Bandalag íslenskra listamanna býður nýja fjárlaganefnd velkomna til starfa og væntir góðs samstarfs við nefndina um fjárframlög til málaflokksins menning og listir. Með nýjum lögum um opinber fjármál og breyttri framsetningu fjárlagafrumvarpsins breytist samtalið þó óhjákvæmilega, enda gera nýju lögin ráð fyrir að ábyrgðin á skiptingu fjárframlaga á einstök viðföng hvíli í ríkari mæli á ráðherra málaflokksins en verið hefur. Engu að síður treystir BÍL því að ný fjárlaganefnd taki vel ábendingum heildarsamtaka fagfélaga listamanna og samþykki að eiga opið og hreinskiptið samtal um afkomu og starfsumhverfi listamanna á komandi árum. Í því ljósi hefur BÍL tekið saman þá umsögn sem hér fylgir.
Heildarmyndin
Umsögnin er yfirgripsmikil og nær til málaflokksins í heild, jafnt stofnana sem sjálfstæða geirans. Þetta er annað árið í röð sem BÍL horfir svo vítt yfir sviðið í umsögn sinni um fjárlagafrumvarp enda er það í samræmi við nýtt lagaumhverfi opinberra fjármála sem ætlað er að móta stefnu í málaflokkunum til lengri tíma en áður. BÍL telur slíka yfirsýn einnig mikilvæga í ljósi aukinnar áherslu stjórnvalda á uppbyggingu innviða atvinnulífs í víðum skilningi, en opinberar menningarstofnanir eru einmitt burðarstoðir starfsvettvangs listamanna. Þær, ásamt launasjóðum og verkefnatengdum sjóðum á listasviðinu, mynda þann starfsgrundvöll sem við blasir að loknu háskólanámi í listum. Með því að vekja athygli fjárlaganefndar á þessum tengslum leggur BÍL áherslu á mikilvægi þess að menningarstofnunum í eigu þjóðarinnar sé gert kleift að standa undir hlutverki sínu með reisn og skapa umhverfi fyrir framsækna listsköpun um leið og sígildri list og menningu er sinnt af alúð.
Opinber menningarstefna
Það er sérstakt ánægjuefni að ríkisstjórnin skuli hafa uppi áform um að semja aðgerðaáætlun á grundvelli menningarstefnu sem Alþingi samþykkti 2013 og væntir BÍL þess að fá formlega aðkomu að þeirri vinnu. Í opinberri menningarstefnu er kveðið á um ábyrgð ríkisins gagnvart menningarstofnunum. Þar segir að Alþingi beri að skapa nauðsynleg skilyrði til að stofnanirnar fái risið undir lagalegu hlutverki sínu og framkvæmt stefnu Alþingis í menningarmálum. Þetta þýðir í raun tvennt; að stjórnvöldum beri að styðja við hlutverk og starfsemi stofnananna með öflugri stjórnsýslu á vettvangi ráðuneyta en einnig að tryggja nægilegt fjármagn til að þær geti uppfyllt skyldur sínar hver og ein. Þá kveður stefnan á um skyldu stjórnvalda til að setja langtímastefnu í húsnæðismálum menningarstofnana, sem er sannarlega eitt af því sem stendur starfsumhverfi listamanna fyrir þrifum. Í því sambandi lýsir BÍL sérstakri ánægju með að í stjórnarsáttmála skuli gefin fyrirheit um að tekið skuli á alvarlegum húsnæðisvanda æðstu menntastofnunar í listum Listaháskóla Íslands og væntir þess að fjármagn fáist til að hefja það starf strax á næsta ári.
Ráðuneyti menningar og lista
Allir stjórnmálaflokkar hafa verið upplýstir um þau sjónarmið BÍL að fullt tilefni sé til að stjórnsýsluleg staða lista og menningar verði endurskoðuð. Málaflokknum hefur verið tvístrað ótæpilega á síðustu árum en hann heyrir nú orðið undir fimm ráðuneyti [ráðuneyti mennta- og menningarmála, atvinnuvega- og nýsköpunar, samgöngu- og sveitarstjórnarmála, utanríkis og fjármála]. Það er mat BÍL að listir og menning verðskuldi að stofnað verði sjálfstætt menningarmálaráðuneyti, með talsmann við ríkisstjórnarborð sem er óbundinn af öðrum jafn viðamiklum og vandmeðförnum málaflokki og skólamálin eru. Þó ný ríkisstjórn hafi ákveðið að menningarmál skuli áfram heyra undir menntamálaráðuneyti mun BÍL enn sem fyrr halda á lofti sjónarmiðum um sameiningu menningar og lista undir einn hatt sjálfstæðs menningarmála-ráðuneytis en þangað til af því gæti orðið er mikilvægt að komið verði í kring áætlun um samræmda stjórnsýslu í málefnum lista og skapandi greina með formlegum samráðsvettvangi þeirra ráðuneyta sem í hlut eiga. BÍL kýs að fá tækifæri til að ræða slíkar hugmyndir nánar við þingmenn á kjörtímabilinu sem í hönd fer. Meðal þeirra mála sem skoða þarf í þessu sambandi eru möguleikar listafólks til að nýta stoðkerfi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands til rannsókna og sköpunar, staða og hlutur listgreinanna undir hatti Vísinda- og tækniráðs m.t.t. rannsókna í listum, uppbygging atvinnutækifæra fyrir listamenn utan höfuðborgarinnar og mikilvægi skráningar tölulegra gagna um listir og menningu sem skrá verður með mun markvissari hætti en nú er gert. Skráning menningartölfræði hefur verið baráttumál BÍL árum saman og er sérstaklega ánægjulegt að sjá í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar áform um að taka á því máli.
