Árið 2002 staðfesti UNESCO að þann 21. maí ár hvert skyldi vakin athygli á þýðingu menningarlegrar fjölbreytni sem er sameiginleg arfleifð mannkyns og að hlúa beri að henni og varðveita í þágu allra manna.
Íslenska UNESCO-nefndin og Bandalag íslenskra listamanna hafa nú sameinast í því að vekja athygli á þessum Alþjóðadegi menningarlegrar fjölbreytni og hvetja sem flesta til þátttöku með fjölbreytilegum listviðburðum og umræðu í samfélaginu um gildi menningarlegrar fjölbreytni.
Alþjóðadegi menningarlegrar fjölbreytni er ætlað að vekja athygli á því hversu fjölbreytt menning mannkyns er og minna á að aukinn skilningur á samspili ólíkra menningarheima eykur umburðarlyndi, félagslegt réttlæti og gagnkvæma virðingu menningarsamfélaga.
Menningarleg fjölbreytni getur af sér fjölskrúðugan og fjölbreytilegan heim með margvíslegum möguleikum þar sem hlúð er að hæfileikum mannsins og gildum, auk þess sem hún hvetur til gagnkvæmrar virðingar milli ólíkra hópa og þjóða. Alþjóðadegi menningarlegrar fjölbreytni er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um þessi málefni í þágu jafnvægis, jöfnuðar og friðar.
Í ár eru 10 ár liðin frá því UNESCO samþykkti samning um að vernda og styðja við fjölbreytileg menningarleg tjáningarform og skapa skilyrði til þess að menningarsamfélög nái að dafna og hafa með sér frjáls samskipti sem eru öllum aðilum til hagsbóta. Ísland undirritaði samninginn árið 2007 en alls eru 134 ríki búin að staðfesta hann. Í nafni markmiða samningsins hvetja íslenska UNESCO-nefndin og Bandalag íslenskra listamanna til þess að fjölmiðlar, menningarstofnanir, félagasamtök og áhugasamir einstaklingar sameinist í að beina sjónum að menningarlegri fjölbreytni í sinni víðustu mynd 21. maí nk.
Sjá nánar á heimasíðum www.unesco.is og www.bil.is
Reykjavík 24. mars 2015
Með bestu kveðjum,
Gunnar Haraldsson Kolbrún Halldórsdóttir
formaður íslensku UNESCO-nefndarinnar forseti Bandalags íslenskra listamanna