Skýrsla Tónskáldafélags Íslands fyir aðalfund BÍL

Stjórn Tónskáldafélags Íslands skipa:
Kjartan Ólafsson, formaður
Hildigunnur Rúnarsdóttur, ritari
Tryggvi M. Baldvinsson, gjaldkeri

Inngangur
Síðastliðið starfsár Tónskáldafélags Íslands var óvenju viðburðaríkt. Fastir liðir eins og venjulega voru ISCM, Myrkir músíkdagar og Norrænir músíkdagar.

Myrkir músíkdagar 2013
Myrkir músíkdagar voru haldnir í lok janúar sl. samkvæmt venju. Á efnisskránni voru m.a. sinfóníutónleikar, sinfóníettutónleikar, kammertónleikar, kórtónleikar, raftónleikar, einleikstónleikar og tónleikar með börnum. Meðal flytjenda voru nokkrar af helstu hljómsveitum, kammerhópum og einleikurum þjóðarinnar, þ.á m. Sinfóníuhljómsveit Íslands sem hóf hátíðina að venju með glæsilegum opnunartónleikum. Þá var haldin fjöldi fyrirlestra og námskeiða í samstarfi við Listaháskóla Íslands og bar þar hæst heimsókn prófessora og nemenda Brandon University í Kanada sem auk þess komu fram á tvennum tónleikum á hátíðinni sjálfri í Hörpu.

Í samstarfi við IMX/Útón bauð Tónskáldafélagið hingað til lands áhrifafólki frá erlendum fjölmiðlum og tónlistarhátíðum. Á meðal gesta voru m.a. Faith Wilson Arts Publicity, UK og Hillary Finns frá The Times – sem þegar hefur birt mjög jákvæða gagnrýni um hátíðina í The Times.

Allir þessir aðilar fjalla um Myrka á sínum vettvangi og hefur hátíðin – sem og nýja tónlistarhúsið Harpa – fengið mjög jákvæða umfjöllun það sem af er.

Stefnt er að því að auka tengsl Myrkra músíkdaga enn frekar við alþjóðlegt tónlistarlíf í framtíðinni en netverk tónlistarhátíða er vaxandi þáttur í starfsemi tónlistarhátíða því það býður upp á aukna fjölbreyttni og fjárhagslega hagræðingu í framkvæmd tónlistarhátíða.

Tónskáldafélagið vinnur nú að verkefninu Connecting Continents en það tengir Myrka músíkdaga við tónlistarhátíðir Evrópu og Bandaríkin. Hugmundin er að velja eitt evrópskt land og eina “borg” í USA eða Kanada hverju sinni og hafa Myrka músíkdaga sem miðpunktinn. Þegar er komin á tengsl við New York, Spán, England, Holland, og Kanada.

Undirbúningur að næstu Myrkum músíkdögum er þegar hafin með þetta verkefni innanborðs en þar eru meðal annars ráðgerðir sinfóníutónleikar með Sinfóníuhljómsveit Íslands, kórtónleikar, strengjakvartettstónleikar og raftónleikar svo eitthvað sé nefnt en hátíðin verður jafnframt í samstarfi við spænsku myndlistar- og tónlistarhátíðina Center for Visual Music.

Liststjórnendur Evrópskra tónlistahátíða og MMD
Á síðustu þremur árum hefur verið starfræktur óformlegur samráðsvettvangur listrænna stjórnenda helstu tónlistarhátíða í Evrópu og var formanni boðið að taka þátt fyrir hönd Myrkra músíkdaga á sínum tíma. Á meðal hátíða þar má nefna Huddersfíeldhátíðina í Bretlandi, Nóvembermúsík í Hollandi, Trans-It hátíðina í Belgíu, MarchMusic í Berlín, Musikkin Viitasaari í Finnlandi, Varsaw Autumn í Pollandi, Ultima í Oslo, Musikin Nova í Helsinki og fl. Nokkrir óformlegir fundir hafa verið haldnir í tengslum við þessar hátíðir og er tilgangurinn að vinna að sameiginlegum verkefnum og koma upp samstarfsneti milli þessara hátíða.

