Iðnó við Tjörnina,3. júlí 2009
Yfirlýsing frá stjórnarfundi BÍL
Stjórn BÍL harmar þá umræðu sem orðið hefur í kjölfar bókunar fulltrúa okkar í Menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkur við val á borgarlistamanni. Deila má um hvort yfirleitt hafi verið þörf á að leggja fram slíka bókun, en hitt er óumdeilt að fulltrúarnir báru hag listamanna, umbjóðenda sinna, einan fyrir brjósti. Ekki verður lesið úr bókuninni að þar sé lítið gert úr hönnun eða öðrum skyldum greinum.
Stjórn BÍL vill nota tækifærið og óska Steinunni Sigurðardóttur til hamingju með þá vegsemd að hafa verið valin borgarlistamaður Reykjavíkur.
Ræða Ágústs Guðmundssonar á stjórnarfundi 3. júlí 2009, áður en framangreind yfirlýsing var samþykkt:
Eftir á að hyggja finnst mér smáfurðulegt að mér skyldi ekki hafa hugkvæmst að leggja til við Áslaugu að við frestuðum ákvörðun í málinu og ræddum það á stjórnarfundi. Það hefði að vísu þýtt að bókun hefði ekki fylgt ákvörðun stjórnmálamannanna, en það hefði svo sem engu breytt. Stjórn Bíl hefði getað ályktað um málið, ef áhugi hefði verið fyrir hendi. – Mér hefur lengi verið ljóst að Bandalaginu verður aðeins stjórnað með tilvísun til samþykkta stjórnarfunda. Það er í rauninni ekki til neinn annar ákvörðunaraðili fyrir þessi óvenjulegu samtök. Þeir sem mæta á stjórnarfundi ráða stefnunni.
En það sýnir kannski best hrekkleysi okkar Áslaugar að við gerðum ekki ráð fyrir að þess gerðist þörf að bera þetta mál undir ykkur. Við vorum einfaldlega að leggja áherslu á prinsipp sem í grunninn eru sáraeinföld verkalýðspólitík: við sátum þarna tvö í umboði samtaka margvíslegra listgreina og það var verið að fara út fyrir þau samtök til að finna listamann að heiðra.
Kæmi þessi bókun okkar yfirleitt fyrir augu almennings átti ég allt eins von á að hún mundi ýta við umræðunni um list og hönnun og hugsaði með mér að það væri út af fyrir sig ekkert svo slæmt. En að fólk drægi undir eins þá ályktun að við værum að setja okkur á háan hest, sem sagt að lýsa því yfir að hönnun væri ekki nógu merkileg til að kallast list, það hvarflaði ekki að mér. Það rann hins vegar upp fyrir mér ljós þegar blaðamaðurinn frá Fréttablaðinu hringdi í mig. Fyrsta spurning hans var: Er þetta gamla hugmyndin um að hönnuðir séu iðnaðarmenn? Það kom verulega á mig, en svo tautaði ég: Nei, það er frekar hugmyndin um að hönnuðir séu hönnuðir.
Þarna var þá verið að setja starfsstéttir á einhverja stalla. Undirliggjandi hugmynd virðist vera sú að í þessari stéttaskiptingu séu iðnaðarmenn neðstir, hönnuðir þar fyrir ofan og listamenn efstir. Og þessa hugsun mátti víst lesa út úr bókun okkar Áslaugar, því hvað annað fékk manninn til að fara í fyrstu setningu að tala um iðnaðarmenn?
