alla sjóði sem listamenn geta sótt í. Eins er nauðsynlegt að auka aðgengi og vinnslu gagna sem sýna fram á tillegg listanna til samfélagsins í krónum og eins í menningarlegu tilliti.
Píratar: Við vísum í svar okkar við spurningu nr 1.
Regnboginn: Regnboginn vill gera áframhaldandi áætlun en leggja meira í að styrkja unga listamenn.
Samfylkingin: Samfylkingin styður eflingu launasjóða listamanna. Flokkurinn telur hinsvegar að sífellt þurfi að endurmeta virkni kerfisins svo sem með tilliti til nýliðunar, fjölbreytni og skilvirkni. Launasjóðir listamanna er einn fyrsti hlekkurinn í virðiskeðju skapandi greina og er ástæða til að skoða frekar en gert hefur verið, tengsl þeirra við verkefnissjóði.
Sjálfstæðisflokkurinn: Sjálfstæðisflokkurinn mun beita sér fyrir að lög um listamannalaun verði endurskoðuð, m.a. með það að markmiði að taka upp verkefnatengda listsköpunarsjóði, sem starfa á samkeppnisgrunni.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð: Launasjóðir listamanna eru mikilvægir bæði í menningarlegu og atvinnuþróunarlegu tilliti. Mánaðarlaunum í sjóðunum hefur verið fjölgað á kjörtímabilinu, en upphæðir starfslauna og skipting milli einstakra sjóða í listgreinum þurfa alltaf að vera í endurskoðunum þegar ný stjórn launasjóðanna kemur að málum. Mikilvægast er að stefnumarkandi ákvarðanir í þessum málum séu öllum kunnar og um þær ríki sem breiðust sátt.
Hver er stefna flokksins í málefnum skapandi atvinnugreina? Styður flokkurinn í meginatriðum tillögurnar sem settar eru fram í skýrslunni Skapandi greinar – Sýn til framtíðar?
Björt framtíð: Já.
Dögun: Dögun telur alla listsköpun, sem og aðrar skapandi greinar, mikilvægan þátt atvinnulífsins og hafa auk þess gildi í sjálfu sér. Auk þess styðja þær við margar aðrar greinar, svo sem ferðaþjónustu og afþreyingariðnað. Hagræn áhrif menningarstarfs eru meiri en í flestum öðrum greinum og afleidd störf af ýmiskonar sköpun einnig umtalsverð. Flokkurinn styður í meginatriðum tillögur skýrslunnar.
Framsóknarflokkurinn: Í menntastefnu Framsóknar er lögð sérstök áhersla á að efla verk- og tæknimenntun, hönnunar- og listnám. Hér koma öll skólastig við sögu, allt frá leikskóla til háskóla. Framsóknarflokkurinn hefur lagt sig sérstaklega fram um að standa við bakið á og efla ýmis sprotaverkefni og nýsköpun.Framsóknarmenn vilja efla enn frekar nýsköpun í atvinnulífi t.d. í gegnum skattkerfið og veita rannsóknar- og þróunarstyrki. Veita skattaívilnanir vegna fjárfestinga einstaklinga í nýsköpunarfyrirtækjum. Við viljum einfalda regluverk um stofnun og rekstur atvinnufyrirtækja til þess að draga úr skriffinnsku og kostnaði. Til þess að þeir sem starfa innan hönnunar og lista geti blómstrað þarf að vera til staðar aðstoð, fjármagn og leiðsögn Framsóknarflokkurinn gleðst yfir áherslum á sköpun í námskrám leik- grunn- og framhaldsskólum. Þar sem sköpun á að vera samofið öllu starfi á þessum skólastigum. Framsóknarflokkurinn leggur mikla áherslu á að skólar fái nauðsynlega aðstoð og aðstöðu til að geta staðið við þessa áherslu. Einnig verða yfirvöld menntamála að sjá til þess að veita ráðgjöf og standa fyrir markvissu ytra eftirliti.
Lýðræðisvaktin: Telur að stórauka eigi vægi skapandi greina á fyrstu árum grunnskóla – skapandi hugsun, sem leiðir af sér skapandi fólk og þá greinar verður auður sem gefur mest af sér í framtíðinni.
