Stjórn BÍL hélt 9 reglulega fundi á starfsárinu. Aðildarfélög BÍL eru fjórtán talsins. Hér er listi yfir formenn félaganna ásamt nöfnum þeirra stjórnarmanna, sem starfað hafa með stjórn BÍL á árinu:

Arkitektafélag Íslands, AÍ, – formaður: Logi Már Einarsson (varamenn Borghildur Sturludóttir, Hrólfur Karl Cela og Gíslína Guðmundsdóttir)
Félag íslenskra leikara; FÍL, – formaður: Randver Þorláksson
Félag íslenskra listdansara; FÍLD, – formaður: Guðmundur Helgason
Félag íslenskra tónlistarmanna; FÍT, – formaður: Kristín Mjöll Jakobsdóttir (varamaður Hallveig Rúnarsdóttir)
Félag íslenskra hljómlistarmanna; FÍH, – formaður: Björn Th. Árnason
Félag kvikmyndagerðarmanna FK, – formaður: Hrafnhildur Gunnarsdóttir
Félag leikstjóra á Íslandi FLÍ, – formaður: Steinunn Knútsdóttir/Jón Páll Eyjólfsson (varamaður Eva Rún Snorradóttir, Heiðar Sumarliðason og Gunnar Gunnsteinsson)
Rithöfundasamband Íslands RSÍ, – formaður: Kristín Steinsdóttir (varamenn Kristín Helga Gunnarsdóttir og Sölvi Björn Siguðrsson)
Samband íslenskra myndlistarmanna; SÍM, – formaður: Hrafnhildur Sigurðardóttir
Samtök kvikmyndaleikstjóra; SKL, – formaður: Ragnar Bragason
Tónskáldafélag Íslands; TÍ, – formaður: Kjartan Ólafsson
Félag tónskálda og textahöfunda; FTT, – formaður: Jakob Frímann Magnússon
Félag leikmynda- og búningahöfunda; FLB, – formaður: Egill Ingibergsson/Rebekka Ingimundardóttir
Leikskáldafélag Íslands; – formaður: Hávar Sigurjónsson

Fulltrúar BÍL í nefndum og ráðum (jan 2012):

* Menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkur áheyrnarfulltrúi Kolbrún Halldórsdóttir, Hrafnhildur Sigurðadóttir áheyrnarfulltrúi
* Fulltrúar í faghópi menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkur:
Sólrún Sumarliðadóttir menningarfræðingur og tónlistarmaður, Gunnar Hrafnsson tónlistarmaður, Randver Þorláksson leikari, Lárus Ýmir Óskarsson leikstjóri, Þóra Þórisdóttir myndlistarmaður
* Kvikmyndaráð Ágúst Guðmundsson skipaður 14.10.2009 til 30.09.2012, Ásdís Thoroddsen varamaður
* Barnamenningarsjóður Kristín Mjöll Jakobsdóttir 15.08.2011 – 14.08.2013, Rebekka Ingimundard varamaður
* Fulltrúaráð Listahátíðar Kolbrún Halldórsdóttir
* Stjórn listamannalauna Margrét Bóasdóttir 10.10.2009 til 09.10.2012, Randver Þorláksson varamaður
* Stjórn Skaftfells Hrafnhildur Sigurðardóttir, Ásta Ólafsdóttir, varamaður
* Menningarfánaverkefni Reykjavíkurborgar Karen María Jónsdóttir
* List án landamæra Edda Björgvinsdóttir
* Starfshópur um viðbrögð við breyttum aðstæðum í atvinnu – og efnahagsmálum Ágúst Guðmundsson skipaður 28. jan. 2009
* Ráðgjafarhópur v. skattamála Kolbrún Halldórsdóttir skipuð af fjármálaráðh. 2010- Hópurinn hefur ekki hist síðan í október 2010 en hefur ekki verið formlega lagður niður.
* KKN – Kunst og kultur Greipur Gíslason skipaður eftirm. Hávars Sigurjónssonar 2010 (án aðkomu BÍL)
* KKN sérfræðingahópur um ferðastyrki Ágúst Guðmundsson skipaður 2007 af mrn. skv. tilnefningu BÍL, skipunartími framlengdur út árið 2011
* KKN sérfræðingahópur um dvalarstyrki (residence) Ragnheiður Tryggvadóttir skipuð 2007 af mrn. skv. tilnefningu BÍL skipunartími framlengdur út árið 2011
* (Rekstrarstjórn norrænu menningarverkefnanna Signý Ormarsdóttir skipuð af mmráðherra til ársloka 2011)
* 7. des 2011 sendi BÍL til mmráðun. lista með 7 nöfnum, sem að öllum líkindum verður valið úr til setu í sérfræðingahópum fyrir úthlutun styrkja úr Norrænu ferða- og dvalarstyrkjaáætluninni á menningarsviðinu til næstu tveggja ára 2012 – 2013. Þegar þessi skýrsla er skrifuð er ekki enn búið að skipa í nýju sérfræðingahópana.
* Þess utan er forseti fulltrúi mennta- og menningarmálaráðherra í stjórn Íslandsstofu og í stjórn Listaháskóla Íslands, formaður þar síðan 16. desember 2011. Forseti gegnir formennsku í fagráði Íslandsstofu í listum og skapandi greinum. Þá situr forseti í fulltrúaráði Listasafns Sigurjóns Ólafssonar, er formaður stjórnar Leikminjasafns Íslands, situr í úthlutunarnefnd Minningarsjóðs Guðjóns Samúelssonar og í úthlutunarnefnd námsmanastyrkja Landsbanka Íslands -Námunnar. Forseti BÍL er fulltrúi Íslandsstofu í starfshópi um starfsskilyrði skapandi greina, sem mennta- og menningarmálaráðherra setti á laggirnar vorið 2011, væntanlega skilar hópurinn skýrslu sinni í febrúar 2012.