Launasjóðir listamanna
Mikilvægasti stuðningur hins opinbera við listsköpun er án efa öflugt kerfi launasjóða, sem í samspili við verkefnatengdu sjóðina er grundvöllur nýsköpunar í listum. Kerfið er sambærilegt við það sem þekkist á hinum Norðurlöndunum og hefur skipt sköpum í lífsafkomu listamanna. Í raun má rekja upphaf kerfisins aftur til ársins 1891 þegar Alþingi veitti „skáldalaun“ í fyrsta sinn, þó það hafi ekki fengið lagastoð fyrr en á sjöunda áratug síðustu aldar. Kerfið í núverandi mynd rekur sig aftur til ársins 1991 og þó það hafi þróast nokkuð síðustu 25 árin hefur gengið treglega að ná fram hækkunum á mánaðargreiðslunum og enn erfiðara hefur reynst að fá stjórnvöld til að tryggja eðlilega fjölgun mánaða milli ára. BÍL hefur árum saman barist fyrir því að í gildi sé, á hverjum tíma, áætlun um fjölgun mánaða í sjóðunum og í ljósi áforma ríkisstjórnarinnar nú um eflingu bæði starfslaunasjóða og verkefnasjóða standa vonir til að bjartari tímar séu framundan hvað þetta varðar. Til þess að svo verði þarf að endurskoða lög um launasjóði listamanna nr. 57/2009 og telur BÍL inntak breytinganna þurfa að vera fjölgun launamánuða að lágmarki í 2000 og að mánaðargreiðslan taki mið af meðallaunum háskólamenntaðra stétta. Síðast var lögunum breytt 2009 þegar launamánuðum var fjölgað úr 1200 í 1600 á árabilinu 2010 – 2012. Í sáttmála nýrrar ríkisstjórnar eru uppi áform um styrkingu starfslaunasjóða listamanna sem BÍL fagnar og treystir að slík vinna fari fram í samstarfi við samtök listafólks.
Verkefnatengdir sjóðir
Framlag til verkefnatengdra sjóða á listasviðinu er tilgreint í einni tölu í fjárlagafrumvarpinu og þó okkur hafi skilist að birta eigi á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis samantekt um safnliði með sundurliðun ráðuneytisins til einstakra sjóða, þá er engar slíkar upplýsingar að finna fyrir fjárlagaárið 2018. Þetta er óásættanlegt sérstaklega í ljósi yfirlýstra markmiða nýrra laga um opinber fjármál þar sem gagnsæi er eitt af lykilhugtökunum.
Hugmyndir BÍL um þróun opinberra framlaga til verkefnatengdra sjóða eru eftirfarandi:
- Hér að framan er lýst hugmyndum BÍL um breytingu á lögum um launasjóði listamanna. Við þær breytingar telur BÍL eðlilegt að farið verði að kröfu sviðslistafólks um að launasjóður sviðslistafólks verði sameinaður verkefnatengdum sjóði sviðslista og fái í heildina tvöfalt framlag á við það sem nú er, enda hafa sviðslistirnar setið eftir í þeim úrbótum sem annars hafa verið gerðar á starfsumhverfi listafólks upp á síðkastið. Samkvæmt því þyrfti sameinaður sjóður sviðslista að hafa úr að spila 320 milljónum króna árlega.
- Framlag til Kvikmyndasjóðs er bundið í samningi, sem gerður var 26. október 2016. honum ætti framlagið í sjóðinn 2018 að vera kr. 994,7 milljónir auk 125 milljóna króna viðbótarframlagi, sem hvergi sér stað í fyrirliggjandi frumvarpi. Það er mat BÍL að nauðsynlegt sé að gera nýja áætlun um eflingu Kvikmyndasjóðs þannig að framlagið til hans nái 2 milljörðum króna 2020.
- Í samræmi við átakið „Borgum myndlistarmönnum“, sem gengur út á að söfn og sýningarými, sem rekin eru alfarið eða að stórum hluta fyrir opinbert fé, greiði myndlistarmönnum sanngjarna þóknun fyrir að sýna, verði framlagið til þeirra safna og sýningarýma sem í hlut eiga, aukið um kr. 100 milljónir. Til viðbótar við þetta er nauðsynlegt að framlagið til Myndlistarsjóðs verði hækkað í 100 milljónir króna.
- Á síðustu tveimur árum hafa orðið nokkrar úrbætur á starfsumhverfi tónlistarmanna, þar sem stofnaðir hafa verið tveir nýjir sjóðir; Útflutningssjóður og Hljóðritunarsjóður, auk þess sem samþykkt hefur verið endurgreiðsluáætlun vegna upptöku tónlistar í hljóðverum hér á landi. En sá verkefnasjóður sem settur var á með lögum nr. 76/2004, Tónlistarsjóður, hefur ekki þróast með þeim hætti sem æskilegt væri, því hefur BÍL lagt til að framlag til hans verði hækkað í 80 milljónir króna.
- Mikilvægt er að stjórnvöld taki þátt í að auka veg nýsköpunar á vettvangi tónlistarleikhúss og óperu, sem skortir fjárhagslegan grundvöll. Hvorki tónlistarsjóður né sviðslistasjóður hafa getað sinnt þessu listformi, þar sem hér er um kostnaðarsöm verkefni að ræða og fjárhagur sjóðanna afar takmarkaður. Mögulega þarf að endurskilgreina hlutverk þessara sjóða og auka fjármagn til þeirra til muna eða stofna nýjan sjóð og byggja hann vel upp svo sterkur grundvöllur skapist fyrir þetta listform sem er vanrækt þannig að flestir íslenskir listamenn sem innan þess starfa þurfa að sækja störf utan landssteinanna.
- Hönnunarsjóður var stofnaður 2013 og vistaður í mennta- og menningarmálaráðuneyti en þá höfðu hönnuðir og arkitektar barist lengi fyrir auknu fjármagni til þróunar, verkefna og útflutnings. Í tíð síðustu ríkisstjórnar var sjóðurinn fluttur yfir til atvinnuvega – og nýsköpunarráðuneytis og hækkaður í 50 milljónir. Hópurinn, sem sækir fé í sjóðinn vinnur á breiðu sviði hönnunar og arktiektúrs og eru gild rök fyrir því að með auknum fjölda verkefna þurfi framlag til sjóðsins að hækka í 150 milljónir.
- Áhersla menningarstefnu Alþingis er á barnamenningu, engu að síður var Barnamenningarsjóður lagður niður 2015, þvert ofan í mótmæli fagfélaga listafólks. BÍL telur eðlilegt að Barnamenningarsjóður verði endurreistur, hann starfræktur með sjálfstæðri stjórn og í hann lagðar 18 milljónir króna árlega. Slíkt væri í anda stefnunnar og myndi bæði auka fjölbreytni verkefna og mæta þörfinni fyrir stuðning við verkefni sem unnin eru með og af börnum.
- Listskreytingarsjóður hefur aldrei haft nægilegt bolmagn til að sinna hlutverki sínu með reisn, en eftir hrun lækkaði framlag til sjóðsins úr 7,1 millj í 1,5 millj og hefur ekki hækkað síðan. BÍL hefur um árabil hvatt til þess að þörfin fyrir listskreytingar í því húsnæði sem fellur undir lögin um listskreytingasjóð verði metin og framlagið til sjóðsins verði hækkað til að mæta þeirri þörf.
