Í dag, 15.apríl 2021, er alþjóðlegur dagur myndlistar. Þetta er í fyrsta skipti sem hann er haldinn hátíðlegur hér um slóðir og er það fagnaðarefni. Að þessu tilefni er ýmislegt hægt að taka sér fyrir hendur. Við getum til dæmis byrjað á að líta í kringum okkur. En áður en við gerum það er gott að slökkva á farsímanum alla vegana að setja á fluvélastillingu og síðan er ágætt að nema staðar og nema staðinn þar sem við erum stödd nákvæmlega núna. Það er góð leið til að ná andanum. Við getum líka hallað aftur augunum nokkur andartök eða nógu lengi þannig að þegar við opnum þau aftur er sem við sjáum heiminn í fyrsta sinn. Kveikjurnar leynast víða og myndlistin leysist úr læðingi á ólíklegustu stöðum. