Það hefur dregist að birta samþykktir aðalfundar BÍL sem haldinn var 29. febrúar. Ástæður þess eru einfaldar, skömmu eftir aðalfund og í því ferli að ganga frá gögnum fundarins brast á með samkomubanni og starfsumhverfi listamanna umbreyttist á einni nóttu og stjórnarmenn hafa verið róið lífróðri til bjargar störfum og kjörum listamanna í landinu, Þvi birtast þær fyrst núna.

Laugardaginn 29. febrúar hélt Bandalag íslenskra listamanna aðalfund sinn í Iðnó. Aðalfund BÍL sitja fulltrúar samtaka listamanna í landinu, alls 15 talsins.

Á fundinum voru samþykktar ályktanir sem félög listamanna vilja beina til ráðamanna er varða umhverfi listgreina og listmenntunar í landinu.

1. Endurskipulagning Mennta- og menningarmálaráðuneytis

Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna 2020 vekur athygli á þeirri stöðu sem nýleg úttekt á starfsháttum og skipulagi mennta- og menningarmálaráðuneytisins dregur upp. Af henni má álykta að verulega skorti á fagmennsku og skilvirkni í afgreiðslu mála í þeim veigamiklu málaflokkum sem á hendi ráðuneytisins eru. Fundurinn hvetur til að nýtt skipurit leiði til gagngerrar endurskoðunar á stjórnsýslu lista og menningarmála, í anda gagnsæis og skilvirkni. Í því sambandi minnir fundurinn á þá kröfu Bandalags íslenskra listamanna að komið verði á fót sjálfstæðu menningarráðuneyti sem leiði fram nýja skipan menningarmála, einkum í ljósi þeirra stórvægilegu verkefna sem ráðuneyti menntamála þarf að taka til á komandi áratugum.

2. Innviðauppbygging næstu tíu ára

Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna 2020 beinir því til ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að í nýbirtum áætlunum um stórsókn í enduruppbyggingu innviða verði ekki litið framhjá áralangri vanrækslu á nauðsynlegri fjárfestingu í menningarstofnunum þjóðarinnar, sem að auki hafa verið undirfjármagnaðar til margra ára. Við hreykjum okkur gjarna af árangri listamanna okkar á erlendri grund, en mikilvægastur er vettvangurinn heimavið, þar verða þau verðmæti til sem berast jafn víða og raun ber vitni. Mikilvægur hluti þess vettvangs eru stofnanir okkar, sem vegna aðstöðuleysis eru flestar illa í stakk búnar að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Því er mikilvægt að hlutur lista- og menningarstofnana í endurnýjun innviða verði ekki fyrir borð borinn.

3.Listasafn Íslands

Í ljósi þeirrar hvatningar til ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að stofnanir menningar og listgreina fái endurreisn í áætlunum um uppbyggingu innviða, vill BÍL að sett verði sem fyrst af stað áætlun um nauðsynlegar framkvæmdir til lausnar á húsnæðisvanda Listasafns Íslands. Listasafnið hefur búið við óviðunandi húsnæði um árabil, sem dugar hvorki til sýningahalds né varðveislu á myndlistararfi þjóðarinnar. Nauðsynlegt er að hefja strax vinnu við úrbætur svo safnið geti endurspeglað hið öfluga umhverfi sem íslenskur myndlistaheimur er.

4. Listaháskóli íslands – LHÍ

Bandalag íslenskra listamanna vill líka benda á þá staðreynd að enn á eftir að koma Listaháskóla Íslands undir þak. Allt frá stofnun skólans 1998 hafa stjórnvöld haft uppi áform um að koma allri starfseminni fyrir undir einu þaki, án þess að þau áform næðu fram að ganga. Nú verður vart lengur við það unað að sú stofnun sem ein sinnir menntun í listgreinum á háskólastigi, stundar listrannsóknir og vinnur að eflingu listmennta meðal almennings, skuli þurfa að sætta sig við að starfa á fjórum stöðum í borginni og víða í húsnæði sem ekki er boðlegt til að sinna sérhæfðu hlutverki sínu. Nú er lag að ljúka því verki. BÍL hefur auk þess verið þeirrar skoðunar að rekstrarform LHÍ sé bókstaflega rangt, að eini listaháskólinn Íslandi skuli settur út fyrir garð í samfélagi íslenskra háskóla, með allt öðru rekstrarfyrirkomulagi. Með því fríar ríkið sig ábyrgð á listnámi á háskólastigi.

5. Staða Hörpu

Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna 2020 beinir til borgarstjórnar Reykjavíkur og ríkisstjórnar Íslands að fundinn verði nýr grundvöllur fyrir rekstri tónlistarhússins Hörpu. Ef fram fer sem horfir er rekstur Hörpu drepinn í dróma rangs og óskynsamlegs samkomulags eigenda um rekstur hússins. Sú krafa eigenda að húsið sé sjálfbært, eða rekið með hagnaði, hamlar allri eðlilegri starfsemi stofnunar sem þessarar. Fundurinn telur nauðsynlegt að tryggja húsinu rekstarumhverfi sem hæfir svo því menningarhlutverki sem til var stofnað.

6. Listnám

Aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna beinir því til mennta- og menningarmálaráðuneytis að efla til muna listnám í grunnskólum landsins. Síðustu áratugi hefur það verið markmið við hverja endurskoðun námskrár grunnskóla að efla listnám. Reyndin er hins vegar sú, að á sama tíma hefur verulega dregið úr þeim tíma sem varið er til listnáms í grunnskólum og víða á landsbyggðinni er nú orðið engum tíma varið til listnáms í efri bekkjum grunnskóla, góð lisgreinakennsla er einn mikilvægast þáttur í menningarlegu uppeldi ungmenna. Bandalagið leggur mikla áherslu á að þessari þróun verði snúið við strax; að ráðuneytið leggi sig allt fram við að skapa aðstæður fyrir eflingu listnáms í öllum grunnskólum landsins.

7. Bíó Paradís

Bandalag íslenskra listamanna lýsir yfir áhyggjum af þeirri alvarlegu stöðu sem framtíð Bíó Paradísar er komin í. Bíó Paradís hefur skapað sér sérstöðu í menningarlífi borgarinnar sem vettvangur frumkvöðla og grasrótar íslenskrar kvikmyndagerðar. Bíó Paradís er eina kvikmyndahúsið hér á landi sem rekið er sem „Art House“ kvikmyndahús. Tilgangur slíkra húsa er að sýna og sinna kvikmyndaforminu á mun breiðari grunni en almennt gerist. Þetta hefur tekist með miklum ágætum í Bíó Paradís og fullyrða má að í dag sé Bíó Paradís einn heitasti reiturinn í menningarlífi borgarinnar. Það sem skapar þessa óvissu um framtíð kvikmyndahússins eru hagsmunir og verðmætamat, krafa um peninga og arð af fasteignum. Hin raunverulegu verðmæti verða til í starfseminni, mannlífinu sem umhverfi kvikmyndalistarinnar hefur skapað innan veggja kvikmyndahússins. Sú starfsemi á eftir að skila okkur umtalsvert meiri arði í framtíðinni. Að bera ekki skynbragð á þau verðmæti ber vott um mikla skammsýni. Stjórn Bandalags íslenskra listamanna skorar því á stjórnvöld að leita allra leiða til að tryggja framtíð Bíó Paradísar.