Starfsemi Arkitektafélags Íslands síðastliðið starfsár
hefur verið fjölbreytt eins og lesa má í ársskýrslu stjórnar sem má finna í heild sinni á vef félagsins www.ai.is. Þar er gerð grein fyrir starfsemi og rekstri félagsins og stiklað á stóru um helstu mál sem voru til umfjöllunar stjórnar og starfshópa AÍ á árinu 2012.
Félagsmenn í Arkitektafélagi Íslands eru 391. Þar af greiða 256 félagar árgjald. Heiðursfélagar eru 2.
Á síðasta aðalfundi Arkitektafélags Íslands, sem haldinn var 28. nóvember 2012 voru eftirfarandi fulltrúar kjörnir í stjórn:
Sigríður Ólafsdóttir, formaður
Logi Már Einarsson, gjaldkeri og varaformaður
Hrólfur Karl Cela, ritari
REKSTUR OG SKRIFSTOFA
Á skrifstofu AÍ eru 2 fastir starfsmenn þau, Hallmar Sigurðsson framkvæmdastjóri AÍ (60% starf) og Helga Sjöfn Guðjónsdóttir gjaldkeri/ritari (70% starf).
Dr. Kristín Þorleifsdóttir verkefnastjóri Vistmenntar hefur einnig starfað á skrifstofunni mestan hluta ársins 2012.
Tekjustofnar félagsins eru félagsgjöldin annars vegar og samkeppnir hins vegar.
Á árinu 2012 voru haldnar 10 samkeppnir með aðkomu AÍ og er það metfjöldi á einu ári. Tekjur félagsins af þessum samkeppnum eru helsta ástæða þess að mikill bati hefur orðið á rekstri félagsins.
Arkitektafélagið hefur ásamt Listasafni Reykjavíkur og Þjóðskjalasafni með styrk frá Mennta- og menningarmálaráðuneyti unnið að því að skrá þau gögn sem áður tilheyrðu byggingarlistadeild Listasafns Reykjavík áður en hún var lögð niður og afhenda þau Þjóðskjalasafni Íslands til varðveislu. Umsjón með verkinu hefur Pétur H. Ármannsson arkitekt haft og Sigurlín Steinbergsdóttir hefur unnið við skráninguna sem starfsmaður AÍ.
ÚTGÁFA
Arkitektafélag Íslands í samstarfi við Félag íslenskra landslagsarkitekta gefur út tímaritið Arkitektúr – tímarit um umhverfishönnun. Á síðasta ári var gefið út eitt tölublað og var þar m.a. fjallað um Hörpu og uppbyggingu í Kvosinni.
FÉLAGSSTÖRF
Á vegum félagsins starfa 9 fastanefndir, auk þess starfa starfshópar um sérstök málefni sem unnið er að hverju sinni. Nefndirnar starfa með framkvæmdastjóra og í samráði við stjórn félagsins.
VIÐBURÐIR OG DAGSKRÁ Á VEGUM AÍ
Dagskrá félagsins á starfsárinu var nokkuð fjölbreytt. Þátttaka í Hönnunarmars var með nýju sniði þetta árið þar sem annars vegar var efnt til vinnusmiðju í Ráðhúsi Reykjavíkur og hins vegar sett upp sýningin „arkitektúr í líkönum“ í samstarfi við LHÍ og Yrki arkitekta. Auk þess voru á vegum félagsins ýmsir fyrirlestrar og hádegisverðarfundir.