Opinber stuðningur við listir og menningu.
Aðalfundur BÍL 2011 ályktaði um faglegar fjárveitingar til lista og menningarverkefna og hvatti til þess að hætt yrði handahófskenndum úthlutunum fjárlaganefndar en þess í stað styrktir lögbundnir sjóðir á borð við launasjóði listamanna, Kvikmyndasjóð, Tónlistarsjóð, Bókmenntasjóð, sjóð til starfsemi Sjálfstæðu leikhúsanna, Listskreytingasjóð og Barnamenningarsjóð.
Talsvert miðaði varðandi þetta baráttumál á árinu. Stjórn BÍL kom sínum sjónarmiðum á framfæri við fjárlaganefnd og forseti BÍL fundaði með formanni og varaformanni fjárlaganefndar til að ræða nánar hugmyndir BÍL að bættu fyrirkomulagi. Fjárlaganefnd sendi frá sér tilkynningu í júní 2011 um að gerðar yrðu breytingar á eldra fyrirkomulagi og að fjárlaganefnd myndi ekki auglýsa eftir umsóknum um styrki til verkefna eða starfsemi félagasamtaka. Nú þegar fjárlög ársins 2012 liggja fyrir sést hvaða áhrif breytingarnar hafa á einstaka fjárlagaliði. Þó upplýsingar þær sem hér fara á eftir séu ekki tæmandi þá gefa þær allgóða mynd af því sem hefur áunnist og einnig af þeim þáttum sem áfram þarf að vinna brautargengi.
Á fjárlögum 2012 hækkar sjóður til starfsemi atvinnuleikhópa frá því sem var úr 58,4 m.kr í 71,2 m.kr, launasjóðir listamanna hækka áfram í samræmi við lög úr 408,8 m.kr í 488,9 m.kr, Safnasjóður hækkar úr 96,3 m.kr í 125,8 m.kr og Fornleifasjóður úr 17,2 m.kr í 32.9 m.kr. Menningarsamningar við sveitarfélög á landsbyggðinni hækka úr 259 m.kr. í 360,2 m.kr. Kvikmyndasjóður hækkar úr 452 m.kr í 515 m.kr þó það nægi alls ekki til að koma sjóðnum í það horf sem áætlað hafði verið í samkomulaginu sem kippt var úr sambandi við efnahagshrunið 2008/2009. Þó ber að geta þess að endurgreiðslur úr ríkissjóði vegna framleiddra kvikmynda og sjónvarpsefnis jukust mikið, voru nálægt 700 m.kr 2011 (þ.a. tæp. 400 m.kr til íslenskrar framleiðslu). Litlar sem engar hækkanir verða hins vegar milli ára á Bókmenntasjóði (fer úr 39,5 m.kr í 42,0 m.kr), Tónlistarsjóði (fer úr 43,6 m.kr í 47.0 m.kr), Listskreytingasjóði (stendur í stað 1,5 m.kr) eða Barnamenningarsjóði (lækkar úr 4,2 m.kr í 4,1 m.kr).
Þegar þetta er skrifað er mennta- og menningarmálaráðuneyti að ljúka samningum við miðstöðvar listgreina og hönnunar (sjá einnig í kaflanum um Íslandsstofu), sem allar fá talsverða styrkingu á rekstrargrunni sínum 2012. BÍL hefur átt í góðu samstarfi við miðstöðvarnar á árinu og hefur lagt þeim lið í baráttunni fyrir fjárhagslegri styrkingu. Það sama má segja um verkefnið Handverk og hönnun, sem lengi leit út fyrir að myndi ekki fá áframhaldandi samning við mennta- og menningarmálaráðuneytið, en hefur nú fengið lausn sinna mála.

