Aðalfundur 2012
Aðalfundur SKL var haldin mánudaginn 20.febrúar 2012.Skráðir félagar voru 55. Stjórn gaf aftur kost á sér eftir tveggja ára setu og var endurkjörin án mótframboðs til tveggja ára. Hún er skipuð undirrituðum sem er formaður, Hilmari Oddssyni gjaldkera, Óskari Jónassyni ritara og meðstjórnendum Silju Hauksdóttir og Friðrik Þór Friðrikssyni. Stjórnin fundaði 12 sinnum á starfsárinu og voru flestir fundir haldnir á Hótel Borg, fyrsta mánudag í hverjum mánuði.

Kvikmyndasjóður og aukin opinber framlög
Stjórn SKL hefur haft það að megin takmarki síðustu þrjú ár að tryggja aukin farmlög til kvikmyndasjóða eftir niðurskurðinn 2010. Með nýjum samningi við Mennta og Menningarmálaráðuneytið og svo nýtilkominni tvöföldun sjóðsins 2013-2015 í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar má segja að því takmarki hafi verið náð og við uppskerum eftir stífa þriggja ára baráttu. Tryggja þarf þessi auknu framlög og binda þau í samning og hefur Menningarmálaráðherra Katrín Jakobsdóttir lýst yfir vilja til þess. Í þessu máli hefur verið mikil samstaða milli fagfélaga í kvikmyndagerð og samstarf einstaklega gott.
Stjórn hefur setið fundi með forsvarsmönnum KMÍ þar sem við höfum fengið að koma með okkar athugasemdir og hugmyndir um framtíðartilhögunn úthlutuna í kjölfar stóreflingar sjóðsins. Frumdrög voru kynnt nú eftir áramótin og eru enn í mótun.

Bíó Paradís
Bíó Paradís er sjálfseignastofnun sem SKL er hlutaðeigandi að ásamt FK og SÍK og er meðlimur í Europa Cinemas og CICAE. Bíóið er á þriðja starfsári og hefur sannað sig sem vagga kvikmyndamenningar með fjölbreyttu framboði kvikmynda. Á hverju ári sýnir Bíó Paradís um 250 kvikmyndir frá 40 löndum. Framkvæmdastjóri er Hrönn Sveinsdóttir og Ásgrímur Sverrisson hefur gengt starfi dagskrárstjóra. Fyrir hönd SKL sitja Ragnar Bragason & Friðrik Þór Friðriksson í stjórn Heimilis Kvikmyndanna.

Bíó Paradís glímir við mikin rekstrarhalla þó stígandi sé góður. Velta var um 100 milljónir á árinu en styrkir eru aðeins um 18%. Í augnablikinu er áhersla lögð á að koma á þjónustusamningum við ríki og borg í tengslum við sýningar fyrir börn tengdu námsefni í kvikmyndalæsi. Unnið er hörðum höndum að fjármögnun nýs stafræns sýningarbúnaðar og ef allt gengur að óskum verður hann tekin í notkun nú í mars. Félagar eru hvattir til að leggja sitt að mörkum til að auka veg hússins.

Fulltrúar SKL í öðrum stjórnum og félögum
ÍKSA
Silja Hauksdóttir og Árni Óli Ásgeirsson sitja fyrir hönd SKL í stjórn ÍKSA.
Íslenska kvikmyndaakademían heldur Edduverðlaun á ári hverju og félagar eru um 550. Edduhátíðin vakti þónokkra athygli þetta árið og stóð ræða heiðursverðlaunahafa Kristínar Jóhannesdóttur upp úr og var hvatning til kvenna og áskorun um aukin hlut þeirra í íslenskri kvikmyndagerð.

BÍL
Ragnar Bragason situr sem fulltrúi SKL í BÍL, en Bandalag íslenskra listamanna er mikilvægur sameiginlegur vettvangur fyrir listgreinarnar í landinu er vinnur að hagsmunamálum. S.s skattalegri stöðu, samstarfi við ríki og borg um menningu og listir, kortlagningu skapandi greina, málefni RUV, höfundarrétt, umsagnir um þingmál ofl.

FERA
Hilmar Oddson sat að venju aðalfund félags evrópskra kvikmyndaleikstjóra í Kaupmannahöfn í júní síðastliðnum.

