Ágúst Guðmundsson:

 

Vorið 1928 voru samþykkt á alþingi lög um Menningarsjóð. Etv hefur þetta að einhverju leyti komið listamönnum af stað til að stofna með sér samtök, en reyndar er vitað um þreifingar þar að lútandi nokkrum árum fyrr.

Öllum ber saman um að helsti hvatamaður að stofnun Bandalagsins hafi verið Jón Leifs. Hann setti m.a. saman fyrsta uppkastið að lögum þess og hann gerði sér sérstaka ferð frá Þýskalandi til Norður Sjálands til að fá Gunnar Gunnarsson að taka að sér formannsembættið. Þessi fyrsta stjórn er reyndar svolítið einkennilega dreifð, ekki síst á þessum tímum: Gunnar, formaðurinn, bjó í Danmörku, Jón Leifs, ritarinn, bjó í Þýskalandi – sá eini sem var á Íslandi var gjaldkerinn, Guðmundur Einarsson frá Miðdal, sem mátti þola athugasemdir og umvandanir hinna, ekki síst Jóns, fyrir framtaksleysi fyrstu árin. Einu svarbréfi Guðmundar til Jóns lýkur svo: “ Þið megið ekki taka til þess þótt ég sé ekki alltaf til staðar að svara bréfum og vinna fyrir bandalagið því ég met skíðarferðir um fjöllin meir en okkar áhugalausu collega.” Þetta var eftir framhaldsaðalfund, þar sem einungis 4 mættu og var ólöglegur fyrir vikið.

Jón Leifs vildi takmarka inngöngu í Bandalagið mjög verulega. Hann sagði: “Ég álít að við getum ekki aukið álit bandalagsins með því að kjósa hvern þann sem getur ort góð kvæði eða hefur góða söngrödd, strax sem aðalfélaga bandalagsins. Slík kosning er að mínum dómi merkilegri viðurkenning en svo…”

Stofnfélagar voru þó 48, og voru þar í hópi svo til allir þeir sem vetlingi gátu valdið í íslenskum listheimi.

Af hverju skyldi Jón hafa lagt á það svo ríka áherslu að fá Gunnar Gunnarsson sem formann? Þar kemur tvennt til. Bæði var að þeir höfðu skipst á skoðunum um málið og unnið saman að undirbúningi þess. Hin ástæðan, sem væntanlega hefur ekki skipt minna máli, var frægð og vinsældir Gunnars. Hann var Björk og Ólafur Elíasson síns tíma. Upphefðin kom að utan, þá ekki síður en nú.

Baráttumálin voru ekki ósvipuð og þau hafa verið alla tíð síðan. Barátta fyrir réttindum höfunda fór strax af stað, einkum í því að fá íslensk stjórnvöld til að undirrita Bernarsáttmálann um höfundarrétt, en það reyndist ekki beinlínis auðsótt. Það tók nokkur ár að fá valdhafana til að viðurkenna Bandalagið sem málsvara listamanna, en virðist þó vera komið á um miðjan fjórða áratuginn, enda eru þá hafin nokkuð regluleg samskipti á milli þessara aðila.

Páll Ísólfsson tók við af Gunnari sem formaður, en með honum í stjórn voru Halldór Laxness ritari og Guðmundur frá Miðdal, gjaldkeri. Áhersla var greinilega lögð á að fá fulltrúa helstu höfuðgreinanna í stjórn. Á aðalfundi 1932 var stofnað til þriggja deilda innan Bandalagsins, fyrir rithöfunda, myndlistarmenn og tónlistarfólk. Einn úr hverri deild skyldi vera í aðalstjórninni, en hafa með sér tvo í deildinni.

Þessi skipting í deildir þróaðist áfram, þegar fram liðu stundir, eftir þörfum hverrar starfsstéttar fyrir sig, þannig að nú er Bandalagið regnhlífarsamtök fyrir 14 fagfélög listamanna.

Í kreppunni harðnaði á dalnum hjá listamönnum, ekki síður en öðrum. Bandalagið hafði þungar áhyggjur af minnkandi tekjum Menningarsjóðs, og ekki að ástæðulausu, þær fóru úr tæpum 72 þúsundum árið 1928 niður í tæp 23 þúsund árið 1934. Tekjurnar fyrstu árin voru svokallaðar brennivínssektir, hugmynd Jónasar frá Hriflu var að ómenning skyldi greiða fyrir menningu, en ómenningin lendir líka í kreppu eins og annað og brennivínssektirnar gáfu ekki eins mikið af sér og vonir stóðu til.