Píratar: Við vísum í svar okkar við spurningu nr 1.
Regnboginn: Regnboginn vill fjölbreyttara atvinnulíf og skapandi greinar eru hluti þess. Við styðjum í meginatriðum þær tillögur sem settar eru fram í skýrslunni.
Samfylkingin: Samfylkingin stóð með samstarfsflokki sínum að skipan þess starfshóps sem vann skýrsluna Skapandi greinar – Sýn til framtíðar. Þegar skýrslan var kynnt 19. október sl. lýstu ráðherrar Samfylkingarinnar yfir stuðningi og ánægju með tillögur skýrslunnar og hafa með samstarfsráðherrum þegar hrint fyrstu tillögunni í framkvæmd og stofnað formlegan samstarfsvettvang um uppbyggingu skapandi greina. Flokkurinn styður tillögur skýrslunnar.
Stefna flokksins í skapandi greinum er fjölþætt og vísum við á menningarstefnu okkar hvað þær varðar (bls 6). Í inngangi að menningarstefnnu segir eftirfarandi og endurspeglar hann afstöðu flokksins til greinanna:
Samfylkingin vill stuðla að umgjörð fyrir kraftmikið menningarlíf, sem virkjar sköpunarkraft þjóðarinnar og styrkir sjálfsmynd hennar. Fjölskrúðugt menningarlíf er einn helsti styrkur íslensks samfélags og almenn þátttaka þjóðarinnar í menningarstarfi á vart sinn líka. Skapandi greinar eru burðargrein í íslensku atvinnulífi, samanber Kortlagningu á hagrænum áhrifum skapandi greina frá 2010 og ljóst að þær skapa ört vaxandi útflutningstekjur. Skapandi greinar snerta mörg svið samfélagsins og þarf að nálgast uppbyggingu þeirra með samvinnu, þvert á stjórnkerfi, ráðuneyti og atvinnulíf.”
Sjálfstæðisflokkurinn: Skapandi greinar eru ört vaxandi hluti atvinnulífsins. Hvatt er til samvinnu skapandi greina við aðrar atvinnugreinar einkum í ferðaþjónustu sem felur í sér mörg tækifæri.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur á herslu á að tryggja arðsemi þeirra fjármuna sem opinberir aðilar leggja fram til stuðnings í skapandi greinum. Allar opinberar aðgerðir sem farið er í til stuðnings einstökum atvinnugreinum skulu þannig ávallt hafa skýr og mælanleg markmið um árangur.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð: Skapandi þætti í atvinnulífinu má finna víða, en það svið sem oft gengur undir nafninu „skapandi greinar“ hefur mikið vægi þegar kemur að nýsköpun og atvinnuþróun í samfélaginu. Skýrslan sem hér er nefnd, kortlagning hagrænna áhrifa skapandi greina og fleira sem unnið hefur verið á núverandi kjörtímabili sýnir fram á þetta mikilvægi. Formlegur samstarfsvettvangur um þetta svið sem mælt er fyrir um í skýrslunni hefur tekið til starfa, efla þarf hagtölusöfnun á þessu sviði og kortleggja sviðið betur. Ríki og Reykjavíkurborg þurfa að huga að sameiginlegum hagsmunum og auka fagmennsku í úthlutunum í sjóðum. Fleiri góðar ábendingar er að finna í nefndri skýrslu.
Styður flokkurinn gildandi löggjöf um höfundarrétt nr. 73/1972 og opinberar reglur um höfundarrétt? Ef ekki hver er þá stefna flokksins í málum er varða höfundarrétt listamanna, þ.m.t. höfundarréttarvarið efni á netinu?
Björt framtíð: Já.
Dögun: Dögun hefur ekki ályktað sérstaklega um höfundarrétt að öðru leyti en því að flokkurinn vill auka aðgengi almennings að safnkosti opinberra safna með rafrænum hætti í samstarfi við höfundarétthafa. Dögun telur hins vegar að allir eigi að njóta sanngjarnra launa fyrir sína vinnu, listamenn sem aðrir.
