Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Mörður Árnason, frambjóðandi í Reykjavík, sátu hádegisverðarfund með stjórn BÍL mánudaginn 30. apríl. Fundurinn var vel sóttur og umræður stóðu í tvær klukkustundir.

Í upphafi fundar lýsti Ágúst Guðmundsson, forseti BÍL, ánægju sinni yfir að sjá í stefnuskrá Samfylkingarinnar að hún vilji skattleggja tekjur af hugverkum með svipuðum hætti og fjármagnstekjur. Ingibjörg Sólrún tæpti á öðrum atriðum í menningarstefnunni. Báðir gestirnir komu inn á tillögur Samfylkingarinnar um skattaívilnanir vegna gjafa og framlaga til mannúðar- og menningarmála og Mörður útdeildi tillögu þeirra til þingsályktunar um þau mál. Svo var vitaskuld, meðal margs annars, rætt um Ríkisútvarpið, sem fundarmenn voru almennt á að væri enn ekki orðin sú menningarstofnun sem vonir hefðu staðið til.