Í tengslum við aðalfund sinn býður BÍL – Bandalag íslenskra listamanna til málþings í Þjóðleikhúskjallaranum laugardaginn 7. febrúar kl. 14:00 undir yfirskriftinni

Sjálfstæðisbarátta 21. aldarinnar – Þurfum við sérstakt menningarmálaráðuneyti?

Málþingið tekur til umfjöllunar stöðu lista og menningar í stjórnkerfinu, skoðar aðgengi atvinnufólks í listum og hönnun að aðstöðu og opinberum fjármunum, auk þess að hugleiða afstöðu stjórnvalda til atvinnustarfsemi sem byggir á framlagi listafólks og hönnuða. Markmið umræðunnar er að leita leiða til að listirnar geti sinnt því hlutverki sínu að framleiða menningararf framtíðarinnar og halda lífi í tungumálinu, íslenskunni.

Stjórnvöld hafa lengi haft uppi áform um að efla skapandi greinar, auka hlut þeirra í atvinnulífinu og fjölga atvinnutækifærum í greinunum um land allt. Erfitt hefur reynst að hrinda þeim áformum í framkvæmd og mikið skortir á að listir og menning hafi endurheimt þann styrk sem var til staðar í umhverfi þeirra fyrir hrun. Þar kemur margt til, bæði viðkvæmur fjárhagsgrunnur menningarstofnana en ekki síður afkoma ýmissa sjóða sem gegna hlutverki við list- og menningartengd verkefni og uppbyggingu skapandi greina. Síðast en ekki síst hefur atvinnulífið dregið úr stuðningi sínum sem hafði aukist verulega á árunum 2000 – 2008.

Fjórar framsögur verða fluttar af listamönnum, eldhugum og sérfræðingum, sem öll hafa reynslu af því að takast á við fjölbreytt verkefni á vettvangi skapandi atvinnugreina. Sérstakur gestur málþingsins verður mennta- og menningarmálaráðherra, Illugi Gunnarsson, sem ávarpar þingið og tekur þátt í umræðum.

Innleggin flytja:
Charlotte Bøving leikari og leikstjóri,
Daði Einarsson listrænn stjórnandi,
Hulda Proppé sérfræðingur á rannsóknar- og nýsköpunarsviði Rannís og
Þorleifur Arnarson leikstjóri.

Málþingsstjóri verður Magnús Ragnarsson leikari og framkvæmdastjóri.

Fyrirkomulag málþingsins verður þannig að innleggin verða kvikmynduð og sett á vefinn að málþinginu loknu, með það að markmiði að umræðan geti haldið áfram á vefmiðlum og samskiptasíðum.

Málþingið hefst kl. 14:00 og stendur til kl. 16:00. Því lýkur með léttum veitingum og óformlegu spjalli um efni málþingsins. Málþingið er öllum opið.