Grg_lifad_af_listinni_22.09.17
22. september sl. gekkst BÍL fyrir þriðja málþinginu um höfundarrétt, í samstarfi við Höfundaréttarráð, STEF, RSÍ, IHM og Myndstef. Var í þetta sinn fjallað um þörfina á opinberri stefnu í málefnum höfundarréttar. Málþingið var haldið í Norræna húsinu og var fundarstjóri Rán Tryggvadóttir formaður Höfundaréttarráðs.
Kveikjan að málþinginu var sú að haustið 2014 skipaði ráðherra iðnaðar- og viðskipta starfshóp sem fékk það verkefni að móta framtíðarsýn um hugverkaréttindi á Íslandi. Hópurinn skilaði tillögu að fullbúinni stefnu um hugverkaréttindi og var hún gefin út í júní 2016 sem opinber Hugverkastefna 2016-2022 undir heitinu „Hugverkaréttindi sem verðmæti og viðskiptatæki“.
Það er mat Höfundaréttarráðs og samstarfshóps höfundarréttarsamtaka að nauðsynlegt sé að halda áfram á þessari braut og hefja vinnu við að móta svipaða framtíðarsýn um höfundarétt. Fyrirkomulag málþingsins var þannig að haldin voru tvö innlegg um grundvallaratriði höfundaréttarstefnu og leitað rökstuðnings fyrir mikilvægi slíkrar stefnu, auk þess sem kynnt var vinnan við hugverkastefnuna. Síðan var boðið upp á vinnu í hópum, þar sem þátttakendur skiptu sér á borð eftir listgreinum og gafst kostur á að setja sitt mark á væntanlega stefnu, bæta við rökstuðningi og sjónarmiðum. Markmiðið var að málþingið skilaði efniviði sem Höfundaréttarráð gæti byggt á endanlega tillögu að Höfundaréttarstefnu 2018 – 2024. Greinargerð málþingsins, sem m.a. hefur að geyma efniviðinn sem varð til í hópavinnunni, var sendi mennta- og menningarmálaráðuneytinu í lok nóvmber og er aðgengileg hér í pdf-skjali.