Í dag er Alþjóðlegi Dansdagurinn. Af því tilefni skrifar Melkorka Sigríður Magnúsdóttir, formaður FÍLD – Félags íslenskra listdansara:

Meðallengd dansnáms þegar dansari útskrifast er sautján ár og á þeim tíma hefur dansari lært að stjórna smæstu hreyfingum, ýkja og nota þær stærstu, skilja á milli fínhreyfinga og kækja, telja óteljandi sinnum upp að átta, fengið blöðrur, marbletti, og svöðusár, dottið, staðið upp, endurtekið og byrjað aftur. Í sautján ár. Á þeim tíma lærir dansarinn að beita sjálfsaga, bera virðingu fyrir eigin líkama, verkfærinu sem honum er gefið og virkja um leið sköpunarkraftinn innra með sér.

Þrátt fyrir mikla framþróun í faginu síðustu ár getum við ennþá kallað listdansinn unga starfsgrein og að mörgu er að hyggja. Danssamfélagið á Íslandi þarf að standa saman að því að leysa stærstu hugsjónamálin og mynda þannig sterka heild sem eftir er tekið. Í byggingaflóru Reykjavíkur er meðal annars að finna leikhús, kvikmyndahús, bókasöfn, listasöfn og tónlistarhús. Það er réttmæt krafa að bæta við danshúsi, og gefa þar með grasrótinni, sjálfstæða geiranum og Íslenska Dansflokknum tækifæri til að vinna saman að því að verða sýnilegri í íslensku og erlendu samfélagi og tryggja um leið betra aðgengi að listdansinum.

Að sama skapi er það réttlætismál að listgreinarnar njóti jafnræðis þegar kemur að fjárhagslegum stuðningi við listaskóla. Í um hundrað ár hafa konur nær undantekningarlaust stofnað og rekið alla listdansskóla hér á landi, lengst af án fjárhagslegs stuðning. Það er eðlileg og réttmæt krafa að lausn náist á kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaganna hvað varðar fjármögnun til Listdansnáms á grunn og framhaldsskólastigi.

Dansinn er alþjóðlegt tungumál sem við deilum öll. Markmið alþjóðlega dansdagsins er að yfirstíga pólitískar, menningarlegar og siðfræðilegar hindranir. Það er því lag að reima á sig dansskónna og dansa inn í vorið því eins og Hemmi Gunn segir: “Dansa, hvað er betra en að dansa?”