FÉLAG ÍSLENSKRA TÓNLISTARMANNA – klassísk deild FÍH
Skýrsla formanns fyrir árið 2012 á aðalfundi Bandalags íslenskra listamanna, 9. febrúar 2013

Aðalfundur FÍT var haldinn 4. desember síðastliðinn. Breytingar urðu á stjórn en hana skipa nú:
Dr. Nína Margrét Grímsdóttir, formaður,
Gunnar Guðbjörnsson, varaformaður,
Hallveig Rúnarsdóttir, gjaldkeri,
Margrét Bóasdóttir, ritari og
Þórarinn Stefánsson, meðstjórnandi.

Varastjórn skipa:
Kristín Mjöll Jakobsdóttir,
Helga Þórarinsdóttir og
Guðríður Sigurðardóttir

Félagar í FÍT – klassískri deild FÍH eru nú 153, einleikarar, einsöngvarar og stjórnendur

Félagið sinnir ýmsum hagsmunamálum félagsmanna og hefur umsjón með listrænum samstarfsverkefnum við ýmsa aðila. Fjöldi nefndarstarfa fylgir formanns- og stjórnarstörfum, s.s. í Bandalagi íslenskra listamanna, Listráði Hörpu og Samtökum flytjenda og hljómplötuframleiðenda, SFH.

Tekjustofnar FÍT – klassískrar deildar FÍH hafa verið félagsgjöld og framlög frá SFH auk sérstakra verkefnastyrkja.

Ný heimasíða er í vinnslu og verður tekin í notkun á starfsárinu. Á heimasíðu félagsins, www.fiston.is verða birtar fréttir og upplýsingar um verkefni og styrki ásamt auglýsingum sem varða félagsmenn og listalífið almennt. Fréttabréf og tilkynningar eru send rafrænt og erlendum samskiptum sinnt eftir föngum.

Hljómdiskasjóður FÍT – klassískrar deildar FÍH:

Fjármagn í sjóðinn kemur af úthlutunarfé Samtaka flytjenda og hljómplötuframleiðenda, SFH.

2012 var úthlutað tveimur styrkjum að upphæð 200. 000 kr og komu þeir annars vegar í hlut Melkorku Ólafsdóttur flautuleikara til að hljóðrita einleiksfantasíur eftir Telemann, og hins vegar hlutu Emil Friðfinnsson hornleikari og Þórarinn Stefánsson píanóleikari styrk saman til að hljóðrita íslensk tónverk fyrir horn og píanó.

Listræn samstarfsverkefni FÍT – klassískrar deildar FÍH:

Tónleikar á landsbyggðinni

Verkefnið hefur verið í samstarfi við FÍH með styrk úr Tónlistarsjóði. Verkefnisstjóri, Þórarinn Stefánsson, annast umsýslu styrksins sem greiðir hluta þóknunar flytjenda á tónleikum á landsbyggðinni. Samstarf er við rúmlega 30 sveitarfélög og tónlistarfélög. Um 9-10 tónlistarhópar og einleikarar halda u.þ.b 30 tónleika á landsbyggðinni ár hvert á vegum verkefnisins.

Tónleikaröð í Norræna húsinu, Klassík í Vatnsmýrinni

Farsælt samstarf við Norræna húsið hófst 2009. Fernir tónleikar hafa verið haldnir ár hvert, tvennir með íslenskum flytjendum og tvennir með norrænum eða alþjóðlegum flytjendum, m.a. fyrir samvinnu við aðildarfélög Nordisk solistråd.

Boð um tónleikahald kom frá Dansk Solist-forbund á árinu 2012 vegna tónleika sem haldnir voru á árinu 2009 í Norræna húsinu á vegum FÍT – klassískrar deildar FÍH og var auglýst eftir umsóknum í maí 2012. Dean Ferrell kontrabassaleikari var valinn til að vera fulltrúi FÍT – klassískrar deildar FÍH til að leika á tvennum Solisterier tónleikum í Kaupmannahöfn helgina 10.-11. nóvember 2012.

Einnig kom í haust boð frá Noregi vegna tónleika í Vigeland Museum næsta sumar. Auglýst var eftir umsóknum í september og fór úthlutun fram í lok október. Það voru þær Hlín Pétursdóttir söngkona og Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari sem voru valdar sem fulltrúar FÍT – klassískrar deildar FÍH á tónleikunum næsta sumar. Haustið 2011 komu einmitt norskir tónlistarmenn og léku tónleika í Klassík í Vatnsmýrinni.

Ársfundur Nordisk Solistråd 2012 var haldinn í Osló í tilefni af 100 ára afmæli Norsk Tonekunstnersamfund. Kristín Mjöll og Hallveig voru fulltrúar stjórnar FÍT – klassískrar deildar FÍH á fundinum.

Ársfundurinn var með hefðbundnum hætti en í lok fundarins kom fulltrúi frá Rikskonserterne í Noregi sem nú heitir Skolesækken og hélt kynningu um verkefnið og fjármögnun þess. Engir samnorrænir tónleikar voru haldnir að þessu sinni. Í staðinn var fundargestum boðið á hátíðartónleika tilefni 100 ára afmælis Norsk Tonekunstnersamfund.