Bandalag íslenskra listamanna
BÍL hefur síðan 1998 gert samning við mennta- og menningarmálaráðuneytið, til þriggja ára í senn, um ráðgjöf á vettvangi lista og menningar. Þegar endurnýja átti samninginn 2017 taldi mennta- og menningarmálaráðuneyti ný lög um opinber fjármál hamla því að hægt væri að gera nýjan þriggja ára samning svo 16. maí 2017 var undirritaður samningur til eins árs og var greiðslan á árinu ákveðin 4,5 milljónir. Skv. samningnum er aðilum gert að tilkynna um vilja sinn til endurnýjunar fyrir lok september 2017 og gerði BÍL ráðuneytinu viðvart 13. september sl. um sinn vilja í þeim efnum. Enn hefur BÍL ekki borist formleg staðfesting á vilja ráðuneytisins til endurnýjunar samningsins eða upplýsingar um fjárhæð væntanlegs samnings. Til að efla starfsemi BÍL og gera samtökunum kleift að sinna verkefnum sínum af þeim krafti sem þörf er á þyrfti að lágmarki 6 milljónir króna í árlegt framlag. Með því myndu stjórnvöld sýna BÍL fram á að starf bandalagsins sé metið að verðleikum og gera BÍL kleift að halda upp á 90 ára afmæli sitt 2018, en það hyggst BÍL gera með veglegum hætti, t.d. er í skoðun að hefja undirbúning að útgáfu á sögu BÍL í áföngum.
Menningarstofnanir
Svo sem að framan greinir beinir BÍL sjónum að list- og menningartengdum stofnunum í umsögn sinni, enda um að ræða burðarstoðir lista og menningar sem skipta sköpum fyrir listamenn í atvinnulegu tilliti. Yfirlit yfir helstu stofnanir fylgir hér á eftir, þó er sneytt hjá söfnum, setrum og sýningum, sem engu að síður eru hluti þess vettvangs sem listafólk og hönnuðir starfar við. Megininntak þeirra ábendinga sem BÍL vill koma á framfæri við stjórnvöld fjallar um það hversu undirfjármagnaður list- og menningargeirinn er þegar á heildina er litið og þó reynt hafi verið að verja stofnanirnar að einhverju marki gegn alvarlegum afleiðingum langvarandi niðurskurðar, þá hníga gild rök að því að mikið skorti á að þeim hafi verið bættur að fullu sá niðurskurður sem átti sér stað í kjölfar efnahagshrunsins. Í því sambandi ber að hafa í huga samdrátt í opinberum framlögum til þeirra í aðdraganda hrunsins, þar sem stjórnvöld á þeim tíma hvöttu mjög til þess að stofnanirnar sæktu sér aukið fjármagn til fyrirtækja í einkageiranum, sem stofnanirnar gerðu samviskusamlega. Af þessum sökum varð skellurinn við niðurskurðinn eftir hrun hálfu verri þar sem einkafjármagnið hvarf úr geiranum á einni nóttu og a.m.k. 20% flatur niðurskurður á opinbera framlaginu fylgdi í kjölfarið, og af því að ekki er haldið með nægilega skilvirkum hætti utan um skráningu menningartölfræði er erfitt að sannreyna þessar „kenningar“, en líka ómögulegt að hafna þeim.
Íslenski dansflokkurinn
Íslenski dansflokkurinn er eini ríkisrekni dansflokkurinn á Íslandi og skv. árangurstjórnunar-samningi frá 2012 ber honum að þjóna svipuðu hlutverki ganvart danslistinni og Þjóðleikhús gagnart leiklist og Sinfóníuhljómsveit Íslands gagnvart tónlist; -að vera faglega leiðandi, stuðla að nýsköpun í innlendri listdanssköpun og efla þekkingu á danslistinni. Til að geta sinnt þessu hlutverki sínu þarf flokkurinn fjárhagslega burði, sem hann hefur ekki í dag. Á skrifstofu dansflokksins eru þrír starfsmenn, listrænn stjórnandi, framkvæmdastjóri og markaðsstjóri. Fastráðnir dansarar eru sjö talsins ásamt æfingastjóra, það er þremur færri en þegar flokkurinn var stofnaður 1973. Hjá erlendum sambærilegum dansflokkum (t.d. í Bergen) eru 15 dansarar á föstum samningum og 14 starfsmenn á skrifstofu. Til að geta fjölgað uppsetningum, tekið þátt í fleiri samstarfsverkefnum og sinnt fræðslustarfi þyrfti flokkurinn að lámarki 10 fastráðna dansara, tæknistjóra í fullu starfi auk verkefnastjóra á skrifstofu en til þess þyrfti að auka fjárveitingu Íd að lágmarki um 35 m.kr. á ári. Dansflokkurinn hefur alla tíð haft lítið svigrúm til að greiða listamönnum, t.d. danshöfundum, tónskáldum, búninga- og leikmyndahönnuðum, markaðslaun fyrir vinnu við uppfærslur flokksins og hefur greitt talsvert lægri laun en aðrar stofnanir greiða fyrir slíka þætti. Til að bæta úr þessu þyrfti að auka fjárveitingu Íd um 15 m.kr. að lágmarki. Starfsaðstaða flokksins í Borgarleikhúsinu er ekki ákjósanleg; skrifstofa og búningsherbergi eru í dimmu og óloftræstu rými í kjallara hússins, æfingasalur er á fjórðu hæð og þarf að ganga gegnum hann til að komast í búningageymslu Borgarleikhússins. Þá er skipulag sýninga algjörlega háð skipulagi leiksýninga í húsinu og mæta oft afgangi. Flokkurinn á fulltrúa í vinnuhópi sem kannar nú möguleika á stofnun danshúss og er það von flokksins að hagsmunaaðilar samtímadans á höfuðborgarsvæðinu nái að fjármagna sérútbúið húsnæði fyrir flutning dansverka með æfingaaðstöðu með það að markmiði að efla danslistina og framþróun hennar hér á landi.
