29. apríl er alþjóðlegi dansdagurinn haldinn hátíðlegur. FÍLD, Félag Íslenskra Listdansara býður til veislu af því tilefni á Dansverkstæðinu við Skúlagötu, heimili sjálfstæða dansgeirans; DANS ÆÐI og LUNCH BEAT kl. 10.00 – 16:00

Dans Æði er lifandi safn um dans fyrir börn á aldrinum 4-12 ára. Í safninu verður hægt að hitta dansara, vera dansari, sjá dans og jafnvel skapa dans á veggjunum. Höfundur og listrænn stjórnandi er Aude Busson.

Milli 12:00 og 13:00 verður Lunch Beat Special danspartý í boði Choreography Reykjavík. Plötusnúðurinn verður danshöfundurinn. dansarinn, plötusnúðurinn og formaður FÍLD, Melkorka Sigríður Magnúsdóttir.

Hádegismatur verður í boði FÍLD klukkan 13:00 og við hvetjum fólk til að staldra við eftir dansinn og njóta veitinga saman.

Markmið dansdagsins er að yfirstíga pólitískar, menningarlegar og siðfræðilegar hindranir. Færa fólk nær hvert öðru í friði og vináttu með þessu landamæralausa tungumáli sem við eigum öll sameiginlegt – dansinum sjálfum. Nú er kominn tími til að reima á sig dansskóna og dansa sig inn í vorið!

Nánar um FÍLD:
Félag íslenskra listdansara (FÍLD) er sameiginlegur vettvangur listdansara, listdanskennara, danshöfunda, listdansskóla, listdanshópa og dansflokka á Íslandi. FÍLD leiðir baráttu sinna aðilafélaga gagnvart stjórnvöldum og öðrum hagsmunaaðilum, það vinnur að auknu rými fyrir dans og sýnileika hans sem og bættu starfsumhverfi þegar kemur að aðstöðu og aðbúnaði fyrir listdans á Íslandi. FÍLD vinnur að því að byggja upp samhæfingu og samhug milli ólíkra aðildafélaga sinna og virkja sameiginlega kraft þeirra til þess að mæta síbreytilegum áskorunum samtímans af ábyrgð og áræðni.

Allar nánari upplýsingar veitir:
Melkorka Sigríður Magnúsdóttir
690-5266
formadur@fild.is