Þorvaldur Davíð Kristjánsson leikari skrifar grein í Fréttablaðið í dag:
Margir hafa áhyggjur af ástandi menntunarmála. Lesskilningur, stærðfræðilæsi og náttúrulæsi íslenskra skólabarna fer versnandi líkt og PISA könnun hefur gefið til kynna síðustu ár. Sé horft til allra PISA mælinga frá upphafi þá hefur nemendum hrakað sem nemur um hálfu skólaári á síðasta áratug. Í samfélaginu er talað um mikilvægi þess að standa vörð um skóla- og vísindastarf. Ég er sammála því. Kennslustofnanir og menntamálayfirvöld þurfa að leita svara við því hvað er að og finna leiðir til þess að snúa þessari þróun við.

Hins vegar þarf að passa sig á því að hugsa ekki bara um menntun í samhengi prófgráða, rannsóknastiga og annarra titla. Menntun er dýpra hugtak en svo. Einn einstaklingur getur verið menntaðri en annar í einhverjum mikilvægum skilningi þótt hann hafi styttri skólagöngu að baki eða aflað sér færri rannsóknastiga í háskóla. Íslendingur sem er með doktorsgráðu í verkfræði en hefur aldrei farið á tónleika eða í leikhús, horft á kvikmyndir eða rýnt í samfélagið okkar í gegnum spegla listamanna eða annarra upplýsenda, er í einhverjum skilningi ómenntaður, skilur ekki samfélag sitt.

Samfélagsleg umræða
Menntun snýst ekki síst um að vera læs á sjálfan sig, umhverfi sitt og annað fólk. Að vera ekki mataður heldur kynna sér málin sjálfur og þroska ímyndunaraflið. Leita að svörum við spurningum lífsins, þótt þær komi e.t.v. aldrei á prófi í skólanum.

Umfangsmikil skerðing á starfsemi menningarstofnana hefur ekki bara slæm áhrif á menningarlífið heldur líka menntastigið. Það er nefnilega einmitt í slíkum stofnunum þar sem fram fer samfélagsleg umræða, tekist er á við áleitnar spurningar um lífið og tilveruna. Gagnrýnin umræða um samfélagsmál og tjáning og túlkun okkar í gegnum listköpun er bæði flutt og varðveitt. Og er því bæði fræðandi fyrir okkur í dag sem og komandi kynslóðir. Allt stuðlar þetta að ígrundaðri og upplýstari einstaklingum. Menntaðra samfélagi.

Við eigum að standa vörð um menningarstofnanir okkar. Hér hrundi fjármálakerfið og vissulega þarf að bregðast við því, sýna ráðdeild og byggja upp skilvirkara kerfi. En viðbrögð okkar við fjármálahruni mega ekki leiða til mennta- og menningarlegs hruns.