Íslenska óperan
Íslenska óperan er lykilstofnun í flutningi óperutónlistar á Íslandi. Óperan hefur undanfarið glímt við talsverða fjárhagserfiðleika og eftir hrun var niðurskurður hins opinbera fjárframlags til ÍÓ meiri dæmi voru um hjá öðrum stofnunum í listageiranum. Enn er lækkunin ekki gengin til baka að fullu. Óperan flutti úr eigin húsnæði í Gamla bíó í Hörpu árið 2011 að frumkvæði mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Andvirði Gamla bíós sem var selt hefur verið greitt sem meðlag með ÍÓ í Hörpu en nú er það upp urið og mikilvægt að opinber stuðningur við starfsemina verði efldur svo hægt sé að mæta skuldbindingum stofnunarinnar og þeim væntingum sem til hennar eru gerðar, gera langtímaáætlanir og halda þeim listrænu gæðum sem stofnunin hefur sýnt undanfarin ár en flestar sýningar hennar hafa fengið 5 stjörnu dóma bæði í innlendum og erlendum miðlum. Íslenska óperan flutti starfsemi sína í Hörpu í trausti þess að henni yrði skapaður rekstrargrundvöllur í húsinu en stór hluti framlagsins fer nú í að greiða háa húsaleigu á kostnað listrænnar starfsemi. Mikilvægt er að hækka opinbert framlag til Óperunnar í 250 m kr sem er sambærilegt við raunvirði framlagsins fyrir hrun. Þá er algjört lykilatriði að vísitölutengja framlagið þar sem bæði leigukostnaður Óperunnar í Hörpu og öll laun eru vísitölutengd en ekki framlagið sem lækkar þá að raungildi frá ári til árs.
Listasafn Íslands
Sem þjóðarlistasafni Íslendinga og höfuðsafni á sviði myndlistar ber Listasafni Íslands að safna íslenskri myndlist, frá öllum tímum, af eins mikilli kostgæfni og því er unnt hverju sinni – varðveita hana, rannsaka og miðla upplýsingum og fræðslu um hana innanlands sem utan. Þessu lögbundna hlutverki hafa löngum verið settar skorður af þrenns konar völdum: Skorti á raunhæfum fjárframlögum, takmörkuðum mannafla og naumum húsakosti. Húsnæði safnsins við Fríkirkjuveg var tekið í notkun fyrir rúmum 30 árum og þótti stórglæsilegt. Í dag þarfnast húsnæðið endurbóta í takt við nýja tíma. Köfur til öryggismála safna hafa aukist og breyst gríðarlega, vaxandi eftirspurn er eftir fræðslu og miðlun til almennings sem er mikilvægur þáttur í endurskilgreindu þjónustuhlutverki safnsins. Þetta ásamt breyttum áherslum í sýningahaldi kallar á gagngera endurskoðun á þeirri aðstöðu sem safnið býr við. Í raun þyrfti fjárframlag hins opinbera til Listasafns Íslands að vera að minnsta kosti tvöfalt hærra en tíðkast hefur undanfarin ár. Ef mæta á óskum safnsins um mikilvægar úrbætur á húsakostinum þyrfti framlagið að þrefaldast og nema þá tæpum 800 milljónum. Áætlað framlag samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2018, 266,3 milljónir, hrekkur ekki fyrir föstum kostnaðarliðum á borð við öryggiskerfi, gagnavarðveislu, né heldur sýningum, útgáfum, fræðsluefni eða kynningarmálum fyrir þær fjórar starfstöðvar sem safnið rekur. Héraðslistasafnið Aros í Árósum hefur verið fyrirmynd í faglegri umsýslu og stefnumótun Listasafns Íslands, enda þjónar það samfélagi sem er að mörgu leyti sambærilegt. Sýningar og viðburðardagskrá Aros vekur mikla athygli og dregur að sér fjölda gesta á hverju ári. En þegar opinber framlög til Aros eru borin saman við framlög til Listasafns Íslands er samanburðurinn verulega óhagstæður. Sóknartækifæri Listasafns Íslands blasa við, fái safnið aukna fjármuni, íslenskri myndlist til vegsemdar og virðingar, innanlands sem utan.
Ríkisútvarpið
BÍL hefur ævinlega litið svo á að Ríkisútvarpið sé ein af mikilvægustu menningarstofnunum þjóðarinnar. Það er þjóðareign, órjúfanlegur hluti íslenskrar menningar og á því hvíla skyldur umfram aðra fjölmiðla. Því er ætlað með lögum að halda utan um menningararfinn, tunguna, söguna, listina og lífið í landinu. Samkvæmt þeim lögum eru stjórnvöld skuldbundin til gera stofnuninni kleift að sinna hlutverki sínu af metnaði. Á undanförnum árum hefur útvarpsgjald ítrekað verið skorið niður og nú er svo komið að framlag til dagskrárgerðar hefur verið skert svo rækilega að dagskráin ber þess merki. Forsvarsmenn RÚV hafa eftir getu forgangsraðað í þágu innlendrar dagskrár, menningarefnis, dagskrárgerðar fyrir börn og vinna nú að því að stórauka þátttöku í íslenskri kvikmyndagerð. Ljóst er að öflugri þátttaka RÚV í kvikmyndagerð getur haft margþætt margfeldisáhrif. Til að áform RÚV nái fram að ganga telur BÍL nauðsynlegt að útvarpsgjaldið verði hækkað þannig að það verði samanburðarhæft við það sem gengur og gerist hjá frændþjóðum okkar, Norðurlöndunum og Bretlandi. Einnig telur BÍL tímabært að skoðað verði hvort létta mætti af stofnuninni lífeyrisskuldbindingum, sem ólíklegt er að hún muni nokkurn tíma geta staðið undir. Í samræmi við það sem að framan greinir leggur BÍL til að fjárlaganefnd leiti leiða til að hluti þeirrar skerðingar sem RÚV hefur þurft að sæta á undanförnum árum gangi til baka í fjárlagafrumvarpi ársins 2017 og fjárveiting til RÚV verði hækkuð um 250 millj. króna.