Opinber stefna í menningu og listum
Þó talsverðar breytingar hafi orðið á árinu á fyrirkomulagi fjárframlaga til lista og menningartengdra verkefna af fjárlögum bólar enn ekkert á opinberri stefnu í menningu og listum. BÍL hefur fylgt eftir kröfunni um opinbera menningarstefnu, sem staðið hefur til að leggja fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu. BÍL hefur tekið virkan þátt í að móta slíka stefnu, m.a. með fjölmennum fundi um listastefnu í apríl 2010 og málþingi um menningarstefnu 22. janúar 2011. Það hefur hins vegar lítið miðað hjá stjórnvöldum, þó eru vísbendingar um að einhverra breytinga sé að vænta þar sem nýverið var ráðinn sérfræðingur í menningarmálum á skrifstofu mennta- og menningarmálaráðherra í því augnamiði að ljúka vinnunni við stefnumótunina. BÍL hefur sent ráðuneytinu á nýjan leik allt efnið sem varð til á Listafundinum í apríl 2010.
Þá hefur BÍL lagt á það áherslu við yfirvöld að menningarstefnu í mannvirkjagerð verði framfylgt með virkari hætti en nú er og hefur BÍL stutt við baráttu AÍ varðandi þann þátt opinberrar menningarstefnu. Starfshópur, sem mennta- og menningarmálaráðherra skipaði og fól að gera tillögur að endanlegri innleiðingu stefnunnar, er að störfum. Þá mótmælti af AÍ þegar á vordögum var ákveðið að leggja tímabundið niður Byggingarlistadeild Listasafns Reykjavíkur, BÍL sýndi stuðning sinn með því að álykta um málið. Í framhaldinu var stofnað til óformlegs samráðs milli AÍ og safnsins mað það að markmiði að tryggja varðveislu sögu byggingalistar á Íslandi með viðunandi hætti.

Kortlagning skapandi greina
Áfram hefur verið unnið á grundvelli kortlagningarverkefnis stjórnvalda og Íslandsstofu 2010/2011. Í lok janúar skipaði mennta- og menningarmálaráðherra starfshóp, sem fékk það verkefni að kortleggja starfsumhverfi skapandi greina. Forseti BÍL var skipuð í starfshópinn af hálfu Íslandsstofu. Auk þess að skoða möguleika á bættu starfsumhverfi skapandi greina, leggur hópurinn mat á með hvaða hætti megi bæta stjórnsýslu tengda skapandi greinum, efla menntun og rannsóknir og styðja við útflutningsstarfsemi. Í júní sl. kom Ása Richardsdóttir forseti Leiklistarsambandsins og ritstjóri skýrslu starfshópsins á fund stjórnar BÍL og gerði grein fyrir vinnunni. Hópurinn er nú á lokastigum vinnunnar og er skýrsla hans væntanleg í febrúar.
Á árinu voru stofnuð samtök skapandi greina, sem munu beita sér fyrir bættu starfsumhverfi atvinnugreina, sem byggja á starfi listamanna, hönnuða og annarra þeirra sem starfa innan menningargeirans. Einnig munu samtökin láta sig varða opinbera stjórnsýslu tengda skapandi greinum og beita sér fyrir því að hún verði skilvirkari og vandaðri en verið hefur.

Lottómál
Í febrúar 2011 sendi BÍL innanríkisráðherra erindi þar sem þess var farið á leit að framkvæmd íslenska lottósins verði endurskoðuð. Mælt var með því að þau einkaleyfi sem veitt eru til starfrækslu íslenska lottósins verði endurskoðuð reglulega og að ráðstöfun þeirra miklu fjármuna, sem lottóið veltir árlega verði aðgengileg almenningi. Lagði BÍL til að ráðherra skipaði starfshóp í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðherra, sem falið yrði að skoða með hvaða hætti breytingar af þessu tagi verði best framkvæmdar, m.a. með það að markmiði að listir og menning fái hlutdeild í þeim fjármunum sem aflað er gegnum lottó, líkt og tíðkast í nágrannalöndum okkar.
Í mars var tilkynnt um að innanríkisráðherra hefði skipaði slíkan starfshóp og var Katrín Fjeldsted fyrrverandi alþingismaður skipuð formaður hópsins. Það hefur tekið nokkurn tíma að koma hópnum saman en það stefnir í að hann fari að hittast reglulega eftir mánaðarmót janúar/febrúar. BÍL mun að sjálfsögðu fylgjast grannt með starfi hópsins og sjá til þess að hann hafi nauðsynlegar upplýsingar um fyrirmyndir þess fyrirkomulag, sem BÍL stefnir á að innleitt verði hér á landi, þar sem listir og menning fá hlutdeild í lottó-ágóða.

