Starfsemi Rithöfundasambandsins var með hefðbundnu sniði á árinu 2011. Helstu verkefni sambandsins eru upplýsingamiðlun varðandi réttindamál á sviði höfunda- og útgáfuréttar, endurnýjun og breytingar á gildandi samningum um notkun á verkum íslenskra rithöfunda og ýmiskonar hagsmunagæsla. Ennfremur umsýsla og úthlutun greiðslna sem RSÍ tekur við frá Fjölís, IHM, Blindrabókasafni og Námsgagnastofnun. Þá rekur sambandið Höfundamiðstöð en hún annast verkefnið Skáld í skólum, auk þess að veita ýmsar upplýsingar um höfunda. Skáld í skólum eru bókmenntadagskrár fyrir ólík stig grunskólanna og hafa þær notið mkilla vinsælda.

Á skrifstofunni í Gunnarshúsi starfar framkvæmdastjóri í fullu starfi og hefur umsjón með daglegum rekstri, en undir hann falla einnig rekstur gestaíbúðar í kjallara hússins og rithöfundabústaðanna Norðurbæjar á Eyrarbakka og Sléttaleitis í Suðursveit. Ennfremur hefur framkvæmdastjóri umsjón með Bókasafnssjóði höfunda. Auk daglegrar starfsemi RSÍ í Gunnarshúsi eru þar fundir og samkomur á vegum SÍUNG, Leikskáldafélagsins og IBBY á Íslandi.

Á vordögum sóttu formaður og framkvæmdastjóri ársfund Norrænu rithöfundasambandanna og Evrópska rithöfundaráðsins í Turku í Finnlandi. Í sparnaðarskyni var þessum tveimur fundum slegið saman.

Óhætt er að segja að menningarlífið var blómlegt á árinu sem leið. Fjölmargir rithöfundar fengu verðlaun og viðurkenningar. Ber þar hæstan Gyrði Elíasson sem tók á móti Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn fyrir smásagnasafnið Milli trjánna. Þá var Reykjavík gerð að Bókmenntaborg UNESCOs og í september var haldin Bókmenntahátíð í Reykjavík í tíunda sinn. Komu að henni fjölmargir íslenskir og erlendir höfundar úr ýmsum heimshornum. Upplestrar og umræður fóru fram í Iðnó og NH og hátíðinni lauk með dúndrandi bókaballi í Iðnó.

Síðast en ekki síst var það Bókastefnan í Frankfurt þar sem Ísland var heiðursgestur. Rithöfundasambandið tók virkan þátt í undirbúningnum og voru formaður og framkvæmdastjóri allan messutímann á svæðinu. Margir höfundar voru í Frankfurt og var almenn ánægja með uppskeruna.

Reykjavíkurborg hélt áfram endurbótum á Gunnarshúsi. Það færist í vöxt að taka á móti innlendum og erlendum gestum, sýna húsið og segja frá Gunnari Gunnarssyni, lífi hans og verkum. Árlega fer fram lestur á Aðventu Gunnars Gunnarssonar þriðja sunnudag á jólaföstu og er sagan lesin samtímis á Skriðuklaustri og í Kaupmannahöfn. Félagi okkar Steinunn Jóhannesdóttir las söguna í þetta sinn við arineld, kertaljós og góða stemningu.

Undir árslok 2011 var gerður tímabundinn tilraunasamningur við Félag íslenskra bókaútgefenda (FÍBÚT) um útgáfu rafrænna bóka. Rétt er að taka það fram að útgáfa þessara bóka á íslensku er á byrjunarstigi. Mun tilraunasamningurinn verða yfirfarinn á sex mánaða fresti en stefnt er að því að framtíðarsamningur liggi fyrir innan tveggja ára.

Félögum í Rithöfundasambandinu fjölgar ört og eru nú 404. Konur eru rúmur þriðjungur. Þá þurfum við ekki að kvarta undan einslitum hópi því elsti félaginn er að verða 103 ára en sá yngsti er 26. Einn af heiðursfélögum okkar Thor Vilhjálmsson lést á árinu.

Á aðalfundinum í apríl s.l. létu tveir félagar af störfum: Karl Ágúst Úlfsson, meðstjórnandi og Sigurbjörg Þrastardóttir, varamaður. Stjórn Rithöfundasambandsins er nú þannig skipuð: Kristín Steinsdóttir, formaður, Jón Kalman Stefánsson, varaformaður, Davíð Stefánsson, Kristín Helga Gunnarsdóttir og Sölvi Björn Sigurðsson og eru meðstjórnendur. Varamenn eru Gauti Kristmannsson og Oddný Eir Ævarsdóttir. Framkvæmdastjóri félagsins er Ragnheiður Tryggvadóttir.