Sinfóníuhljómsveit Íslands
Sinfóníuhljómsveit Íslands starfar við kjöraðstæður eftir að hljómsveitin fluttist í Hörpu fyrir sex árum. Frá árinu 2005, þegar hljómsveitin starfaði í Háskólabíói hefur fjöldi tónleikagesta ríflega tvöfaldast eða úr 40.894 í 86.256 árið 2016. Umfang starfseminnar hefur jafnframt aukist og nú stendur hljómsveitin að jafnaði fyrir um 100 tónleikum og öðrum viðburðum sem er um 23% aukning í starfsemi hljómsveitarinnar frá því í Háskólabíói. Þetta er í samræmi við þær auknu kröfur sem gerðar eru til hljómsveitarinnar í nýju starfsumhverfi. Þá hefur ímynd SÍ styrkst umtalsvert á síðustu árum sem kemur m.a. fram í góðri útkomu úr mælingum Gallup. Þrátt fyrir þetta hefur flutningur hljómsveitarinnar í Hörpu haft töluverð áhrif á rekstur hljómsveitarinnar. Þótt að aðsókn og áskriftarsala hafi aukist mikið hefur nýtt rekstrarumhverfi einnig haft í för með sér aukinn kostnað. Frá upphafi var gert ráð fyrir því að framlag ríkisins myndi aukast í samræmi við hærri húsaleigu en nú er komið í ljós að annar kostnaður jókst um tugi prósenta, svo sem tækni- og miðasölukostnaður. Stærsti hluti rekstrakostnaðar hljómsveitarinnar er fastur kostnaður á borð við launakostnað og húsaleigu. Hlutfall launakostnaðar í heildar rekstrarkostnaði hefur aukist hægt og bítandi síðustu ár þrátt fyrir að fjöldi starfsmanna hafi haldist svipaður. Breytilegur kostnaður hljómsveitarinnar snýr nær eingöngu að framleiðslukostnaði við tónleika. Eina leiðin til að spara í rekstri er því að draga úr kostnaði við tónleika og stýra verkefnavali þannig að ekki þurfi að stækka hljómsveitina. Þetta má glöggt sjá á rekstrarreikningi hljómsveitarinnar. Árið 2010 var kostnaður við tónleika töluvert hærri en húsaleigan. Síðan hljómsveitin flutti í Hörpu hefur hlutfallið hins vegar snúist við þannig að kostnaður við tónleika er um helmingur af kostnaðinum við húsaleiguna í Hörpu.
Að endingu er nauðsynlegt að nefna að launaumhverfi hljómsveitarinnar er í engu samræmi við þær gríðarlegu listrænu kröfur sem gerðar eru til hennar. Því er nauðsynlegt að hljómsveitin fái fjárhagslegt svigrúm til að endurnýja kjarasamninga við hljóðfæraleikara. Sinfóníuhljómsveit Íslands starfar í alþjóðlegu umhverfi og stenst fyllilega samanburð við bestu þjóðarhljómsveitir, sem er sterkur vitnisburður Íslendingum í hag. Það er hins vegar afar mikilvægt að viðhalda þeirri stöðu og skapa hljómsveitinni þannig rekstrarumhverfi að hún geti haldið áfram að vaxa og dafna sem eitt helsta flaggskip þjóðarinnar.
Þjóðleikhúsið
Fjárveiting til starfsemi Þjóðleikhússins hefur allt frá opnun þess verið ákvörðuð frá ári til árs í fjárlögum. Í kjölfar efnahagshrunsins var fjárveiting til leikhússins skorin verulega niður þrjú ár í röð (2010, 2011 og 2012). Brugðist var við því með samstilltu átaki starfsfólks, skapandi hugsun og hugviti ásamt ýmsum rekstrarlegum aðgerðum. Rekstur leikhússins hefur því verið í járnum og mikið álag einkennt allt starfið á síðustu árum. Eðlilegar sveiflur í aðsókn leiksýninga eru byggðar inn í áætlanagerð leikhússins, en á rekstrarárinu 2014 dalaði aðsókn meira en gert hafði verið ráð fyrir og nam rekstrarhalli það ár 53 millj.kr. sem greiða þurfti niður 2015 og 2016 sem jók enn á álagið. Meðan þetta ástand varir er starfsemi hússins í raun háð því að hver einasta sýning sem frumsýnd er laði til sín áhorfendur í ríkum mæli og það þótt leikhúsið hafi tæplega burði til að auglýsa sýningarnar. Slíkt er óraunhæft, ekki síst þegar horft er til þess mikilvæga hlutverks sem leikhúsinu er falið með lögum; að stunda frumsköpun og sýna listrænan metnað í listsköpun sinni. Þjóðleikhúsið hefur fengið tímabundna hækkun á fjárlögum síðustu tveggja ára til að hefja bráðnauðsynlega endurnýjun tækjabúnaðar, verkefni sem mun kosta að lágmarki 300 milljónir króna. En til að gera Þjóðleikhúsinu kleift að standa undir lögbundnu hlutverki sínu sem burðarstoð íslenskrar leiklistar þyrfti almennt rekstrarframlag á fjárlögum að hækka sem nemur 100 milljónum á ári næstu þrjú ár, þar til það næði 1.200 milljónum króna 2020. Þjóðleikhúsið er leiðandi stofnun á sviði leiklistar í landinu og leitast við að vera til fyrirmyndar hvað listrænan metnað varðar. Leikhúsið hefur alla burði til að sinna þessu forystuhlutverki sínu en með styrkari fjárhagsgrunni væri því gert kleift að standa betur undir þeim kröfum sem til þess eru gerðar af samfélaginu, listamönnum og stjórnkerfinu.
Kvikmyndamiðstöð Ísland
Kvikmyndamiðstöð Íslands hefur sérstöðu samanborið við aðrar miðstöðvar listgreina og hönnunar því um hana gilda lög nr. 137/2001 og hefur hún því stöðu ríkisstofnunar. Verksvið miðstöðvarinnar hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum og hafa framlög til hennar ekki fylgt auknu álagi sem hlýst af þeirri athygli sem íslenskar myndir, ekki síst sjónvarpsefni, hafa notið að undanförnu samhliða niðurskurði í rekstri í kjölfar hrunsins. Verksvið KMÍ er víðtækt svo sem sjá má í 1. gr. laganna, auk þess að vera umsýslustofnun Kvikmyndasjóðs, sem er þungamiðja starfseminnar, þá gegnir hún lykilhlutverki við að koma kvikmyndum íslenskra höfunda á framfæri á erlendum hátíðum og mörkuðum. Hún sinnir skráningarhlutverki varðandi innlendar kvikmyndir, hönnun kynningarefnis og heldur úti öflugri heimasíðu um íslenskar myndir (þó hún sé úr sér gengin tæknilega). Þá veitir hún ráðgjöf á vettvangi kvikmynda, bæði til innlendra kvikmyndagerðarmanna og erlendra dreifingaraðila íslenskra mynda. Loks annast KMÍ umsýslu umsókna um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar samkv. samningi við atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið. Hjá KMÍ starfa 5 starfsmenn í u.þ.b. 4,5 stöðugildum og hefur það umfang verið óbreytt frá 2003 (kvikmyndaráðgjafar eru verktakar í hlutastörfum sem leggja listrænt mat á styrkumsóknir, sbr. reglugerð og ekki taldir með hér). Á síðasta ári fjallaði KMÍ um rúmlega 200 umsóknir um styrki úr Kvikmyndasjóði. Umsóknirnar eru viðamiklar, oft um og yfir 200 bls. hver og í samræmi við 11. gr. reglugerðar um Kvikmyndasjóð þarf að leggja nákvæmt mat á um 25 efnisþætti í hverri umsókn. Á síðasta ári voru íslenskar myndir sendar á 425 hátíðir auk þess sem íslenskar myndir voru í sérstökum brennidepli á átta hátíðum. Til marks um álagið á starfsmenn KMÍ má geta þess að í sambærilegum stofnunum í Eistlandi og Lettlandi eru 11 starfsmenn og 15 í Litháen, þó eru umsvif þessara miðstöðva ekki eins mikil og hjá KMÍ sem skýrist aðallega af minni velgengni, enn sem komið er. Norðurlöndin standa svo enn betur að vígi og óraunhæft að nota þau til samanburðar, enda hver stofnun þar með um og yfir 150 starfsmenn sem sinna mun burðugra styrkjakerfi en okkar. Finnar eru þó nálægt okkur hvað uppbyggingu varðar en þar eru 26 starfsmenn sem sjá um styrkveitingar og kynningar. Málefni KMÍ þarfnast sérstakrar skoðunar af hálfu stjórnvalda og nægir viðleitni fjárlagafrumvarpsins 2018 engan veginn í því efni.