Listalausi dagurinn
Á árinu gekkst BÍL fyrir því að haldinn var dagur án lista; „Listalausi dagurinn“. Hann rann upp 1. nóvember 2011. Segja má að hugmyndin hafi þróast í kraftmikinn gjörning, sem vakti talsverða athygli. Í framkvæmdanefnd dagsins voru myndlistarmennirnir Jón K.B. Ransú og Rakel Steinarsdóttir auk stjórnarmanns BÍL Hrafnhildar Gunnarsdóttur kvikmyndagerðarmanns. Megin hugmyndin gekk út á það að almenningur var hvattur til að sniðganga allar listir í einn dag. Gefin voru út 15 boðorð, sem áttu að aðstoða fólk við sniðgönguna. Dagurinn hófst með því að styttu Ásmundar Sveinssonar af Vatnsberanum var pakkað inn. Ljósmynd af gjörningnum fór með hraði um netið og áður en dagurinn var að kvöldi kominn höfðu flestir fjölmiðlar fjallað með einhverjum hætti um uppátækið. Stjórn BÍL hefur samþykkt að leggja það til við aðalfund 2012 að hugmyndin um listalausa daginn verði þróuð áfram á árinu með beinni aðkomu aðildarfélaganna.

Skattaleg staða listafólks
Baráttan fyrir bættu skattaumhverfi listafólks hélt áfram á árinu og lagði stjórn BÍL talsvert á sig til að ná árangri með baráttumál listamanna. Sá árangur náðist helstur að Ríkisskattstjóri ákvað að breyta viðmiðunarreglum um reiknað endurgjald tekjuárið 2011. Þannig var bætt við nýjum flokki í starfaflokkinn sem listamenn falla undir. Sá flokkur er C(6) og var viðmiðunarfjárhæð í þeim flokki kr. 360.000.- á mánuði 2011. Sú viðmiðun lækkar enn vegna tekjuársins 2012 eða í kr. 320.000.-. Þá var bætt við nýjum flokki C(9) ætlaður þeim sem eru að hefja starfsemi sína og nemur viðmiðunarfjárhæðin þar 2012 kr. 286.000.- á mánuði þetta fyrsta starfsár. Flokkun þessi fer eftir umfangi starfsemi viðkomandi og miðar flokkur C(6) við að framteljandi starfi einn án annarra starfsmanna eða aðkeypts vinnuframlags. Þetta er talsverð breyting frá því sem var, þegar listamönnum var 2010 gert að telja fram kr. 414.000.- í mánaðarlegt reiknað endurgjald til að geta talist í fullu starfi í sínum starfaflokki. Varla getur talist skynsamlegt fyrir BÍL að krefjast frekari lækkunar á þessum viðmiðunum þar sem slíkt myndi stangast á við kröfurnar sem aðildarfélög BÍL gera fyrir hönd félagsmanna sinna í kjaraviðræðum. Það sem hefur hins vegar ekki breyst er sú staðreynd að bæði Tryggingarstofnun og Vinnumálastofnun nota þessar viðmiðunarreglur RSK til að meta starfshlutfall þeirra sem sækja um laun undir hatti þeirra stofnana (t.d. fæðingarorlof og atvinnuleysisbætur). BÍL mun nú beita sér fyrir því að þessar stofnanir breyti vinnulagi sínu hvað þetta varðar.
Eftir þessar breytingar á viðmiðunarfjárhæð RSK er augljóst að líta þarf til upphæðar mánaðarlauna , sem greidd eru úr launasjóðum listamanna. Um þessar mundir er sú upphæð kr. 277.761.- og lítur mennta- og menningarmálaráðuneytið svo á að listamenn sinni fullu starfi við list sína meðan þeir þiggja laun úr launasjóðunum. Þær greiðslur eru verktakagreiðslur og því ljóst að mánaðarlegt reiknað endurgjald er umtals vert lægra. Þar með er farið að muna mjög miklu á launum úr launasjóðunum og viðmiðunarfjárhæð reiknaðs endurgjalds í flokkun RSK (kr. 320.000.-). Baráttan framundan mun því snúast um hækkun á mánaðargreiðslu úr launasjóðunum.
Talsverð vinna fór fram á árinu í því augnamiði að breyta skilgreiningu tollskrár á listaverkum, en það er slík skilgreining sem ræður því hvort listaverk til endursölu eru undanþegin álagningu virðisaukaskatts eða ekki. Fundir voru haldnir með tollyfirvöldum og einnig með efnahags- og skattanefnd Alþingis í tengslum við breytingar á lögum um virðisaukaskatt. Í desember kom fram á Alþingi stjórnarfrumvarp sem breyta átti þeim lögum, m.a. þannig að þau tækju að einhverju marki tillit til sjónarmiða listafólks varðandi skattlagningu listaverka og listmuna. Voru ákvæði frumvarpsins ekki að öllu í samræmi við óskir listamanna, svo BÍL ákvað að leggjast ekki gegn því að þessi ákvæði væru tekin út úr frumvarpinu við meðferð málsins á þingi. Málið var afgreitt í miklum flýti dagana fyrir jól og hefur formaður efnahags- og skattanefndar lofað stjórn BÍL að eiga samstarf við BÍL um málið og freista þess að gera ákvæðin um listaverkin þannig úr garði að ásættanlegt verði. Um þessar mundir er verið að leita eftir fundi með nýjum fjármálaráðherra um málið.
30. maí 2011 funduðu fulltrúar stjórnar BÍL með efnahags- og skattanefnd Alþingis, eftir að nefndin ákvað að ganga framhjá tillögum, sem BÍL hafði sent nefndinni í meðferð frumvarps til laga um virðisaukaskatt í desember 2010. Á þeim fundi voru m.a. reifuð mál er varða skattlagningu á leigutekjur af hugverkaeign, hljóðfæragjald fyrir afnot af hljóðfærum, hugverkasjóður og önnur höfundarréttarleg málefni. Ekki varð beinn árangur af þeim fundi, en áframhaldandi vinna stjórnar að skattatengdum málum skilaði sér í því að Indriði H. Þorláksson fyrrv. ríkisskattstjóri heimsótti stjórn BÍL 16. janúar sl. og voru skattamálin rædd í þaula. Eftir þann fund er ljóst að fyrir stjórn liggur að endurnýja áherslur BÍL í skattamálum. Á það við um tiltekna þætti, t.d. skilgreininguna á eðlismun launatekna og þeirra tekna sem verða til við afnot/leigu af hugverkaeign.