Listráð Hörpu tók til starfa um mitt ár 2010. Formaður FÍT – klassískrar deildar FÍH situr í stjórn Listráðsins, varaformaður situr sem varamaður. Unnið verður að því markmiði að félagsmenn eigi gott aðgengi að tónleikahaldi innan veggja Hörpu.

SFH Formaður situr í stjórn SFH sem eru innheimtusamtök fyrir flytjendur og hljómplötuframleiðendur vegna tekna sem myndast af flutningi tónlistar af geisladiskum í fjölmiðlum og á fjölsóttum stöðum.

Einstaklingsúthlutun þess fjármagns sem innheimtist af SFH hófst í byrjun árs 2011 en hluti af því fé sem ekki er greitt út til einstaklinga rennur áfram til aðildarfélaganna í þeim hlutföllum sem ákvörðuð voru með gerðardómi fyrir hartnær 20 árum. Þetta er það fjármagn sem hefur runnið í Hljómdiskasjóð félagsins sem einnig var að hluta til verið notað til reksturs félagsins. Á þessu ári var ákvörðuð sú upphæð sem myndi renna til félaganna á móti einstaklingsúthlutunni og hófust greiðslur á ný til félagsins, sem munu nú nema um 300 þús kr á ári, en greiðslur lágu niðri frá því upphafi árs 2010.

 

Nefndir og ráð sem FÍT – klassísk deild FÍH á aðild að:

 • Bandalag íslenskra listamanna
 • Nordisk solistråd
 • Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda
 • Íslensku tónlistarverðlaunin
 • (Samtónn)
 • Listráð Hörpu
 • Menningarsjóður SUT og Ruthar Hermanns
 • Tónlist fyrir alla – sameiginlegur fulltrúi með FÍH
 • Fulltrúaráð Listahátíðar
 • Höfundarréttarráð
 • Úthlutunarnefnd Starfslaunasjóðs tónlistarflytjenda
 • Valnefnd Grímuverðlaunanna, – íslensku leiklistarverðlaunanna

Árið 2012 var tímamótaár fyrir félagið þar sem helsta verkefni fráfarandi stjórnar var að stýra undirbúningsvinnu vegna fyrirhugaðrar inngöngu FÍT í FÍH undir þeim formerkjum að sameinast klassískri deild FÍH, en starfa engu að síður undir sjálfstæðum formerkjum og eigin kennitölu. Faglega var staðið að þessari vinnu sem lauk með rafrænni kosningu þar sem þessi skipulagsbreyting var samþykkt með miklum meirihluta atkvæða félagsmanna. Hluti af breytingunni fól í sér endurskoðun laga félagsins sem fór fram á aðalfundi 4. 12. 2012, svo og breyting á nafni félagsins, sem heitir nú Félag íslenskra tónlistarmanna – klassísk deild FÍH. Samningur var undirritaður af núverandi stjórnum beggja félaga 14. 1. 2013 og mun gilda til ársloka 2014.

Markmiðin með breytingunni eru að sameina tónlistarflytjendur klassískrar tónlistar í eitt félag sem vinnur að listrænum framgangi og hagsmunum flytjenda. Leiðarljósið er bætt samstarf innan greinarinnar, meiri skilvirkni og samlegðaráhrif, efling innra starfs, samþætting og bætt rekstrarumhverfi.

Framtíðarsýn um listræn verkefni FÍT – klassískrar deildar FÍH felur í sér nýtingu nýrra sóknartækifæra sem tengjast m.a. samstarfi menningar og ferðaþjónustu innanlands og utan, alþjóðlegu samstarfi um tónleikahald, kynningarverkefnum á veraldarvefnum, samstarfi við helstu lista- og menningarstofnanir, samstarfi FÍT – klassískrar deildar FÍH við aðrar deildir inna FÍH sem miðast að því að auka vægi lifandi tónlistarflutnings í samfélaginu. Að lokum má nefna markvissan stuðning FÍT – klassískrar deildar FÍH við flytjendur klassískrar tónlistar til að hlúa að yngri kynslóð tónlistarfólks gegnum ýmis samstarfsverkefni.

Ég vil þakka fráfarandi formanni félagsins Kristínu Mjöll og stjórn hennar árangursrík störf og lít fram á veginn með bjartsýni og tilhlökkun til að leiða félagið inn í nýja tíma og spennandi tækfæra á sviði tónlistarflutnings ásamt samstarfsfólki mínu í stjórn.

Fyrir mína hönd og FÍT – klassískrar deildar FÍH – vil ég þakka stjórn og forseta BÍL fyrir ánægjulega og góða samvinnu.

Dr. Nína Margrét Grímsdóttir, DMA, MA, PSD, LGSM
Formaður FÍT – klassík deild FÍH
Aðalþing 5 203 Kópavogur
+354 899 6413
nina@ninamargret.com
www.ninamargret.com