Bandalaginu tókst vel upp við erlend samskipti, varð snemma aðili að alþjóðlegu samstarfi rithöfunda í pen-klúbbnum, í norræna rithöfundaráðinu, sem Gunnar Gunnarsson sat marga fundi hjá, og hjá öðrum norrænum listrænum samtökum. Hugmyndin um íslenskt listráð kom snemma, virðist fyrst orðuð af Jóni Leifs, sem varð þriðji formaður BÍL árið 1936. Það hefur enn ekki orðið að veruleika, en stjórn Bandalagsins er það sem kemst næst því nú að vera listráð Íslands, enda hefur hún skyldum að gegna bæði gagnvart ríki og borg, en náttúrulega fyrst og síðast gagnvart listamönnunum sjálfum.

Fyrstu árin voru margar tilraunir gerðar við að koma saman myndlistarsýningu með völdum verkum félagsmanna, en aldrei varð samstaða um stefnuna. Til dæmis sagði Jóhann Briem tvisvar af sér embætti sýningarstjóra, og ekki tókst mönnum að koma sér saman um hvað skyldi sýna fyrr en árið 1936, þá var sýning í Miðbæjarskólanum. Það var reyndar sýning sem hafði verið í Noregi og hlotið góða dóma þar. Myndlistarsýning á vegum Bandalagsins var aftur haldin næstu árin við töluverðar vinsældir. Í höfuðborginni var enginn sýningarsalur, svo að notast varð við Miðbæjarskólann – og þá njóta lags í júlí-mánuði, en það var eini tíminn sem húsið var laust.

Mikið var deilt um styrki til listamanna, þá sem nú. Pólitíkin blandaðist oft inn í þær deilur, enda sáu stjórnmálamenn um að útdeila styrkjunum. Einna hatrammastar urðu deilurnar árin 1940 og 1941. Þá vildi Jónas frá Hriflu að Menntamálaráð sæi eitt um að veita styrkjum til listamanna, en að “taka af þinginu þann ruslakistubrag þegar menn óðu hingað inn eins og þeim gott þótti og fylltu deildirnar til skiptis og settu þannig blæ á þingið að það líktist helst sjóbúð”. Bandalaginu leist ekki vel á þessa tilhögun, treysti ekki Menntamálaráði til að halda utan um þetta og taldi betra að “valdið til fjárveitinga til einstakra listamanna yrði áfram í höndum alþingis.

Menntamálaráð hafði betur og hóf nú að hagræða styrkjum til listamanna eftir sínum smekk. Vinstri sinnaðir rithöfundar fóru fremur illa út úr því. Má þar t.d. nefna að Halldór Laxness var settur í annan flokk höfunda, með þeim afleiðingum að hann stofnaði “sjóð til styrktar andlegu frelsi rithöfunda og lagði fram styrk sinn sem stofnfé”. Við næstu styrkveitingu hafði hann annan hátt á mótmælum sínum. Þann 7. janúar 1941 birtist í Morgunblaðinu: Yfirlýsing frá Halldóri Kiljan Laxness:

“Af gefnu tilefni lýsi jeg yfir því, að jeg undirritaður hvorki á nje vil eiga nein fjárhagsleg samskifti eða önnur við svokallað Mentamálaráð, og leyfi mjer því að biðjast mjög eindregið undan öllum afskiftum þessarar stofnunar, þar á meðal auglýsingum um óumbeðnar og fyrirfram afþakkaðar peninga-“úthlutanir” hennar mjer til handa.”

Á þessum tíma var Halldór nýbúinn með Sjálfstætt fólk og var að vinna að Íslandsklukkunni. Svona eftir á að hyggja er þetta dálítið undarlegur tími til að lækka skáldastyrkinn til hans. Aðrir sem lentu í niðurskurðinum voru m.a. Þórbergur Þórðarson og Jóhannes úr Kötlum.

Ekki er síður þekkt andóf Jónasar frá Hriflu við klessumálurunum svokölluðu, en Menntamálaráð efndi til málverkasýningar sem ætluð var viðkomandi listamönnum til háðungar – í glugga Gefjunar við Aðalstræti. Þar gat að líta verk eftir Gunnlaug Scheving, Jóhann Briem, Jón Engilberts og Þorvald Skúlason, en alverst þótti svo mynd Jóns Stefánssonar, Ungmeyjan og Þorgeirsboli.

Þessi framkvæmd Menntamálaráðs snerist reyndar mjög í höndunum á ráðinu. Hitler hafði leikið svipaðan leik nokkrum árum áður, að halda háðssýningu á nútímalist, og var til þess vísað, auk þess sem skrif í blöðum bentu flest til þess að fólk kynni almennt vel að meta viðkomandi verk, að minnsta kosti betur en Jónas frá Hriflu.

