Dóri DNA skrifar eftirfarandi pistil í vefritið Kjarnann í dag:
Á einhverjum tímapunkti hefði ég talið að söngvarinn Bono væri einn frægasti og dáðasti maður í heimi. Hann eyddi áramótunum í Reykjavík. Út úr því komu nokkrar sjálfsmyndir sem voru teknar niðri í bæ. Svona álíka margar og Steindi Jr. þarf að taka með fólki þegar hann fer út í Sorpu. Hins vegar voru hér tveir hæfileikagrannir lúðar í Smáralind á sunnudaginn og ungt fólk hélt að selfie–dómsdagurinn væri runninn upp.
Þetta er tíðarandinn að öskra til okkar að nú séu tímarnir breyttir. Geggjuð byrjun á árinu. Auðvitað er tíðarandinn að breytast. Það breyttist ógurlega margt árið 2013. Öllum er drullusama um sjávarútveginn og Decode og álver og sæstreng til Bretlands. Nú snýst þetta um Plain Vanilla. Gæja í nettum jakkafötum að gera tölvuspil fyrir snjallsíma og hanga í San Francisco.
Alþjóðlegu við
Við erum orðin svo alþjóðleg. Hér er allt troðfullt af útlenskum ferðamönnum og öllum er alveg sama. Opna ekki einu sinni matvöruverslun yfir hátíðirnar eða skafa stéttina á Gullfoss og Geysi. Kannski tengist það staðreyndinni að utanríkisráðherra kann hvorki að bera fram Kasakstan, né benda á það á landakorti. Á meðan Össur og Jón Baldvin skrifuðu færsluna um Kasakstan á Wikipediu. Ég vona svo innilega að við tökum upp gjaldtöku á ferðamannastöðum sem fyrst, bara svo hægt sé að bjóða ferðamönnum viðeigandi aðbúnað og þjónustu.
Sakleysið er hægt og bítandi að hverfa. Allar sjoppur á höfuðborgarsvæðinu selja nú kannabistengdan varning og vatnslón í hauskúpuformi eru til sölu við útganginn á Hagkaupum bæði í Smáralind og á Eiðistorgi. Börn og unglingar stela öllu afþreyingarefni sem þau hafa áhuga á og lögreglan skaut mann til bana í fyrsta skipti á árinu. Samfélaginu virtist nákvæmlega sama hvort það hafi verið nauðsynlegt eða ekki. En hins vegar vildu allir vita; með hvers konar byssu banaði lögreglan manninum, gæti verið að þetta séu eins byssur og hægt er að velja í Call of Duty?
Sjálfsmyndir sjálfhverfra
Sjálfhverfa kynslóðin tók svo ógeðslega mikið af sjálfsmyndum á árinu og hélt meira að segja úti eigin hraðfréttatíma í Ríkissjónvarpinu, þar sem gamli góði eineltishúmorinn úr Verslunarskólanum hlaut loks ríkisvottun. Hvað get ég sagt? Ég er bara lítill og nettur og fíla Gísla Rúnar og Eddu Björgvins og mögulega vandaðan fréttaflutning af erlendum fréttum og ætti því bara að þegja.
Áramótaskaupið hefur glatað öllum tengslum við sína karnivalísku fyrirmynd. Við erum hætt að nota þessar mínútur til að gera grín að valdhöfum í samfélaginu. Og viljum heldur hafa bara einn góðan grínþátt, eins og alla hina daga ársins, og gerum grín að fólkinu í landinu í staðinn. Með lágmarkskvenkvóta – auðvitað, eins og allt, alltaf, alls staðar.
Gillzenegger sneri aftur úr útlegð sinni á árinu við dynjandi lófatak. Sjónvarpsþættir hans um lífsleikni verða svo sýndir í kvikmyndahúsum á fyrsta ársfjórðungi. Loksins, loksins, segi ég. Enda eru allir búnir að gleyma því hvernig á að tala við blökkumann, koma fram við prinsessu eða stinga upp í femínista.
Á árinu dóu hugsjónir
Flugvöllurinn er á förum, hvernig sem horft er á dæmið, og Jón Gnarr líka. Eftir stendur fólk með sömu hugsjón undir nýju nafni. Stjórnmálaskýrendur kalla lista þess veikan. Líklegast af því að hann inniheldur ekki neinn pólitískan þungavigtarmann sem er lunkinn við að þrífa blóð af höndum sínum. En ég hvet fólk til að skoða listann. Þarna er skynugt og klárt fólk sem á það sameiginlegt að elska Reykjavík. Þar á meðal er konan mín og hún er algjört æði.
Á árinu dóu hugsjónir. Næstum allar. Við erum hætt að fara á íslenskar myndir í bíó. Leggjum Þjóðleikhúsið að jöfnu við fæðingardeild í Vestmannaeyjum. Grátum aura og krónur sem ganga til myndlistarmanna og rithöfunda, skerum undan Kvikmyndasjóði. Afhöfðum Ríkisútvarpið, klippum á þróunaraðstoð. En á sama tíma dælum við peningum í iðnað sem við vitum að er illa rekinn, höldum leyndófundi með útgerðinni og görgum á umhverfissinna að náttúruvernd sé allt of dýrt apparat. Hvað var þetta aftur kallað um árið, fépynd eða blackmail?
Við erum heldur ekki hætt að hugsa um hrunið. Erum eiginlega bara rétt að byrja á því núna.
Svo rekur landið alltaf fjær Evrópu. En við erum ekki að reka til helvítis, þvert á móti. Við erum á leiðinni til Bandaríkjanna og þaðan til Kína og Rússlands. Svo hugsanlega, ef það verður eitthvað bensín eftir, förum við til andskotans