Pétur Gunnarsson:
Það er gaman að vera listamaður á góðum degi, að ekki sé talað um á hátíðisdegi eins og þessum þegar við fögnum áttræðisafmæli BÍL. Því það er viss passi þegar litið er til baka þá blasa listirnar við í öllu sínu veldi, heilu tímabilin virðast borin uppi af listamönnum og listaverkum, dægurþras og rígur hafa vikið fyrir þeirri vissu að þegar tíminn er liðinn standa listirnar eftir sem vitnisburður um það hver við vorum.
Og þótt það sé vissulega heiður að vera meðlimur í Bandalagi íslenskra listamanna, BÍL, þá er það ekkert á móts við komandi aðild að Bandalagi íslenskra látinna listamanna, skammstafað BÍLL, – þótt inntökuskilyrðin séu kannski full strembin.
En við skulum líka minnast þess að á meðan þessir látnu félagar okkar voru á dögum var líf þeirra ekki alltaf dans á rósum (hefur annars nokkur nokkurntímann dansað á rósum?) og til marks um það má hafa litla sögu sem skáldið Steinn Steinarr sagði frá því í byrjun fimmta áratugarins – en í næsta mánuði fögnum við einmitt aldarminningu hans.
Einhverju sinni var hann á gangi niður í bæ og mætti þá heimssöngvaranum Eggerti Stefánssyni. Söngvaranum var mikið niðrifyrir, nýbúinn að missa húsnæðið og sagðist ætla að láta taka af sér mynd úti á götu með öllum sínum mubblum – íslenskum stjórnvöldum til háðungar.
Já, sagði Steinn, og ég skal vera með þér á myndinni.
Nei, þú ert ekki mubbla, svaraði söngvarinn þá.
Og það má vissulega til sanns vegar færa, listamenn eru ekki mubblur og um Stein væri nær að hafa orðin sem sögð voru um annan mann, mannssoninn nánar tiltekið: “Steinninn sem smiðirnir höfnuðu er orðinn að hyrningarsteini”. Eða eins og hann komst sjálfur að orði í ljóði: “Og samt er mitt líf aðeins táknmynd af þessari þjóð/ og þjóðin sem heild er tengd við mitt ókunna ljóð.”
Það er sígilt baráttumál listamanna að vekja samtíð sína til vitundar um að listir eru ekki bara til í baksýnisspeglinum, þvert á móti eru þær leiðsögn um veginn fram undan. Stutt er síðan heimsmyndin var vissa, í dag er hún leit, það er segja sköpun. Stutt er síðan líf fólks var í svo föstum skorðum að það var hægt að segja fyrir um með talsverðri vissu hver yrðu viðfangsefni uppvaxandi kynslóða: bóndi, sjómaður, skrifstofumaður, húsmóðir… Í dag er framtíð mannanna barna opin spurning, enginn getur sagt fyrir um hvers konar viðfangsefni bíða hins nýfædda, þau störf sem tíðkast í dag verða vísast gjörbreytt og jafnvel horfin þegar börnin sem fæðast í morgun mæta til leiks.
Allt er deigla. Og í deiglu er sköpunin eðlilegasta viðbragðið. Listir drýgsta veganestið. “Tíminn er eins og vatnið” orti Steinn og nú er því spáð að vatnið verði mesta auðlind nýbyrjaðrar aldar. Sama gildir um tímann, hann er meira að segja það eina sem við eigum, þegar að er gáð. Og það er hlutverk listarinnar, nú sem aldrei fyrr, að breyta honum í merkingu.