23. mars 2010 Sameiginlegur fundur stjórnar BÍL – Bandalags íslenskra listamanna og mennta- og menningarmálaráðherra var haldinn í dag. Fundinn sátu einnig nokkrir starfsmenn menningarskrifstofu ráðuneytisins auk ráðuneytisstjóra. Í gildi er samstarfssamningur milli þessara aðila sem gerir ráð fyrir samstarfi um mál er varða listir og listamenn almennt, stuðning við ný listform, kynningu á íslenskri list erlendis og fjölþjóðlegt samstarfi á sviði lista. Tilgangur samningsins er samstarf við mörkun og framkvæmd stefnu á sviði menningarmála, með það að markmiði að fyrir hendi séu jafnan sem gleggstar upplýsingar um listalífið í landinu og þróun þess. Framkvæmd samningsins felur það í sér að BÍL lætur mennta- og menningarmálaráðuneytinu í té umsagnir, álitsgerðir, upplýsingar og ráðgjöf um mál sem ráðuneytið vísar til BÍL.
Á fundinum lagði stjórn BÍL fram sjónarmið um eftirtalda þætti:
- BÍL einn af lykilráðgjöfum. Skýra þarf framkvæmd samstarfs BÍL og ráðuneytisins, í hvers konar málum/tilfellum ráðuneytið leitar til BÍL með umsagnir, álitsgerðir, upplýsingar, ráðgjöf, etc. Æskilegt væri að koma upp verklagsleglum til að tryggja samræmi frá ári til árs.
- Upplýsingar um listalífið í landinu og þróun þess. Þekkingu skortir; Hagstofan heldur utan um ákveðnar tölulegar upplýsingar,en mikið vantar á að þjóðhagsstærðir um listir og menningu liggi fyrir. Skerpa þarf á hlutverki Hagstofunnar um hvað beri að skrá og tryggja þarf samanburðarhæfni upplýsinga við tölfræði hinna Norðurlandanna.
- Fjárhagsleg afkoma BÍL og niðurskurður 2010. Framlag ríkisins til BÍL er skv. samstarfssamningnum 2,3 millj. á ári, í ár var það skorið um 500 þús. kr. eða 22%. Samstarfssamningur við Reykjavíkurborg hefur ekki fengist endurnýjaður.
- Kynning á íslenskri list erlendis og fjölþjóðlegt samstarf á sviði lista. Rétt er að koma á framfæri sjónarmiðum BÍL varðandi Íslandsstofu og hér mætti líka rifja upp skuldbindingar stjórnvalda gagnvart UNESCO (Recommendation on the Status of the Artist og Convention on the Protection and Promotion of the Diversity of the Cultural Expressions)
- Ný staða í kjölfar tæknibyltingar. Tækni til miðlunar efnis er komin á það stig að leikur einn er að dreifa efni án þess að gjaldtaka komi fyrir. Um leið er höfundarréttur í uppnámi. Tímabil hinnar “ókeypis” miðlunar er runnið upp, dagblöð riða til falls, útgáfa tónlistar er í uppnámi og bókaútgáfan sér sína sæng upp reidda. Til að þessi þróun leiði til sköpunar í stað eyðingar þarf samfélagið allt að koma að málum í mun ríkara mæli en hingað til.
- Ríkisútvarpið. BÍL telur mikilvægt að því sem segir um listir og menningu í þjónustusamningi RÚV ohf. sé fylgt eftir. Þá telur BÍL nauðsynlegt að sett verði á laggirnar fagnefnd sem starfi með útvarpsstjóra, í þeim tilgangi að móta og fylgja eftir dagskrárstefnu stofnunarinnar.
- Útvarpsleikhúsið þurfti að hætta framleiðslu leikverka í sex mánuði á síðasta ári og nú blasir hið sama við 2010. Útvarpsleikhúsið hefur alltaf lagt áherslu á íslensk leikrit og leikgerðir og er mikilvægur atvinnuvettvangur höfunda, leikara og leikstjóra, tónskálda, tónlistarmanna. Nauðsynlegt er að útvarpsleikhúsinu verði gert kleift að starfa af krafti allan ársins hring.
- Kvikmyndamiðstöð Íslands. Samningur ráðuneytisins við kvikmyndagerðarmenn þarf að öðlast gildi á nýjan leik. Þó ráðherra hafi reynt að bæta fyrir niðurskurðinn á fjárlögum í ár verður að taka af öll tvímæli um framlög 2011 og á næstu árum. Einnig þarf atbeina stjórnvalda um innlenda dagskrárgerð og efniskaup af sjálfstæðum framleiðendum hjá RÚV.
