Í dag eru síðustu forvöð á skrá sig á spennandi fund, sem gæti haft áhrif á framtíð hinna skapandi greina, listamenn og höfunda hugverka.

 

GETUR ÞÍN SKÖPUN SKIPT SKÖPUM ?

Þér er boðið í ÞANKATANK um framtíð hinna skapandi greina á Íslandi

laugardaginn 24. apríl n.k. kl. 10:00 – 15:00

Við kryfjum til mergjar spurningar á borð við :

Skipta listir og menning máli við endurreisn og nýsköpun í íslensku samfélagi?

Af hverju velur listamaðurinn að starfa innan listanna?

Hvert er hlutverk listamanna gagnvart meðborgurum sínum?

Hvert er hlutverk listanna í samfélaginu?

Er umhverfi hinna skapandi greina ásættanlegt?

 

Kæri viðtakandi,

 

Laugardaginn 24. apríl n.k. mun BÍL, Bandalag íslenskra listamanna, efna til fundar þar sem rætt verður um eðli og tilgang lista á skemmtilegan og skapandi hátt. Fundurinn er ætlaður listafólki úr öllum listgreinum, höfundum hugverka ásamt fræðimönnum og öðrum þeim sem starfa innan hinna skapandi greina.

Fundarformið verður áþekkt Þjóðfundinum, sem haldinn var í Laugardalshöll í nóvember sl. Þátttakendum verður skipt niður á borð með ca. 9 fundarmönnum og einum borðstjóra, sem tryggir virkni allra í hópnum.

Fundurinn verður vonandi einskonar sjálfsskoðun, þar sem þátttakendur ræða við kollega úr ýmsum áttum um tilgang lista, hvert hlutverk listamanna sé og hvort listir og menning skipti máli við endurreisn íslensks samfélags. Fundinum er ætlað að efna til samræðu um listir milli listafólks, tengja saman sjónarmið og innsæi úr ólíkum áttum og skapa með því jarðveg fyrir nýjar hugmyndir og möguleika. Þar að auki er líklegt að hugmyndirnar sem fæðast og verða ræddar á fundinum skili sér inn í umræður um listir á ýmsum vettvangi, meðal annars á fyrirhugaðri ráðstefnu mennta- og menningarmálaráðuneytisins Menningarlandið 2010, mótun menningarstefnu, sem haldin verður viku síðar eða 30. apríl. Þannig geta listamenn lagt sitt af mörkum, sem hlýtur að teljast afar brýnt, við mótun þeirrar menningarstefnu sem við teljum æskilega á Íslandi.

Fundurinn verður haldinn í sal FÍH við Rauðagerði 27, Reykjavík, kl. 10:00 – 15:00

– húsið opnar kl. 9:30 – og er þátttakendum að kostnaðarlausu. Boðið verður upp á hádegishressingu. Væntanlegir þátttakendur eru beðnir að senda póst á netfangið bil@bil.is með upplýsingum um nafn, netfang , síma og listgreinina sem þeir starfa við. Staðfesting óskast fyrir dagslok mánudaginn 19.apríl.

 

Með góðri kveðju,

f.h. undirbúningshóps og stjórnar Bandalags íslenskra listamanna

 

Kolbrún Halldórsdóttir, forseti BÍL