Félag leikstjóra á Íslandi telur í dag 97 félaga. Í stjórn félagsins sitja Kolbrún Halldórsdóttir, ritari, Gunnar Gunnsteinsson gjaldkeri og Jón Páll Eyjólfsson formaður. Varastjórn skipa Heiðar Sumarliðasson, Rúnar Guðbrandsson og Eva Rún Snorradóttir en varastjórn situr alla stjórnarfundi

Eins og áður hefur stæðsta verkefni stjórnar síðastliðin misseri verið að endurskoða samninga FLÍ. Allir samningar hafa verið lausir síðan 2004. Samninganefnd á vegum FLÍ hefur verið í formlegum viðræðum við Leikfélag Reykjavíkur og Þjóðleikhúsið. Eru þær viðræður að þokast áfram þó hægt fari.

FLÍ hafði víðtækt samráð við önnur fagfélög innan sviðslistanna um athugasemdir um nýtt frumvarp MMR til sviðslistalaga. Stofnuð var samráðsnefnd allra fagfélaganna ásamt SL sem skilað af sér nýjum drögum af frumvarpi til sviðslistalaga. Þau drög höfðu verið kynnt félögum allra fagfélaganna til athugasemda og loks var boðað til opins kynningarfundar á vegum LSÍ þar sem drögin voru kynnt og tekið við frekari athugasemdum. Drög samráðsnefndarinnar voru síðan send MMR og birt á vef FLÍ.

FLÍ er aðili að NSIR Sambandi Norrænna leikstjórafélaga. Ísland tók við formennsku í sambandinu 2010 . NSIR er samræðuvettvangur leikstjóra á Norðurlöndum. NSIR þing var haldið hér í Reykjavík þann 26. og 27. nóvember. Fundir voru þéttir og snarpir en góðir. Ritari FLÍ kynnti Skýrslu um kortlagningu á hagrænum áhrifum skapandi greina. Vakti sú rannsókn mikla og verðskuldaða athygli enda afhjúpar hún sannarlega hin jákvæðu hagrænu áhrif hinna skapandi greina. Önnur umræðuefni fundarins voru samningar leikstjóra á Norðurlöndum, höfundaréttur og nauðsyn þess að gera frekari úttekt á ráðstöfun fjár til sviðslistastarfsemi og hvernig það fjármagn dreifist á milli stjórnunar og raunverulegrar listsköpunar.

Það hefur verið metnaður stjórnar FLÍ að efla fagvitund félaga okkar og að vera leiðandi í umræðunni um sviðslistir og hagsmuni okkar sem starfa við sköpun sviðslista.

Veitt var úr menningarsjóði tvisvar á árinu og hlutu alls 4 félagar styrk úr sjóðnum.

Reykjavík Janúar 2012
Jón Páll Eyjólfsson