Og þó að deilan við Menntamálaráð hefði á sér pólitískan blæ varð hún þó til að þjappa listamönnum saman, a.m.k. um stundarsakir hvar í flokki sem þeir voru. Listamenn sem ekki voru þekktir fyrir vinstrimennsku skrifuðu gegn pólitísku mati á félögum sínum. Í Helgafelli, sem ritstýrt var af Tómasi Guðmundssyni og Magnúsi Ásgeirssyni, stendur: “… það er löngu komið fram, að þykist formaðurinn þurfa að ná sér niðri á einhverjum óþjálum einstaklingi, innan listamannastéttar eða utan, gerir hann sér hægt um vik, í samræmi við reglu Hitlers: “Wer Jude ist, bestimme ich” – “Það er ég sem ákveð hverjir eru Gyðingar”, og skrásetur hann sem kommúnista – “til hægðarauka”, að því er blað hans segir. Með þessum íslensku Gyðingaofsóknum er því stefnt að fullu öryggisleysi allra listamanna og jafnframt þeim tilgangi að sveigja þá til undirgefni við lífsskoðun formannsins og þær listskoðanir hans er áður hafa verið ættfærðar hér í tímaritinu.”

Nú á dögum tölum við um armslengdarreglu og jafningjamat. Listamaðurinn á rétt á því að verk hans séu metin af fagmennsku á opinberum vetvangi og án beinna pólitískra afskipta. Þessi krafa var rétt að komast upp á borðið á þessum árum og þótti djörf. Hún er enn ekki alveg meðtekin á Íslandi. Til dæmis er alþingi enn að úthluta beint heiðurslaunum sínum til listamanna.

Besta dæmið um samstillingu listamanna árið 1942 var Listamannaþingið sem haldið var í nóvember. Þá var Jóhann Briem formaður, Tómas Guðmundsson var ritari, og Árni Kristjánsson, píanóleikari, var gjaldkeri. Þetta var í rauninni fyrsta listahátíðin í Reykjavík, formaður framkvæmdanefndarinnar, Páll Ísólfsson, lagði meira að segja til að framvegis yrði slík hátíð haldin annað hvert ár.

Dagskráin var glæsileg – og algjörlega íslensk. Myndlistarsýning var í Oddfellow-húsinu, þættir úr íslenskum leikritum voru í Iðnó, en síðan voru tónleikar í Gamla bíói og rithöfundakvöld og tónleikar í hátíðarsal Háskólans, auk þess sem sérstakri dagskrá var útvarpað hvert kvöld frá þinginu. Veislan stóð í viku og þótti takast með eindæmum vel.

Í þessari lauslegu samantekt á fyrstu árum Bandalags íslenskra listamanna hef ég einkum stuðst við ritgerð Ingunnar Þóru Magnúsdóttur sagnfræðings um efnið, en hún hefur skráð sögu Bandalagsins og er sú saga einstaklega skemmtileg aflestrar. Vonir standa til að smiðshöggið verði rekið á verkið áður en langt um líður svo að afraksturinn komi fyrir sjónir almennings.

Við upphaf Listamannaþings árið 1942 var flutt lag Emils Thoroddsen við kvæði Jóhannesar úr Kötlum, Söngur listamanna. Ég lýk máli mínu á þessu ágæta ljóði, sem enn á erindi til okkar.

 

 

Kom, listagyðja, í ljóma og tign

og leið oss um hið dimma svið.

Og gef oss fegurð, gef oss ljós

og gef oss frið –

gef friðinn til að færa þér

þá fórn sem dýrsta eigum vér

og þolir blóð og bið.

 

Og helga ljóð vort, sögu og söng

með sigurvon hins þjáða manns,

og lát oss skynja tregans tón

í tári hans.

Og lát oss mála og meitla í stein

þá mynd er speglast björt og hrein

í gleði lýðs og lands.

 

Og lát oss standa, sterka í þraut,

á stoltum verði ár og síð.

Og gef oss hugsjón, gef oss eld

og gef oss stríð

– gef stríð vors anda: uppreisn hans

gegn yfirtroðslum kúgarans

og vopnavaldsins lýð.

 

Og lát vort hjarta loga um nótt

hjá lífi því er draumnum ann

um nýjan himin, nýja jörð

og nýjan mann.

Lát rísa yfir rauðan val

það ríki vort, sem koma skal,

og hyllir þig og hann.