19. janúar 2015 hélt menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkur sérstakan fund til að kynna menningarstefnu Reykjavíkur 2014 – 2020. Forseti BÍL, Kolbrún Halldórsdóttir, hélt stutt erindi á fundinum og gerði að umræðuefni frumkvæði borgaryfirvalda í aðferðafræði við að móta menningarstefnu, fylgja henni eftir og viðhafa fagleg vinnubrögð við úthlutun fjármuna til list- og menningartengdra verkefna:

– Menningarstefna Reykjavíkur er þróunarverkefni. Segja má að upphafið megi rekja til ársins 2000 þegar undirbúningur að fyrstu menningarstefnu Reykjavíkur hófst, en sú stefna var samþykkt í borgarráði í desember 2001.

– Þar með tóku borgaryfirvöld ákveðna forystu hvað varðar stefnumótun í menningarmálum, sem oft og lengi hafði verið kallað eftir, en slíku ákalli hafði þó aðallega verið beint að landsstjórninni, sem lét undir höfuð leggjast að bregðast við því. En þá voru það boraryfirvöld sem tóku kyndilinn og hófu hann á loft.

– Það var svo ekki fyrr en haustið 2012, sem ríkisstjórnin lagði fram tillögu til þingsályktunar um menningarstefnu, sem samþykkt var sem ályktun Alþingis fyrir tæpum tveimur árum, eða 6. mars 2013.

– Þegar 4. útgáfa menningarstefnu borgarinnar (2009 – 2012) var í vinnslu, lagði Bandalag íslenskra listamanna það m.a. til mála að skynsamlegt væri að stefnunni fylgdi skilmerkileg og helst tímasett aðgerðaáætlun, til að tryggja eftirfylgni og framkvæmd stefnunnar.

– Það er jú þekkt í stjórnunarfræðunum að stefna ein og sér gerir lítið fyrir eiginlega stöðu menningarmála. Þó hún sé góðra gjalda verð og í raun algerlega nauðsynleg, þá er hætt við að stefna verði marklaus nema henni fylgi sundurliðuð áætlun um eftirfylgni.

– Menningarstefnunni sem Alþingi samþykkt fylgir t.d. engin áætlun um eftirfyglni, eða tímasett aðgerðaáætlun, enda hefur í sannleika sagt gengið afar hægt að hrinda nokkru af áformum hennar í framkvæmd. Jafnvel þó fleiri en einn starfshópur hafi verið settir á laggirnar til að semja tillögur á grundvelli stefnunnar þá er varla nokkuð sem búið er að hrinda í framkvæmd af þeim áformum sem stefnan hefur að geyma.

– Svo aftur tók Reykjavík forystuna þegar nýjasta endurskoðun menningarstefnu borgarinnar hófst 2012/2013 og ákvörðun var tekin um að aðgerðaáætlun myndi fylgja stefnunni. Þetta var tímamótaákvörðun og í aðgerðaáætluninni getur að líta afskaplega skilmerkilegan lista yfir aðgerðir sem verður yfirfarinn árlega, þannig að kjörnir fulltrúar borgaranna og embættismenn sviðanna sem sjá um að framkvæma stefnuna, geti fylgst með framvindu hennar. Hér hafa þeir yfirlit yfir þær aðgerðir sem eru í farvegi, þær aðgerðir sem ber að fara í á yfirstandandi ári og (skv tillgöu Sjálfstæðismanna í menningar- og ferðamálaráði) lista yfir verkefni sem er lokið. Þannig er alltaf hægt að fylgjast með framvindu stefnunnar, hvað er í farvegi, hvað er u.þ.b. að fara í gang og hverju er lokið.

– Enn eitt forystuhlutverk sem Reykjavíkurborg hefur axlað er að hanna aðferð og verklag til að tryggja faglega umfjöllun um fjármögnun menningartengdra verkefna.

– Bandalag íslenskra listamanna hefur lengi verið í virku samstarfi við borgaryfirvöld um stefnu og ákvarðanir í málum er varða menningu og listir. Bandalagið á áheyrnaraðild að fundum menningar- og ferðamálaráðs og leggur ráðinu til sérfræðinga sem mynda fagráð það sem fjallar um umsóknir um stuðning við menningarviðburði, list- og menningartengdar hátíðir, og einstök list- og menningartengd verkefni.

– Með þeirri aðferðafræði hafa borgaryfirvöld rutt brautina fyrir önnur sveitarfélög. Sérstaklega æskilegt væri að menningarráð landshlutanna litu til borgarinnar í þessum efnum, en þau hafa menningarsamninga við ríkisvaldið á sinni könnu, þar sem ríkið fjármagnar menningarstarfsemi landshlutanna gegn því að sveitarstjórnir leggi sambærilegar upphæðir á móti til samninganna.

– Af því sem hér hefur verið rakið má ljóst vera að borgaryfirvöld hafa tekið afgerandi forystu í aðferðafræðinni við að móta menningarstefnu, fylgja henni eftir og viðhafa fagleg vinnubrögð við úthlutun fjármuna til list- og menningartengdra verkefna. Fyrir hönd Bandalags íslenskra listamanna óska ég borgarbúum til hamingju með nýju stefnuna, en ekki síður með aðgerðaáætlunina.