Á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu í dag var kynnt ný könnun um fjármögnun kvikmynda, sem unnin hefur verið fyrir SÍK – Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, FK – Félag kvikmyndagerðarmanna og SKL – Samtök kvikmyndaleikstjóra.

Ákvörðun stjórnvalda um að efna ekki samning menntamálaráðuneytis og Kvikmyndamiðstöðvar Íslands á yfirstandandi fjárlagaári varð hvatinn að könnuninni. Sendur var út spurningalisti til framleiðenda 140 kvikmyndaverka og bárust svör frá 112 eða um 80%. Meginniðurstöður könnunarinnar varðandi fjármögnun íslenskra kvikmyndaverka eru þær að stærstur hluti fármagnsins kemur erlendis frá eða 43,7%, innlent fjármagn (að undanskyldu því sem kemur frá opinberum aðilum) er 33,8% og styrkir frá Kvikmyndamiðstöð og endurgreiðslur iðnaðarráðuneytis nema 22,5 %. Á árunum 2006 – 2009 lagði íslenska ríkið alls tæplega 2,7 milljarða til kvikmyndaverkefnanna sem könnunin nær til og má gera ráð fyrir að þessi sömu verkefni hafi skilað rúmum 2,7 milljörðum til baka til ríkisins í formi skatta og tryggingargjalds. Könnunin er aðgengileg á slóðinni www.producers.is.