Samstarfið við Menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkur
Forseti BÍL og formaður SÍM sitja fundi menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkur, sem áheyrnarfulltrúar. Á þeim vettvangi eru teknar ýmsar ákvarðanir sem varða listamenn, t.d. úthlutar borgin styrkjum til list- og menningartengdra verkefna. Stærsti hluti styrkjanna er greiddur út í upphafi árs og er úthlutun úr þeim potti unnin í samstarfi við svonefndan faghóp BÍL. Sá hópur er þannig valinn að stjórn BÍL sendir menningar- og ferðamálaráði lista með 15 nöfnum, ráðið velur svo fimm nöfn af listanum, sem taka sæti í faghópnum. Upphæðin sem faghópurinn hafði til úthlutunar í upphafi árs 2012 var 57,5 m.kr. og var tilkynnt um styrkveitingarnar um miðjan janúar sl. Þá var úthlutað 35 m.kr. úr nýstofnuðum Borgarhátíðasjóði. Þær hátíðir sem fengu samninga við borgina voru Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves, Aljóðlega kvikmyndahátíðin RIFF, Hönnunarmars, Jazzhátíð í Reykjavík, Blúshátíð í Reykjavík, Bókmenntahátíð í Reykjavík, Myrkir músikdagar og Food & Fun. Ráðið sjálft heldur eftir tiltekinni upphæð, sem það úthlutar sjálft fjórum sinnum ár ári í svokallaða skyndistyrki, þar er átt við verkefni sem hafa ekki verið komin til þegar auglýst var eftir umsóknum í „stóra pottinn“ í okt/nóv.
Á árinu var Reykjavík tilnefnd bókmenntaborg UNESCO, þá buðu borgaryfirvöld landflótta rithöfundi að búa í Reykjavík undir hatti ICORN samstarfsnets borga sem skuldbundið hafa sig til að verja rétt rithöfunda til tjáningarfrelsis. Fulltrúar tóku þátt í afgreiðslu þeirra mála undir hatti Menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkur.

Árlegir samráðsfundir með borgaryfirvöldum og mennta- og menningarmálaráðherra
Samráðsfundur stjórnar BÍL með mennta- og menningarmálaráðherra var haldinn 21. mars 2011 og samráðsfundur með borgarstjóra og menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkur var haldinn 11. apríl 2011. Þessir fundir eru liður í ráðgjafarhlutverki BÍL gagnvart stjórnvöldum og fá stjórnarmenn BÍL þar tækifæri til að ræða við æðstu ráðamenn menningarmála hjá ríki og sveitarfélögum. Að baki þessum samráðsfundum eru formlegir samningar um samstarf milli þessara aðila. Samningur BÍL og menntamálaráðuneytisins gildir til ársloka 2013 og samningur BÍL og Reykjavíkurborgar gildir út árið 2012. Á starfsárinu framundan er tímabært að stjórn BÍL ræði um fyrirkomulag þetta og hvort einhverjar hugmyndir séu um breytingar á því.