- Listamannalaun. Mikilvægt er að komast að því hvers vegna ekki gengu eftir fyrirheit ráðherra um 145 mánaða aukningu í launasjóði listamanna. Hvers vegna var ákveðið að fjölga þeim einungis um 125? Verður staðið við aukningu úr 1200 í 1600 mánuði 2012?
- Hugverk skilgreind sem eign í skilningi skattayfirvalda. BÍL hefur um árabil lagt áherslu á að skattlagning tekna fyrir endurleigu hugverka taki mið af skattlagningu eignatekna.
- Lottómál. BÍL hefur vakið athygli á séríslensku fyrirkomulagi á ráðstöfunar ágóða af starfsemi Íslenskrar getspár. Í nágrannalöndunum njóta menning og listir þessa ágóða að stórum hluta.
- Listaverkaeign Landsbanka Íslands. Nýta þarf tækifærið, meðan Landsbankinn er enn í eigu þjóðarinnar, til að tryggja að listaverkaeign hans verði falin Listasafni Íslands til varðveislu.
- Lista- og menningarstefna. BÍL lítur svo á að það mál sé í farvegi með undirbúningi ráðstefnu ráðuneytisins 30. apríl og vinnu sem kæmi í kjölfarið. Mikilvægt er að opna virkan samráðsvettvang, sem tæki m.a. til kennslu í list- og verkgreinum á öllum skólastigum.
- Listaháskóli Íslands. Mikilvægt er að áform um meistaranám í listgreinunum gangi eftir, nú er unnið að undirbúningi meistaranáms í arkitektúr, tónlist og leiklist.
- Mannvirkjagerð. Um tveir þriðju hlutar þjóðarauðsins bundnir í mannvirkjum. Vergar tekjur af mannvirkjagerð voru að jafnaði um 10% af landsframleiðslu og um 7% af vinnuafli landsmanna starfaði við mannvirkjagerð. Gífurleg fjárbinding er í mannvirkjum landsmanna en ekki liggja fyrir neinar rannsóknir á verðmæti þeirra í víðum skilningi. Menntun og rannsóknir í mannvirkjagerð beinast eingöngu að tæknilegum og hagrænum þáttum mannvirkjagerðar. Fegurð, varanleiki og notagildi eru þættir sem minni áhersla er lögð á Nauðsynlegt er að auka menntun á sviði byggingarlistar á öllum skólastigum, en þó fyrst og fremst á háskólastiginu og meðal þeirra sem starfa í greininni. Meistaranám í arkitektúr við Listaháskóla Íslands er aðkallandi og jafnframt að skoðaðir verði kostir þess að kenna innanhússarkitektúr og landslagsarkitektúr við sama skóla.
- Fjárhagslegur stuðningur við tónlistar- og listdansskóla. Áform hafa verð uppi um ný lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla sem og skiptingu skólastiga í listnámi. Mikilvægt er að sú vinna verði leidd til lykta og niðurstaðan varðandi tónlistarskólana verði einnig látin gilda um sambærilega dansskóla.
- Tónlistarhús. Fagnaðarefni að fagaðilar tónlistarlífsins skuli nú eygja tækifæri til að koma að stefnumótun listrænnar starfsemi í Hörpu með stofnun ráðgefandi listráðs sem starfa á með yfirstjórn hússins. Þetta er mikilvægt skref til að koma á samvinnu og einingu milli þeirra sem láta sig starfsemi hússins varða, og bera hag þess og íslensks tónlistarlífs fyrir brjósti.
- Kreppan og niðurskurðurinn. Í listsköpun er fólgin tilraun til að ná áttum, sem gerir hana að ómissandi þætti í enduruppbyggingunni. Þá væri ómaksins vert að hugleiða með ráðherra hvernig vinnu listamanna er háttað. Eðli málsins samkvæmt er hún að stórum hluta sjálfboðavinna, aðeins brot af vinnu listamanna er metið til launa. Verk sem tók hugsanlega 4 ár að skapa er metið til launa sem svara til 3 mánaða framlags skrifstofumanns. Og síðan ekki söguna meir þótt verkið kunni að halda áfram að vera virkt í hugbúnaði þjóðarinnar[1]. Þá ber að hafa í huga að listamaðurinn er ýmist beinlínis eða óbeinlínis tilefni annarrar starfsemi sem gætir í skólum, fjölmiðlum, skemmtanahaldi og mannfagnaði hverskonar, auglýsingagerð, bókaútgáfu…. þannig að með niðurskurði á styrkjum til lista er ekki aðeins verið að fækka listaverkum heldur gera samfélagið allt að mun fátækara.
[1] Starfslaun listamanna eru kr. 266.737.- á mánuði, en sá sem telur einungis fram tekjur af reiknuðu endurgjaldi verður að reikna það af lágmarksgreiðslu sem nemur kr. 414.000.- annars lítur skatturinn svo á að viðkomandi sé einungis í hlutastarfi.