Stjórn FLH 2014:
Margrét Örnólfsdóttir, formaður
Hrund Ólafsdóttir, gjaldkeri
Ólafur Egill Egilsson, ritari
Salka Guðmundsdóttir, meðstjórnandi
Ármann Guðmundsson, meðstjórnandi
Félagar í Félagi leikskálda og handritshöfunda voru í árslok 87 talsins en á árinu 2014 voru alls 23 nýjar aðildarumsóknir samþykktar.
IHM og aðstöðuleysi FLH
Stjórn hefur á árinu 2014 farið í mikla vinnu við að reyna að leita félaginu rekstrartekna, meðal annars með því að kanna möguleika á því að FLH fái aðild að IHM, en FLH er eina hagsmunafélag höfunda sem ekki situr við það borð þó það eigi óumdeilanlega mikilla hagsmuna að gæta. Á öllum hinum Norðurlöndunum eiga sambærileg félög aðild að innheimtumiðstöðvum landa sinna og því ljóst að verulega hallar á handritshöfunda hér á landi hvað þetta varðar. Sömuleiðis sótti FLH um rekstrarstyrk til Mennta- og menningamálaráðuneytisins en þeirri umsókn var hafnað á þeim grundvelli að Rithöfundasambandið væri heildarhagsmunafélag allra sem stunda ritstörf á Íslandi og ráðuneytið veiti RSÍ nú þegar rekstrarstyrk. Þessi yfirlýsing ráðuneytisins er grafalvarleg fyrir FLH þar sem í henni felst ógilding á hlutverki FLH sem aðalhagsmunafélags leikskálda og handritshöfunda. Verið er að skoða með hvaða hætti verður brugðist við þessari afgreiðslu Mennta- og menningamálaráðuneytisins, en það verður í það minnsta gert.
Samningar
Engir samningar voru gerðir á árinu. Brýnasta verkefni FLH er að koma á heildstæðum samningum vegna handritaskrifa við Samtök kvikmyndaframleiðenda. Eins og staðan er eru samningar næstum jafn margir og verkefnin og höfundar eiga mjög í vök að verjast gegn oft ósanngjörnum og óhagstæðum samningum. Áætlað er að ráðast í þessi mál af fullum krafti á nýju ári.
Sömuleiðis er löngu tímabært að endurskoða samninga við RÚV vegna leikins sjónvarpsefnis en sá samningur sem er í gildi hefur árum saman ekki verið notast við þar sem RÚV kaupir að langstærstum hluta leikið efni frá sjálfstæðum framleiðendum. Skoða þarf hver aðkoma og hlutur RÚV er, og á að vera, í þróun leikins efnis.
Nemendaleikhús
FLH vakti máls á því við Sviðslistadeild LHÍ að endurvekja þá hefð sem lengi var við líði að Nemendaleikhús frumflytti nýtt íslenskt verk sem sérstaklega væri skrifað fyrir útskriftarhópinn. FLH og LHÍ vinna nú í sameiningu að því að finna þessu viðhlítandi form og vonir standa til að hægt verði að sjá afraksturinn strax vorið 2016.
Launasjóðir og leikskáld
Sú tilfinning er ríkjandi meðal félagsmanna að leikskáld eigi almennt minni möguleika á úthlutunum úr rithöfundasjóði en aðrir rithöfundar og fái jafnan færri mánaðarlaunum úthlutað. Formaður tók málið upp á fundi BÍL með stjórn listamannalauna þar sem í ljós kom að svo virðist sem leikskáld séu í raun milli vita í starfslaunaumhverfinu, eigi hvergi almennilega heima. Formaður gerði einnig athugasemd við það að FLH hefur enga aðkomu að því að tilnefna í úthlutunarnefnd rithöfundasjóðs, heldur aðeins RSÍ.
FSE og Heimsráðstefna handritshöfunda í Varsjá
Heimsráðstefna handritshöfunda, World Conference of Screenwriters 2014, var haldin í Varsjá um mánaðarmótin september/október, en þetta er stærsta ráðstefna sinnar tegundar í heiminum. Formaður og tveir félagar úr stétt handritshöfunda að auki sóttu ráðstefnuna sem vel heppnuð í alla staði. Sérstakur fókus var á Skandinavíu og þá sérstaklega gríðarleg velgengni dansks leikins sjónvarpsefnis. Ljóst er að áhugi umheimsins er mikill á okkar hluta heimsins um þessar mundir og mikil sóknartækifæri í framleiðslu vandaðs sjónvarps- og kvikmyndaefnis fyrir alþjóðlegan markað.
Í framhaldi af ráðstefnunni sótti formaður aðalfund FSE (Federation of Screenwriters in Europe), þar sem einn Sveinbjörn I. Baldvinsson, félagi í FLH, gegnir starfi forseta. Mikil samstaða er meðal evrópskra handritshöfunda og mörg sameiginleg og brýn hagsmunamál, ekki síst hvað varðar dreifingu höfundaréttarvarins efnis á internetinu og hvernig tryggja á höfundum sanngjarnar tekjur af verkum þeirra.
Norrænt samstarf
Formaður sótti aðalfund NDU í Osló í ágúst. Ýmislegt var rætt, samningamál og höfundaréttur tóku stóran part, ekki síst fyrrnefnd þróun í aukinni dreifingu á internetinu sem er bæði mikið áhyggjuefni en felur á sama tíma í sér nýja og spennandi möguleika.