Tónlistarskólarnir og listnám á meistarastigi
Talsverð átök hafa átt sér stað undanfarið varðandi stöðu tónlistarskólanna, m.a. vegna niðurskurðar í rekstri sveitarfélaganna. Á vordögum var undirritað samkomulag milli ríkis og borgar þar sem ríkið ákvað að leggja árlega fram 480 m.kr. vegna kennslukostnaðar í tónlistarskólum, á móti skuldbundu sveitarfélögin sig til að taka yfir ný verkefni frá ríki sem nemur 230 m.kr. Samkomulagið átti því að skila 250 m.kr inn í tónlistarskólana, til viðbótar við það sem áður var greitt til þeirra. Því miður hefur þetta ekki dugað til að tryggja rekstrargrundvöll skólanna vegna enn frekari niðurskurðar í rekstri sveitarfélaganna. Það er því enn fylgst grannt með framvindu málsins á vettvangi BÍL.
Þá hefur BÍL lagt áherslu á nauðsyn þess að Listaháskóla Íslands verði gert kleift að auka framboð á meistaranámi í listum. Sá árangur varð af þeirri baráttu á árinu að 20 m.kr. komu til þessa verkefnis við lokaafgreiðslu fjárlaga 2012. Nú mun BÍL þurfa að leggja áherslu á styrkingu rannsóknarstarfs í listum undir hatti Listaháskóla Íslands í samvinnu við aðrar háskólastofnanir.

Umsögn þingmála
Eitt af verkefnum BÍL er að gefa þingnefndum Alþingis umsagnir um þingmál, sem varða listir og eru til umfjöllunar á Alþingi. Þetta árið kenndi ýmissa grasa í þingmálaflórunni; m.a. tillögu um að handverksdeild verði stofnuð innan LHÍ, um prófessorsembætti kennt við Jónas Hallgrímsson, um lista- og náttúrugarð fyrir blinda og aðra skynhefta, en að auk hefðbundin lagafrumvörp um tekjuskatt og virðisaukaskatt, lög um fjölmiðla og fjárlög.
Það var t.d. ánægjulegt að eitt af áherslumálum BÍL skyldi ná fram að ganga við lokaumræðu fjárlaga 2012, þegar ákveðið var að leggja 20 milljónir króna til Listaháskóla Íslands í því augnamiði að fjölga tækifærum til meistaranáms innan skólans.

Nýtt merki og endurnýjuð heimasíða
Talsverð vinna fór í það á árinu að endurnýja heimasíðu BÍL og hanna nýtt einkennismerki fyrir BÍL. Stjórn BÍL setti á laggirnar starfshóp, sem fékk það verkefni að undirbúa gerð hins nýja einkennismerkis og endurnýjun heimasíðunnar. Hópinn skipuðu Hrafnhildur Sigurðardóttir, formaður SÍM, Guðmundur Helgason, formaður FÍLD, Egill Ingibergsson, formaður FLB, auk forseta BÍL Kolbrúnu Halldórsdóttur. Hópurinn fól tveimur hönnuðum að gera tillögur, sem valið var úr og lagði hópurinn til við stjórn að tillaga Kristjáns E. Karlssonar að merki yrði valin. Sverrir Sv. Sigurðsson hjá Marktaki sá svo um endurnýjun heimasíðunnar, sem er hönnuð í opnum hugbúnaði „word-press“. Þá var tækifærið notað og skipt um netþjónustufyrirtæki, sem bauð þjónustu á afar hagstæðum kjörum. Nýja merkið var kynnt í fjölmiðlum í sumar og hefur það vakið jákvæð viðbrögð. Þá var líka stofnuð face-bókarsíða í nafni BÍL og hefur hún safnað að sér góðum vinum, þó umræður á síðunni um málefni listafólks mættu vera líflegri.

Höfundarréttur
Stjórn BÍL hefur talsvert rætt málefni tengd höfundarrétti á starfsárinu. Sú umræða skilar sér m.a. í málþingi um höfundarrétt, sem haldið verður í tengslum við ársfund BÍL 28. janúar 2012. Í ljósi þess að höfundaréttur er margslungið og flókið fyrirbæri, lög um höfundarétt snúin og almennt litið svo á að erfitt sé framfylgja þeim, liggur beint við að BÍL leggist á árar við fræðslu um höfundarréttarleg málefni. Til að umræðan verði eins markviss og mögulegt er þótti ráðlegt að spurningin sem málþingið glímir við verði fremur þröng með það í huga að BÍL gangist fyrir frekari umræðu á næstunni um aðra þætti höfundarréttarlegra málefna, t.d. sæmdarrétt. Spurning málþingsins er þessi: Hvernig má tryggja listamönnum sanngjarna hlutdeild í þeim arði sem notkun hugverka þeirra á netinu skapar?

