Árlegur fundur BÍL með borgarstjóra var haldinn í Höfða 23. apríl sl. Í upphafi fundar rituðu Ágúst Guðmundsson forseti BÍL og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri undir nýjan samstarfssamning þar sem BÍL eru tryggðar milljón krónur árlega næstu þrjú árin, en á móti kemur ýmis þjónusta sem BÍL lætur borginni í té.

Formenn aðildarfélaganna komu á framfæri ýmsum af sínum hjartans málum og umræður voru fjörugar. Auk borgarstjóra sátu nokkrir borgarstarfsmenn fundinn, auk Menningar og ferðamálaráðs.

Í samantekt sinni í lok fundarins hafði borgarstjóri góð orð um að ýmislegt gæti ræst af óskalista BÍL, m.a. ráðstefna um byggingarstefnuna í Kvosinni eftir brunann um daginn, húsnæði fyrir myndlistarmenn úti á Granda og að fundi yrði komið á við Samband íslenskra sveitarfélaga um listkynningu í skólum. Hann lýsti yfir eindregnum áhuga sínum á að setja upp skilti til að gera menningarsögu Reykjavíkur sýnilega. Sama gerði Kjartan Magnússon, formaður Menningar og ferðamálaráðs.

Jón Kristinn Snæhólm rakti undirbúningsstarf að kvikmyndaborginni Reykjavík. Hann og borgarstjóri ræddu ennfremur um framtíð Tjarnarbíós, þar sem fyrirhugað er að Sjálfstæðu leikhúsin verði til húsa ásamt Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík.

 

Umræðupunktar fyrir fund borgarstjórans í Reykjavík með Bandalagi íslenskra listamanna

Á stjórnarfundi BÍL 18. apríl 2007 var ákveðið að leggja fram eftirtalin umræðuefni fyrir fund okkar með borgarstjóra og öðrum fulltrúm borgarinnar:

 

1.

Sé menningarstefna Reykjavíkurborgar skoðuð, er eðlilegt að spurt sé hvort framlög til lista og menningar séu í rauninni nægilega há til að metnaðarfull áform nái fram að ganga. Almennt er stjórn BÍL þeirrar skoðunar að þeir fjármunir, sem til hinna ýmsu listgreina fara, nýtist vel og að afurðirnar skili sér til samfélagsins með margvíslegum hætti. Á þessu sviði er borgin að fá mikið fyrir lítið, að okkar áliti. Yrðu framlög til menningar og lista aukin, mætti búast við enn magnaðri afrakstri.

Stundum hendir það okkur að bera stuðning við listir saman við stuðning við íþróttirnar. Mun fleiri sækja listsýningar ýmiskonar en íþróttaleiki. Langvinsælasta íþróttagreinin, knattspyrnan, dregur að þriðjung af þeim fjölda sem sækir leiksýningar í borginni, svo dæmi sé tekið.

 

2.

Við höfum hug á að brúa bilið milli listamanna og skóla. Það sem sagt er um hinar ýmsu listgreinar í aðalnámsskrá grunnskólanna virðist ekki vera uppfyllt. Við höfum hug á að vinna að hentugri og hagkvæmri lausn á málinu og stuðla að auknu samstarfi listamanna og skólafólks.

 

3.

Sjálfstæðu leikhúsin hafa, í samvinnu við Alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Reykjavík, lagt fram tillögur að breyttu Tjarnarbíói. Stjórn BÍL styður þesssar tillögur heilshugar og telur að fyrir tiltölulega lítið fé mætti gera úr Tjarnarbíói eftirsóttan menningarstað í miðbænum.

 

4.

Tónlistarþróunarmiðstöð hefur verið starfrækt í borginni með prýðisárangri. Nú eru blikur á lofti. Stjórn BÍL hvetur til aðgerða svo að starfsemin leggist ekki með öllu af.

 

5.

Ásýnd borgarinnar mætti stórum bæta með átaki í því að setja skildi á hús sem tengjast menningarsögu Reykjavíkur. Tvö dæmi: “Hér bjó Sigvaldi Kaldalóns.” “Hér skrifaði Þórbergur Þórðarson Bréf til Láru.”

 

6.

Sjórn Félags Íslenskra Listdansara (FÍLD) hefur farið yfir Menningarstefnu Reykjavíkurborgar: meginmarkmið og leiðir, með tilliti til listdans og uppbyggingu hans innan borgarinnar.

Niðurstaða er eftirfarandi: af þeim 8 markmiðum sem sett eru fram í menningaráætluninni og 44 leiðum sem útlistaðar eru innan þeirra, eru aðeins tvær leiðir sem jákvæðar eru í garð listdansins. Ljóst er að markmiðum menningarstefnunnar verður ekki náð meðan þessa ójafnvægis gætir í áætluninni.

FÍLD leggur til að farið verði í markvissa uppbyggingu á stefnumótun fyrir listdans í borginni og búin verði til áætlanagerð með skýrum markmiðum. Tilefnið er sterkt og býður FÍLD menningarmálanefnd því faglega aðstoð sína svo að vel megi til takast.

 

7.

Byggingarlist

Stjórn BÍL vill enn á ný þrýsta á borgina að ljúka vinnu við gerð umhverfisgæða- og byggingalistastefnu Reykjavíkurborgar. Drög að gerð hennar lágu fyrir í mars 2004, en endanlegri gerð er enn ólokið. BÍL hvetur borgina til að sem víðtækast samráð verði haft um þá stefnu svo hún verði metnaðarfull og hafi auk þess hljómgrunn í samfélaginu. Við hvetjum til að stefna borgarinnar endurspegli metnaðarfullt samfélag sem vill að í allri

umhverfismótun borgarinnar komi fram jákvæð og skapandi manngildi.

Stjórn BÍL leggur til að borgin taki upp þá stefnu að líta á byggingar sem umhverfislistaverk og setji sér markmið í samræmi við það. Byggingar á hennar vegum uppfylli þannig hæstu gæðakröfur hvað varðar formsköpun, notagildi og efnisval.

Þá leggur stjórn BÍL til að almenn og opin samkeppni með hæfum dómendum og viðurkenndum leikreglum, þar sem leitað er eftir því besta sem samtíminn getur skapað, verði haldið um öll veigamikil umhvefislistaverk, þar með taldar allar byggingar, sem borgin stendur fyrir.

Stjórn BÍL hvetur einnig til þess að stuðlað verði að því í auknum mæli að kennsla á grunnskólastigi um umhverfis- og byggingarlist verði efld í grunnskólum borgarinnar, en útgáfa kennslubókar þess efnis, “Byggingarlist í augnhæð”, er fyrirhuguð í ágúst 2007.

 

8.

Tónlistarhús

Aðalfundur BÍL, 24. janúar 2007, samþykkti ályktun þar sem fundurinn “lýsti yfir ánægju sinni með að hafin sé bygging tónlistarhúss í Reykjavík, sem víst er að muni enn efla hið blómlega tónlistarlíf í landinu.”