Framsóknarflokkurinn: Engin ný lög eru komin fram varðandi höfundarétt og nú í menntastefnu Famsóknarflokksins leggjum við áherslu á að auka aðgengi, m.a. af námsefni á netinu og auðvitað þarf að tryggja höfundarrétt þó svo að þeir sem kynnt hafa sér stefnu um málið segi að æ erfiðara verði að ná utanum efnið á netinu.
Lýðræðisvaktin: Já, ennfremur vill Lýðræðisvaktin skattleggja höfundartekjur með öðrum hætti en gert er í dag – höfundatekjur á að skattleggja eins og leigutekjur.
Píratar: Píratar eru mjög fylgjandi höfundarrétti en við teljum að ómögulegt sé að framfylgja núverandi lögum án þess að vega að grundvallar mannréttindum, þ.m.t. friðhelgi einkalífsins, tjáningar- og upplýsingafrelsi. Flestar upplýsingar nútímans eru tiltækar á rafrænu formi, sumar þeirra eru jafnvel alfarið geymdar á rafrænu formi. Netsíur og önnur sambærileg ritskoðun myndi setja hömlur á upplýsingafrelsi almennings samhliða röskun á friðhelgi einkalífs hans, t.d. ef settar yrðu á forvirkar heimildir stjórnvalda til þess að fylgjast með netnotkun hvers og eins. Þetta umhverfi vilja Píratar laga með því sjónarmiði að gæta hagsmunum allra sem eiga í hlut. Píratar hafa nú ályktað um endurskoðun höfundarréttar, sjá nánar: https://x.piratar.is/polity/1/document/36/. Þarna er aðeins um ályktun að ræða og leitast skal eftir þverpólitískri samvinnu við alla hagsmunaaðila ef fara á út í lagabreytingar.
Regnboginn: Já við styðjum þessa löggjöf og viljum standa vörð um höfundarrétt.
Samfylkingin: Að sjálfsögðu styður flokkurinn gildandi lög, opinberar reglur um höfundarétt sem og alþjóðlegar samþykktir og sáttmála um höfundarétt sem Ísland á aðild að. Í löggjöf þarf á öllum tímum að taka mið af breyttri tækni, þörfum og landslagi en um leið brýnt að gætt sé þess að réttur og hagsmunir höfunda og eigenda hugverkaréttinda, sé ekki fyrir borð borinn. Ein leið, varðandi niðurhal af netinu, er að finna leið með nýrri lagasetningu, til að rétthafar fái greitt fyrir eintakagerð hugverka til einkanota. Samfylkingin hefur ekki tekið afstöðu til slíkrar nýrrar lagasetningar og telur að kosti og galla hennar þurfi að skoða vandlega. Mikilvægt er að auka vitund almennings um rétt höfunda, líkt og listafólk hefur gert sjálft með áhugaverðri auglýsingaherferð á síðustu mánuðum.
Sjálfstæðisflokkurinn: Sjálfstæðisflokkurinn telur nauðsynlegt að staðið sé vörð um eignaréttinn á öllum sviðum, þar með talinn höfundarrétt listamanna.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð: Eins og sést best á númeri laganna er kominn tími á að uppfæra margt í þeim, enda hafa breytingar verið hraðar á undanförnum árum. Á núverandi kjörtímabili hafa fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis unnið náið með hagsmunaaðilum á þessu svið á vettvangi Höfundarréttanefndar en nauðsynlegt er að sú vinna haldi áfram þar sem um flókið og mikilvægt svið er að ræða. Höfundarréttarmál þurfa að skoðast í alþjóðlegu samhengi, einkum vegna netsins. Tryggja þarf löglegar leiðir til dreifingar yfir netið þar sem listamenn fá hlutdeild fyrir vinnu sína. Hvað menningararfinn varðar, t.d. myndlist sem finna má í söfnum landsins, er mikilvægt að greitt verði fyrir betra aðgengi almennings að þessum arfi. Miðlunarmöguleikar netsins eru miklir og hagsmunir stjórnvalda og listamanna fara að miklum hluta til vel saman hvað þetta varðar.
BÍL ÞAKKAR ÞEIM FLOKKUM SEM SENDU SVÖR VIÐ SPURNINGUNUM.