Þeir sem skrifuðu undir yfirlýsinguna í Mogganum komust að svipaðri niðurstöðu, en þar stendur um bókunina: „Þröngsýnin og smásálarhátturinn sem í henni felast eru ekki í neinum takti við þann veruleika sem listamenn búa við í dag, þar sem skilin milli listgreina, æðri og lægri aðferða, eru sem betur fer að þurrkast út og eftir stendur krafan um hnitmiðun og frumleika hvernig svo sem þau birtast.“
Las þetta fólk bókunina okkar Áslaugar? Svo að ekkert fari á milli mála þá hljóðar hún svo:
“Bandalag íslenskra listamanna eru samtök atvinnulistamanna á Íslandi. Félagar eru alls um 3000, og er meirihluti þeirra búsettur í Reykjavík. Ástæðulaust ætti að vera að fara út fyrir þann hóp í leit að einhverjum til að heiðra sem borgarlistamann Reykjavíkur.
Borgarlistamaður er heiðursnafnbót sem jafnframt fylgir peningaupphæð. Á þeim tímum þegar mjög þrengir að hjá listamönnum, jafnvel meira en hjá flestum öðrum starfsstéttum, er mikilvægt að listamenn hljóti þó það sem listamönnum ber.
Í umræðum um þetta mál kom fram tillaga um að stofna til sérstakra Hönnunarverðlauna eða jafnvel Hönnunar- og handverksverðlauna. Slíka leið hefðu fulltrúar listamanna í Menningar- og ferðamálaráði stutt eindregið.
Með þessari bókun, sem þungbært er að þurfa að leggja fram, er á engan hátt sneitt að þeirri persónu sem nú er útnefnd borgarlistamanður, enda hefur hún þegar fengið margvíslega og verðskuldaða viðurkenningu fyrir störf sín.“
Ég kannast ekki við að hafa gert þarna nein skil “milli listgreina, æðri og lægri aðferða”. Það sem ég stóð fyrir tengist hagsmunabaráttu þeirra sem ég starfa fyrir. Og engu öðru.
En nú er þó ljóst að aðrir telja sig sjá út úr þessu ofangreind skil, og þá er að bregðast við því. Jafnframt er rétt að viðurkenna það strax að líklega gengum við Áslaug of langt í hagsmunagæslu okkar. Athugasemd okkar, sem sett var fram af fyrrnefndri grundvallarástæðu, gat komið illa, algerlega að ósekju, við þann einstakling sem valinn hafði verið. Ennfremur er alveg rétt sem fram kemur í mótbókun meirihluta Menningar- og ferðamálaráðs að ráðinu ber engin skylda til að einskorða sig við meðlimi BÍL í vali á borgarlistamanni.
En hver var þá skylda okkar Áslaugar á þessum fundi? Hún spyr í tölvubréfi um daginn:
“Hefðum við verið að vinna okkar starf ef við hefðum ekki sagt neitt, bara samþykkt að deila þessari margra ára hefð með mun stærri hóp og samþykkja nýja merkingu orðsins ,,listalíf“?” – Þetta var vissulega afstaða okkar þá, en í ljósi umræðunnar síðan hefðum við líklega betur setið þögul hjá. Er ég þá einkum að hugsa um orðstír Bandalagsins, sem ekki má bíða hnekki af þessum völdum.
Hver er svo lausnin – sé þá til nokkur lausn á þessu vandræðamáli? Ég lagði eitt og annað til við Áslaugu, hafði m.a. í huga sameiginlega yfirlýsingu frá okkur til að lægja öldurnar, en Áslaug var ekki eins friðarfús og ég og tók á endanum þann kost að segja sig frá starfi formanns SÍM. Ég réð henni frá því, en hún hefur vitaskuld fullan rétt á að taka sínar eigin ákvarðanir í þessu máli.
Þessi fundur ætti þó að komast að einhverri niðurstöðu til að ljúka málinu. Hún þarf að friða báða aðila, þá sem styðja okkur fulltrúana í ráðinu og þá sem eru á móti bókuninni.
Ég er með tillögu að því hvernig orða mætti yfirlýsingu frá okkur og legg hana fyrir fundinn, en þið getið líka komið með ykkar uppástungur. Ef við getum komið okkur saman um orðalagið skal ég glaður skrifa undir það – og ég tel að við ættum öll að gera það.