RUV
Lárus Ýmir Óskarsson situr sem varamaður í stjórn RUV

Önnur verkefni á árinu:
Handritsvinnusmiðja SKL hefur nú verið haldin í þrjú skipti í samstarfi við KMÍ. Leiðbeinendur hafa verið Ari Kristinsson, Elísabet Ronaldsdóttir og Einar Kárason og hefur verið mikil ánægja með þetta framtak sem stuðlar að auknu samtali og samstarfi meðal kvikmyndahöfunda. SKL hefur hug á að starfrækja vinnusmiðjuna áfram með svipuðu fyrirkomulagi og er vilji innan Kvikmyndamiðstöðvar að taka þátt í því.

Kvikmyndaskoðunar-kvöld SKL voru haldin nokkrum sinnum á síðasta ári þar sem íslenskar kvikmyndir voru sýndar í Bíó Paradís með þáttöku leikstjóra og höfunda. Þetta framtak fór vel af stað en dræm þáttaka varð til að ekki varð framhald á.

Masterclass. Ósk kom um samstarf frá pólskum kollegum okkar um að halda sameiginleg Masterclass-workshop á næstu árum þar sem reyndir og þekktir leikstjórar miðla af reynslu og visku til þeirra sem yngri eru – á stöðum víðsvegar um Evrópu. Árni Óli Ásgeirsson og Hilmar Oddsson fóru til Póllands á fund á árinu og verkefnið er í vinnslu.

Kvikmyndamenntun á háskólastigi.
Formaður tók nú eftir áramótin sæti í nefnd á vegum Listaháskóla Íslands – ásamt Hrafnhildi Gunnarsdóttur formanni FK og Sveinbirni Baldvinssyni prófessor við Norska kvikmyndaskólann – sem tók að sér tillögugerð um smíði kvikmyndadeildar á háskólastigi innan LHÍ. Markmiðið er að útskrifa í framtíðinni kvikmyndagerðarmenn á sviði Leikstjórnar, handritsgerðar, kvikmyndatöku, klippingu, hljóðs og framleiðslu. Skoðaðar verða þverfaglegar tengingar, samlegðaráhrif og samstarfsmöguleikar við aðrar deildir innan skólans; tónlist, leiklist, hönnunar og myndlist. Þetta kemur til í framhaldi af úttekt Mennta og Menningarmálaráðuneytis á kvikmyndamenntun á Íslandi og framtíðarskrefum.

RUV og ný stefna
Jákvæð þróun hefur orðið í Efstaleiti með nýrri stjórn og dagskrárstjóra í fullu starfi. Stjórn SKL sendi forsvarsmönnum RÚV bréf, þar sem lagt var til að leitað væri til kvikmyndaleikstjóra og kvikmyndahöfunda um sköpun nýs efnis. Í framhaldi átti formaður fund með Skarphéðni Guðmundssyni sem lýsti yfir miklum vilja til að auka veg íslenskrar kvikmyndagerðar innan stofnunarinnar, sérstaklega með auknu leiknu efni. Sama viðhorf má finna hjá stjórn RUV en spurt er að leikslokum þegar kemur að framkvæmd.

Framtíðarverkefni
Fjármál SKL. Tekjur af IHM sjóði fara þverrandi og mjög mikilvægt er að koma á nýjum tekjustofnum fyrir félagið. Þetta er í forgangi hjá stjórn.

Grunnsamningur leikstjóra við framleiðendur. Uppkast er komið að viðmiðunarsamningi og formaður SÍK Hilmar Sigurðsson hefur tekið vel í hugmyndir um fund þar sem þau drög eru rædd.

Aukin hlutur kvenna í kvikmyndaleikstjórn. Stjórn óskar eftir hugmyndum og samtali um hvernig hægt sé að auka fjölda kvenna í kvikmyndaleikstjórn og með hvaða hætti er hægt að byggja upp jafnara hlutfall kynjanna til framtíðar.

Kvikmyndalæsi. SKL í samstarfi við önnur fagfélög í kvikmyndagerð, Bíó Paradís og opinbera aðila ætla að stuðla og taka þátt í að móta aukna kennslu í kvikmyndalæsi á grunnskóla og framhaldsskólastigi. Til lengri tíma tel ég að mikilvægt sé að tryggja stoðir kvikmyndamenningar í landinu, með aukinni hagræðingu, samlegð og skilvirkni t.d með sameiningu Bíó Paradísar við alþjóðlegar kvikmyndahátíðir og sýningarhluta Kvikmyndasafns Íslands.

Ragnar Bragason / 28.febrúar 2013