Miðstöð Íslenskra bókmennta
Starfsemi Miðstöðvar íslenskra bókmennta er hornsteinn bókmenningar og bókaútgáfu í landinu, en eitt af meginhlutverkum hennar samkvæmt lögum er að úthluta styrkjum til útgáfu innanlands sem og þýðinga á íslensku og erlend mál. Auk þess styður miðstöðin við kynningu og útbreiðslu íslenskra bókmennta erlendis og rennir þannig um leið styrkari stoðum undir innlenda bókmenningu. Miðstöð íslenskra bókmennta er eini sjóðurinn sem útgefendur geta leitað í vegna útgáfu innlendra ritverka og skiptir meðal annars miklu að styrkir vegna útgáfu á stórvirkjum bókmenntanna og bókum sem hafa ótvírætt menningarlegt gildi verði efldir verulega. Fjárhagslega hefur miðstöðinni verið afar þröngur stakkur skorinn, en framlag á fjárlögum er sama krónutala í ár og þegar miðstöðin var sett á stofn árið 2013 (92 mkr). Til að tryggja íslenskri bókaútgáfu og bókmenningu traustari grunn og til að mæta auknum kröfum og umsvifum miðstöðvarinnar á öllum sviðum, sem birtist m.a. í eftirspurn eftir íslenskum bókmenntum erlendis, ört vaxandi fjölda styrkumsókna í öllum flokkum og fleira, þarf nauðsynlega að efla miðstöðina með að minnsta kosti 50% hækkun á árlegu framlagi til hennar.
Miðstöðvar lista og skapandi greina
Kynning á íslenskri list og hönnun utan landssteina er að stórum hluta sinnt af miðstöðvum sem starfræktar eru af hverjum geira fyrir sig. Þær leika lykilhlutverk í að koma listamönnum og hönnuðum í samband við alþjóðlegan markað, t.d. gegnum hátíðir og margskonar tengslanet. Þær sinna jafnframt mikilvægu ráðgjafarhlutverki, bæði innanvert hver á sínu sviði en einnig út á við gagnvart stjórnvöldum og erlendum systurstofnunum. Miðstöðvarnar gegna mikilvægu hlutverki í hnattvæddu samfélagi, bæði beint og óbeint. Þær auðvelda listamönnum og hönnuðum að koma sköpun sinni á framfæri, en einnig virkar starfsemi þeirra sem segull á ferðamenn, þar sem kveikjan að Íslandsferðum er oft forvitni fólks um listir og hönnun. Rekstrarform miðstöðvanna og staða er ólík innbyrðis, sérstaða Kvikmyndamiðstöðvar og Miðstöðvar íslenskra bókmennta er nokkur en rekstur þeirra byggir á lögum, en hinar byggja á samningum við stjórnvöld, þó að undanskilinni sviðslistamiðstöð sem enn hefur ekki verið stofnuð þrátt fyrir áralöng áform þar um. Á yfirstandandi fjárlagaári fengu miðstöðvarnar samanlagt framlag frá mennta- og menningarmálaráðuneyti að upphæð kr. 83,4 milljónir (sbr svar frá mmrn til BÍL 29.09.17, en að auki voru flestar þeirra með einhvers konar samninga við önnur ráðuneyti um tiltekin verkefni. Þar er helst um að ræða atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og utanríkisráðuneyti. Af þessum sökum er hvergi að finna upplýsingar um heildarframlög hins opinbera til miðstöðvanna og framsetning fjárlagafrumvarpsins hjálpar ekki í þeim efnum.
Hönnunarmiðstöð Íslands
Hönnunarmiðstöð er rekin samkvæmt samningi við atvinnuvega- og nýsköpunar-ráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti. Framlag til Hönnunarmiðstöðvar á fjárlögum 2017 er að finna undir hatti þessara tveggja ráðuneyta; kr. 30 milljónir í rekstrarframlag auk 15 milljóna í innleiðingu hönnunarstefnu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og 10 milljóna króna rekstrarframlag frá mennta- og menningarmálaráðuneyti. Hönnunarsjóður að upphæð kr. 50 milljónir er vistaður undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og skv. samningi annast Hönnunarmiðstöð umsýslu hans. Þá annast Hönnunarmiðstöð innleiðingu hönnunarstefnu, en kostnaður við það verkefni hefur ekki verið greindur með fullnægjandi hætti enn sem komið er. Til að treysta mikilvægar stoðir Hönnunarmiðstöðvar þyrfti að gera nýjan samning til fimm ára, sem væri í anda nýrra laga um opinber fjármál. Framlagið til málaflokksins þyrfti að taka mið af þeim árangri sem náðst hefur, umfangi starfseminnar og möguleikum til atvinnusköpunar. Hönnunarmiðstöð hefur fært rök fyrir því að árlegt rekstrarframlag þyrfti að vera 50 milljónir króna auk þess sem tryggja þyrfti svipaða upphæð í verkefnafé fyrir innlend verkefni og alþjóðleg. Þá þyrft Hönnunarsjóður að hafa til ráðstöfunar fjárhæð sem næmi 150 milljónum, slíkt mætti framkvæma í áföngum á næstu árum.
Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar – KÍM
KÍM sinnir kynningu á íslenskri myndlist erlendis þ.m.t. þátttöku íslenskra myndlistarmanna á fjölbreytilegum sýningum stórum sem smáum, auk þess er hún í samstarfi við sendiráð Íslands erlendis um kynningu á samtímalist í sendiráðum og sendiherrabústöðum og skipuleggur sýningar þar með verkum eftir íslenska myndlistarmenn. Stærsta einstaka verkefni KÍM er að annast þátttöku Íslands í Feneyjatvíæringnum, sem hefur vakið verðskuldaða athygli á íslenskum listamönnum og menningu þjóðarinnar á undanförnum árum. Kostnaður við þátttöku í Feneyjatvíæringnum er um 50 milljónir og þyrfti KÍM því árlegt framlag að upphæð 25 milljónir króna til að standa undir þeim kostnaði, en fær einungis 12 milljónir. Rekstrarframlagið sem KÍM fær með samningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið er 25 milljónir, en þyrfti að hækka í 35 milljónir til að geta staðið undir þremur stöðugildum þar sem 15% af rekstrarframlagi menntamálaráðuneytisins fer skv. stofnskrá KÍM í styrki til myndlistarmanna.
Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar – ÚTÓN
ÚTÓN er í raun viðskipta- og markaðsskrifstofa Íslenskrar tónlistar í víðum skilningi. Tilgangur hennar er að leita tækifæra til að efla og skapa sóknarfæri til handa rétthöfum íslenskrar tónlistar innanlands sem utan og auka möguleika íslenskra fyrirtækja og einstaklinga í tónlistarútrás til að ná árangri í alþjóðlegum viðskiptum með tónlist. Þá sinnir ÚTÓN fjölbreyttu ráðgjafarhlutverki og tengslamyndun innan tónlistargeirans en einnig gagnvart stjórnvöldum ÚTÓN annast umsýslu útflutningsjóðs tónlistarinnar, heldur úti tveimur heimasíðum, heldur fræðslukvöld og gefur út fréttabréf. Starfsemi ÚTÓN er rekin fyrir fé frá samtökum tónlistarfélaga á Íslandi og samning við mennta- og menningarmálaráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og utanríkis-ráðuneyti. Framlag ráðuneytanna til rekstrarins er 28 milljónir á yfirstandandi fjárlagaári. Í ljósi þess hversu mikill árangur hefur náðst í starfi skrifstofunnar er orðin veruleg þörf fyrir fleiri hendur á dekk, en til að geta bætt við stöðugildi þyrfti árlegt rekstrarframlag til ÚTÓN að vera 38 milljónir króna.
Tónverkamiðstöð
Hlutverk tónverkamiðstöðvar snýr aðallega að tónhöfundum þar sem miðstöðin safnar öllum íslenskum tónverkum, skannar þau, skráir og gengur frá þeim til varðveislu í Landsbókasafni Íslands. Í safni miðstöðvarinnar eru nú um 10.000 tónverk, sem hægt er að skoða á vef miðstöðvarinnar. Tónverkamiðstöð hefur því sambærilegu hlutverki að gegna gagnvart tónlist og Listasafn Íslands gegnir fyrir myndlist. Nú er svo komið að mun meira berst til miðstöðvarinnar af tónverkum en hún annar að skrá, t.d. liggja nú óskráð um 400 tónverk Atla Heimis Sveinssonar og fleiri stór söfn mætti nefna sem bíða skráningar. Tónverkamiðstöð sinnir einnig kynningarmálum sígildrar- og samtímatónlistar og veitir tónskáldum og flytjendum á Íslandi stuðning eftir bestu getu með miðlun fræðslu og ráðgjöf. Ef miðstöðin ætti að geta annað eftirspurn eftir þeirri þjónustu sem hún veitir þyrfti hún að geta bætt við sig tveimur stöðugildum, en nú eru stöðugildin 1,6 á launum langt undir því sem teljast eðlileg dag. Til að bæta úr því þyrfti að hækka framlagið til miðstöðvarinnar um helming að lágmarki. Samningur Tónverkamiðstöðvar við mennta- og menningarmálaráðuneyti gildir til 2018 og gerir ráð fyrir 15 milljóna króna árlegu framlagi, en ef vel ætti að vera þyrfti framlagið að vera helmingi hærra eða 30 milljónir.
Kynningarmiðstöð íslenskra sviðslista – KÍS
Íslensk sviðslistamiðstöð er óstofnuð enn, en Sviðslistasamband Íslands hefur stefnt að stofnun slíkrar miðstöðvar um árabil. Á vordögum árið 2016 skilaði starfshópur af sér skýrslu með stefnumótun ásamt tillögum að rekstrarumhverfi og starfsreglum. Fjárhagsáætlun hópsins gerir ráð fyrir stofnframlagi frá ríkinu og árlegu rekstarframlagi til ársins 2020. Þó ekki hafi enn orðið af stofnun miðstöðvarinnar, bindur Sviðslistasamband Íslands miklar vonir við að þetta verði að veruleika 2018. Ef fjárhagsáætlunin frá 2016 er uppfærð til núverandi verðlags þarf stofnframlag ríkisins að vera kr. 22.000.000.- og árlegt framlag vegna reksturs til ársins 2022 kr. 27.500.000.-. Stofnun Kynningarmiðstöðvar íslenskra sviðslista helst í hendur við nýja löggjöf um sviðslistir, sem hefur verið kynnt á Alþingi nokkrum sinnum á undanförnum árum og er á málaskrá nýrrar ríkisstjórnar, eins og hún hefur raunar verið hjá síðustu þremur ríkisstjórnum. Einnig hefur verið settur á laggirnar starfshópur á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis sem fengið hefur það verkefni að yfirfara hlutverk og samstarf miðstöðva lista og hönnunar, þ.m.t. sviðslista þó sú miðstöð sé enn óstofnuð. Það bendir því allt til þess að ríkir vilji sé fyrir því að stofna miðstöð íslenskra sviðslista, en fjármagn til þess verkefnis hefur ekki enn fengist og því miður eru engin merki um að það sé að finna í fjárlagafrumvarpi 2018.