Málefni RÚV
Stjórn BÍL hefur ekki haft greiðan aðgang að málefnum tengdum RÚV á árinu. Í ráðuneyti mennta- og menningarmála hefur starfshópur á vegum ráðherra undirbúið frumvarp um RÚV ohf . BÍL sendi fulltrúa á fund starfshópsins í byrjun maí sl. Mun starfshópurinn hafa skilað af sér frumvarpsdrögum nýverið og er þess vænst að þau verði kynnt á vef ráðuneytisins á næstunni og óskað eftir umsögnum.
Ný stjórn var kjörin yfir stofnunina 25. Janúar 2011. Stjórn BÍL skoraði á Alþingi að láta af þeim leiða vana að kjósa stjórnmálamenn til setu í stjórninni, skynsamlegra væri að kjósa í stjórnina fólk sem talist gæti fagfólk á þeim sviðum sem stofnunin starfar á; fjölmiðlun og framleiðslu menningarefnis fyrir fjölmiðla. Alþingismenn daufheyrðust við þessari áskorun, að undanskildum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, sem kusu leikhússtjóra Borgarleikhússins sinn fulltrúa í stjórn RÚV.
Þótt RÚV ohf. hafi framleitt meira af menningartengdu efni 2011 en mörg ár þar á undan, lítur stjórn BÍL svo á að enn vanti talsvert á að staðan sé orðin ásættanleg. Það er því full ástæða fyrir ársfund BÍL að endurnýja brýningu sína frá síðasta ári um að Ríkisútvarpið axli ábyrgð sem einn af hornsteinum íslenskrar menningar með því að veita íslenskri menningu aukið rými í dagskrá sinni og að tryggja vandaða umfjöllun um störf listamanna.

Íslandsstofa
Málefni Íslandsstofu hafa komið á borð stjórnar á árinu, í tengslum við stefnumótun hinnar nýju stofu varðandi skapandi greinar. Forseti BÍL er fulltrúi mennta- og menningarráðherra í stjórn Íslandsstofu og gegnir formennsku í fagráði Íslandsstofu í listum og skapandi greinum. Á þeim vettvangi hefur verið unnið að því að tengja sérfræðikunnáttu þá sem er til staðar í miðstöðvum listgreina og hönnunar við það starf sem unnið er á deild markaðssóknar hjá Íslandsstofu. Það starf hefur skilað þeim árangri að á fjárhagsáætlun Íslandsstofu fyrir 2011 var áætlað að 40 milljónir króna færu til verkefna í skapandi geiranum og þegar þetta er skrifað stefnir í að það markmið hafi náðst og að öllum líkindum gott betur. Þá hafa stjórnvöld brugðist við ákalli um að nauðsynlegt sé að styrkja fjárhagsgrunn miðstöðva í listum og hönnun til muna svo þær verði færar um að nýta til fulls öll þau tækifæri sem bjóðast til að kynna íslenskar listir og menningu erlendis og koma þeim þar á markað. Ljóst er að öflugt starf miðstöðvanna er að skila sér, t.d. í æ kraftmeiri listahátíðum, sem draga að sér ferðamenn og erlent fjölmiðlafólk. Talsvert er um að erlendir blaðamenn sæki til Íslands til að kynna sér listir og menningu og hefur Íslandsstofa lagt talsvert af mörkum við að greiða kostnað við blaðamannaheimsóknir af því tagi.
Þá hefur Íslandsstofa sett nýja heimasíðu á laggirnar, svokallaða Íslandsgátt; www.iceland.is. Síðunni er m.a. ætlað að miðla upplýsingum um listviðburði og starfsemi íslenskra menningarstofnana. Stjórn BÍL hefur bent aðildarfélögum sínum á að hafa síðuna í huga ef þau hafa efni sem mætti miðla á slíkri gátt. Þá má gera ráð fyrir að heimasíða BÍL verði þróuð áfram á komandi ári, m.a. með það að markmiði að efla þann þátt síðunnar sem fjallar um starfsemi BÍL á erlendum tungumálum.

Tónlistarhúsið Harpa
Á árinu rættist langþráður draumur tónlistarfólks um tónlistarhús, þegar Harpa var opnuð í maí. Málefni Hörpu hafa komið á borð stjórnar BÍL, m.a. í tengslum við það að listráði var komið á við húsið. Í listráðinu sitja formenn tónlistarfélaganna; FÍT, FÍH, FTT og TÍ. Stjórn BÍL hefur lagt áherslu á nauðsyn þess að eigendur hússins (ríki og borg) setji sér stefnu varðandi rekstur hússins og starfseminna þar. Hefur BÍL lagt áherslu á að listráð Hörpu komi að stefnumótun hússins með skilgreindum hætti enda mikilvægt að reynsla þeirra sem þar sitja komi starfsemi hússins til góða. Stjórn BÍL hefur reynt að fylgja slíkum hugmyndum eftir svo sem kostur hefur verið. Eftir opnun hússins var stjórn BÍL boðið í skoðunarferð um húsið, sem var gagnleg og ánægjuleg. Það er vilji BÍL að hagsmunir listafólks í húsinu verði tryggðir með því að leiga í sölum hússins verði sanngjörn og að úrval tónlistar í húsinu verði svo fjölbreytt sem mest má vera.

