Aðalfundur BÍL – Bandalags íslenskra listamanna 2014 verður haldinn laugardaginn 8. febrúar í Iðnó við Tjörnina og hefst hann kl. 11:00. Í framhaldinu verður haldið málþing um málefni sem eru ofarlega á baugi í samfélagi listamanna um þessar mundir, frekari útlistun á efni þess og fyrirlesurum verður kynnt á næstunni.
Um aðalfund BÍL fer skv. lögum BÍL, sem eru aðgengileg á heimasíðu Bandalagsins.
Dagskrá fundarins ásamt tillögu stjórnar að starfsáætlun 2014 verður send út a.m.k. tveimur vikum fyrir fundinn. Ein lagabreytingartillaga liggur fyrir fundinum, sem varðar 8. grein laganna, þar sem lögð er til hækkun á árstillagi því sem aðildarfélög innheimta hjá félagsmönnum sínum til að standa straum af sameiginlegum kostnaði við starfsemi Bandalagsins.
Í beinu framhaldi af aðalfundinum verður efnt til opins fundar/málþings, sem undirbúið er af teymi skipuðu af stjórn BÍL og verður efni málþingsins endanlega ákveðið á stjórnarfundi BÍL 13. janúar nk. Málþingið verður öllum opið og verður sérstök tilkynning send formönnum aðildarfélaganna til dreifingar á félagsmenn á næstunni.
Minnt er á að auk stjórnarmanns getur hvert aðildarfélag tilnefnt fjóra fulltrúa til setu á aðalfundinum með atkvæðisrétt, þannig að hvert aðildarfélag hefur fimm atkvæði á fundinum. Sambandsfélag getur að auki tilnefnt einn fulltrúa fyrir hvert sjálfstætt starfandi félag innan sambandsins. Samkvæmt lögum BÍL ber félögum að senda inn greinargerð um störf aðildarfélaganna og tilkynna um aðalfundarfulltrúa a.m.k. tveimur vikum fyrir boðaðan aðalfund. Þá er minnt á að allir félagsmenn aðildarfélaganna eiga rétt til setu á fundinum með málfrelsi og tillögurétt, því er hvatt til þess að félögum sé kynnt dagsetning fundarins með góðum fyrirvara.