Árangurinn hefur ekki látið á sér standa fyrir Ísland því samstarfsverkefni milli Huddersfield hátíðarinnar í Bretlandi, Transit í Belgíu og Myrka músíkdaga er í gangi. Verkefnið byggir á pöntunum á þremur nýjum tónverkum frá þessum löndum sem voru flutt á öllum þessum hátíðum.

Þá hefur verið ákveðið að stofna til formlegs samstarfs og byggja upp net fyrir skipulagða samvinnu á milli tónlistarhátíða og er undirbúningur þegar hafinn að umsókn til Evrópusambandsins sem mun verða lögð inn n.k. vor.

Samtónn
Samtónn, samtök flytjenda, höfunda og útgefanda, hefur á undanförnum árum unnið að sameiginlegum hagsmunarmálum tónlistarlífsins og styrkt stöðu höfunda, flytjenda, framleiðenda og annarra rétthafa að tónlist. Aðilar að SAMTÓNI eru STEF og SFH, Samtök flytjenda og hljómplötuframleiðanda. Samtökin vinna nú að einu veigamesta hagsmunamáli rétthafa tónlistar í dag en það er tekjuöflun vegna netnota. Samtökin eiga nú þegar í viðræðum við símafyrirtækin og njóta viðræðurnar stuðnings opinberra aðila.

Norrænir músíkdagar
Félagið tók þátt í Norrænum músíkdögum sem haldnir voru í Svíþjóð á s.l. ári. Hátíðin bar merki um þann niðurskurð og breytingar á stuðningi opinberra aðila við tónlistarlífið sem átt hafa sér stað í Svíþjóð á undaförnum árum og var hátíðin umfangsminni en oft áður af þeim sökum.

ISCM
Alþjóðlega tónlistarhátíðin ISCM (International Society for Contemporary Music) var haldin í Belgíu 2012. Þar var verk Önnu Þorvaldsdóttur HRÍM valið til flutnings á hátíðinni fyrir hönd Íslands sem hlaut mjög góðar viðtökur en Anna hlaut einnig Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs á árinu fyrir verkið Dreaming fyrir hljómsveit.

ECF/ECSA
Formaður Tónskáldafélagsins hefur undanfarin fjögur ár setið í aðalstjórn evrópsku tónskáldasamtakanna Europea Composers Forum (ECF) en ECF eru samtök með yfir 30 tónskáldafélögum í Evrópu. Hlutverk samtakanna er að vinna að hagsmunamálum evrópskra tónskálda m.a. gagnvart Evrópustjórninni í Brussel. ECF er jafnframt hluti af þríeykinu ECSA sem eru regnhlífasamtök sem að auki samanstanda af samtökum kvikmyndatónskálda FFACE og samtökum léttra tónhöfunda APCOE. Saman (ECSA ) vinna þessi samtök að erfiðu verkefni í Evrópu en það er réttindabarátta höfunda í netheimum gagnvart útgefendum í Evrópu. Ljóst er að með þessari samstöðu hefur orðið til afl sem Brusselstjórnin verður að hlusta á og taka tillit til. Þá má bæta við að innheimtusamtök í Evrópu eru mjög hlynnt þessari starfsemi enda hefur það sýnt sig að það er mun áhrifameira þegar listamennirnir sjálfir funda með embættismönnum í Brussel um eigin hagsmunamál heldur en löglærðir “plöggarar”.

Fjárhagur Tónskáldafélagsins
Fjárhagur félagsins hefur farið batnandi á undanförnum árum þrátt fyrir sviptingar í fjármálaheiminum og aukin umsvif félagsins.

Í ársreikningi fyrir 2011 er nú búið að setja Myrka músíkdaga og Norræna músíkdaga undir sérstaka liði og kemur nú skýrar fram en áður hvernig fjárstreymi félagsins er varðandi hin ýmsu verkefni félagsins. Allar erlendar og innlendar skuldir (frá 2007-2008) hafa nú verið greiddar upp og var heildarvelta Tónskáldafélagsins á árinu 2011 að öllu meðtöldu rúmar 73 milljónir.

Reykjavík 09. 02. 2013
Kjartan Ólafsson, formaður TÍ