ECA – European Council of Artists
Á ársfundi ECA – European Council of Artists, sem haldinn var í Madríd í 11. – 13. nóv. sl. var Kolbrún Halldórsdóttir forseti BÍL kjörin forseti samtakanna. Að ECA standa samtök listafólks í 27 Evrópulöndum, sums staðar eru það regnhlífar sambærilegar við BÍL og önnur regnhlífarsamtök listafólks á Norðurlöndunum, en sums staðar eru það tilteknar greinar listafólks sem hafa sameinast undir hatt ECA. T.d. eru myndlistarmenn í Bretlandi, Skotlandi og Írlandi aðilar en ekki samtök annarra listgreina. Samtökin eru mikilvæg í Baltnesku löndunum og í Austur-Evrópu, líka í sunnanverðri álfrunni, en í Mið-Evrópu hefur hefðin verið sú að samstarf listamanna þvert á lönd fer frekar í farveg listgreinasamstarfs. Einnig er aðgangur Mið-Evrópulandanna að stjórnkerfi ESB mun greiðari en aðgangur annarra landa, sem kann að skipta máli í þessu sambandi.
Helstu verkefni ECA framundan er að bregðast við áætlunum ESB um „Skapandi Evrópu“ („Creative Europe“) og að svara spurningum vegna væntanlegrar skýrslu um innleiðingu ESB á UNESCO samningnum um menningarlega fjölbreytni.
Skrifstofa ECA hefur verið rekin í Kaupmannahöfn frá stofnun samtakanna 1995, að undanskildu síðasta ári 2011. Þá var skrifstofan í Madríd, þar sem þarlend stjórnvöld höfðu samþykkt að styrkja flutning hennar þangað og rekstur til næstu ára. Það loforð gekk hins vegar ekki eftir, svo skrifstofa dönsku listamannasamtakanna hefur ákveðið að skjóta skjólshúsi yfir reksturinn enn um sinn, en það er tímabundin lausn og eitt af verkefnum ECA er að finna varanlegan samastað fyrir skrifstofuna.
Fjárhagsstaða samtakanna er fremur veik og mun verða unnið að styrkingu rekstrargrunns þeirra á komandi ári.

Norrænt samstarf
Það hefur verið líflegt starf kringum Nordisk Kunstnerråd, sem er samstarfsvettvangur heildarsamtaka listafólks á Norðurlöndunum og í sjálfsstjórnarríkjunum. Forsvarsmenn samtakanna hittust fundi í Helskinki í september og er annar fundur áætlaður 25. janúar 2012. Aðal umfjöllunarefni Nordisk Kunstnerråd varðar norrænu menningaráætlunina, sem Norðurlandaráð vinnur eftir, og styrkjakerfið KulturKontakt Nord, sem komið var á 2007 og þróun þess. Það er mat Nordisk Kunstnerråd að samráð um breytingar á kerfinu hafi verið allt of lítið, nánast ekkert í tilfelli sumra landanna og hafa samtökin lagt á það áherslu að fá að hitta norræna stjórnmálamenn til að koma sjónar miðum sínum á framfæri milliliðalaust. Slíkur fundur hefur verið boðaður 25. janúar nk, en þá munu fulltrúar Nordisk Kunstnerråd hitta menningarmálanefnd Norðurlandaráðs á fundi í Olsó. Forseti BÍL verður þar á meðal.

Annað erlent samstarf
9. desember sl. var haldinn fundur í Kaupmannahöfn, að frumkvæði Freemuse (samtaka um tjáningarfrelsi tónlistarfólks), sem fjallaði um þörfina á samstarfi listafólks úr öllum greinum til að berjast fyrir tjáningarfrelsi listafólks um allan heim. Til fundarins var boðið þátttakendum frá fjölda fjölþjóðlegra samtaka, sem láta sig varða tjáningarfrelsi listafólks, má þar nefna Arterial Network í Afríku, ECSA – European Composer and Songwriter Alliance, FERA – Federation of European Film Directors, FIA – International Federation of Actors, freeDimentional, Freemuse, ICAF/Equity, IETM – International Network for Contemporary Performing Arts, IFCCD – International Federation of Coalitions for Cultural Diversity, International PEN, NCAC – National Coalition Against Censorship, ICORN – International Cities of Refuge Network og fleiri samtök. Froseti BÍL var á fundinum sem fulltrúi ECA – European Council of Artists. Málefni tengd tjáningarfrelsi listafólks voru krufin og ákveðið að skoða möguleikann á formlegu samstarfi þessara samtaka og fleiri svipaðra. Málið verður tekið á aftur á dagskrá á fundi í Osló á hausti komanda.

Reykjavík, janúar 2012,
Kolbrún Halldórsdóttir, forseti BÍL