Dansverkstæðið
Frá stofnun Dansverkstæðisins árið 2010 hefur það gegnt mikilvægu og vaxandi hlutverki sem húsnæði fyrir sjálfstætt starfandi danshöfunda og dansara auk þess sem aðrir sviðslistamenn hafa nýtt sér aðstöðuna. Dansverkstæðið hefur verið heimili danslistarinnar, vettvangur fyrir skapandi vinnu, þjálfun, félagsstarf, fundi og ráðstefnur um fagið. Starfsemin var rekin í lélegu húsnæði við Skúlagötu fram á mitt ár 2017, en þurfti þá að fara þaðan vegna byggingarframkvæmda á reitnum. Fyrir milligöngu Reykjavíkurborgar hefur tekist að tryggja starfseminni nýtt húsnæði á Hjarðarhaga 47-49, þar sem öll aðstaða verður til fyrirmyndar. Þar með verður bætt úr brýnni þörf danslistamanna og sviðslistahópa fyrir æfinga- og þjálfunarhúsnæði auk þess sem Íslenska óperan áformar að nýta það sem æfingahúsnæði. Nýja húsnæðið er þrisvar sinnum stærra en það gamla og að sama skapi dýrara, en Reykjavíkurborg gerir þetta kleift með því að hækka árlegt framlag sitt úr 2 milljónum í 15 milljónir. Það dugar þó ekki til og hafa forsvarsmenn Dansverkstæðis óskað eftir því við mennta- og menningarmála-ráðuneytið að framlagið frá ríkinu verði hækkað úr núverandi 2 milljónum í 7 milljónir á ári og að gerður verði samstarfsamningur til ársins 2020.
List fyrir alla
List fyrir alla er barnamenningarverkefni á vegum mennta og menningarmálaráðuneytisins, stofnsett 2016. Verkefninu er ætlað að miðla listviðburðum til barna og ungmenna um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Höfuðáhersla er lögð á list fyrir börn og list með börnum. Á síðastliðnum vetri 2016 – 2017 heimsóttu 12 listverkefni 107 grunnskóla og sýndu fyrir samtals 6325 börn auk þess sem boðið var upp á kennsluvefefni á vegum Norræna hússins sem var aðgengilegt öllum grunnskólum landsins rafrænt. Um 60 verkefni sóttu um þátttöku síðastliðið vor og voru 17 verkefni valin til að heimsækja alla grunnskóla landsins yfir veturinn. Þó verkefninu sé ætlað að ná til allra grunnskólanema þá er langt í land að því marki verði náð, en tölur benda til að verkefni Listar fyrir alla hafi náð til 15% grunnskólabarna sl. vetur. Hugmyndir um þróun verkefnisins eru skýrar en til að þær nái fram að ganga þarf að koma til aukið framlag. Til að tryggja að öll börn og ungmenni á Íslandi (líka leikskólabörn og ungmenni á framhaldsskólaaldri) hafi aðgang að listviðburðum í hæsta gæðaflokki óháð búsetu og efnahag þarf að hækka framlagið til verkefnisins úr 18,5 milljónum sem það fær 2017 í 45 milljónir á næstu fimm árum. Það mætti gera með því að hækka framlagið um 5 milljónir á ári fram til 2022, eða sem nemur gildistíma fyrirliggjandi fjármálaáætlunar.
Listaháskóli Íslands
Sú menntastofnun á háskólastigi, sem ber uppi menntun listamanna og hönnuða, er Listaháskóli Íslands, sem hefur þá sérstöðu í flóru listaháskóla að ein og sama stofnunin sinnir menntun á fræðasviði lista ólíkt því sem tíðkast í löndunum sem við berum okkur saman við. Hugmyndin með stofnun skólans á grunni gömlu sérskólanna (Leiklistarskóla Íslands og Myndlista- og handíðaskóla Íslands) var sú framsækna hugsun að framfara væri að vænta í háskólastofnun þar sem ólíkar list- og hönnunargreinar nytu nálægðar hver við aðra. Því miður hefur orðið bið á að sú hugmynd samlegðar næði fram að ganga þar sem skólinn er enn, tæpum tuttugu árum síðar, rekinn á fimm stöðum í borginni. Húsnæði skólans er í slæmu ástandi, sumar byggingarnar eru heilsuspillandi en aðrar óhentugar, engin þeirra er byggð sem skólahúsnæði. Þrátt fyrir þær aðstæður sem listnámi á háskólastigi eru búnar fékk LHÍ hæstu mögulegu einkunn í síðustu úttekt gæðaráðs íslenskra háskóla, sem fór fram 2015. Skólinn hefur glímt við rekstrarerfiðleika, eins og allir háskólar í landinu og í frumvarpi til fjárlaga 2018 er nokkur hækkun á rekstrarframlagi til skólans, sem ber að fagna. Einnig er það ánægjuefni að áform um úrbætur á húsnæðismálum skólans skuli að finna í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Það er von BÍL að ekki þurfi að bíða eftir að vinna við þau mál fari af stað og mikilvægt að ríkisstjórn og Alþingi leggist saman á árarnar við að fjármagna það verk.
Lokaorð
Eitt mikilvægasta verkefnið sem list- og menningargeirinn stendur frammi fyrir er að hefja vinnu við kortlagningu list- og menningartengdrar starfsemi. Afla þarf upplýsinga um fjármögnun og efnahagsleg áhrif lista og menningar, en ekki síst þurfum við að átta okkur á starfsumhverfi listamanna. Eins og stendur getum við ekki tekið þátt í Norrænum rannsóknum um listageirann t.d. varðandi samanburð á starfsumhverfi norrænna listamanna, vegna þess að tölfræðin hér á landi er svo ófullkomin. Af þessum sökum fagnar BÍL sérstaklega áformum sem fram koma í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar um gerð hagvísa lista og menningar og lýsir yfir vilja til að koma að því verki.
Af öðru því sem sáttmáli nýrrar ríkisstjórnar nefnir og BÍL horfir til er ákvörðun um niðurfellingu virðisaukaskatts af bókum og tónlist. Vissulega olli það nokkrum vonbrigðum að þess skyldi ekki sjá stað í því fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi, en vonir BÍL standa til þess að strax á nýju ári verði gerð áætlun um það með hvaða hætti stjórnvöld ætla að nálgast það verkefni og að framkvæmdin verði ekki dregin úr hömlu. Einnig má nefna áform nýrrar ríkisstjórnar um eflingu starfslaunasjóða listamanna og verkefnatengdra sjóða. Það er mikilvægt að stjórnvöld þekki sjónarmið fagfélaga listamanna þegar vinnan við það langþráða verkefni hefst og að áætlun um þá eflingu verði kynnt sem fyrst á nýju ári.
Að lokum er þess óskað, þó skammur tími sé þar til þingið þarf að afgreiða fjárlög, að stjórn BÍL fái að senda fulltrúa á fund fjárlaganefndar til að svara spurningum þeim sem nefndarmenn kunna að hafa um málefni þau sem hér eru til umfjöllunar.
Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar BÍL – Bandalags íslenskra listamanna
Kolbrún Halldórsdóttir, forseti