6. mars 2010 Síðustu daga hefur farið fram nokku umræða í fjölmiðlum um nýafstaðna úthlutun úr launasjóðum listamanna. Kemur hún í kjölfar frétta af miklum niðurskurði til kvikmyndagerðar á fjárlögum islenska ríkisins og ákvörðun útvarpsstjóra um samdrátt í kaupum á sjónvapsefni frá sjálfstæðum framleiðendum. Hefur ýmislegt verð látið flakka í hita leiksins, sumt miður skynsamlegt.
Í Fréttablaðinu í dag birtist viðtal við Dag Kára Pétursson kvikmyndaleikstjóra, þar sem hann er spurður hvort þessi umræða „um lopatreflana í 101 sem liggja á spena ríkisins“ fari í taugarnar á honum. Svarið er þess virði að birta það hér:
Þetta fer ekki bara í taugarnar á mér heldur tek ég þessa umræðu nærri mér. Maður er að vinna heiðarlega vinnu við erfið skilyrði og skila þjóðarbúinu auði, bæði í beinhörðum peningum og menningarlegum verðmætum. Þá er leiðinlegt hvað það er algengt að maður mæti því viðhorfi að maður sé á einhverju ríkisstyrktu egóflippi. Það er eins fjarri sannlekanum og hugsast getur. Ég lýsi eftir meiri viðsýni og innsýn í hvernig málunum er háttað.
Í þessu sambandi er einnig bent á grein eftir Pétur Gunnarsson, formann Rithöfundasambands Íslands, sem birtist í þessu sama Fréttablaði. Greinin er birt í heild sinni undir yfirskriftinni „Greinar“ (Hinn árlegi héraðsbrestur).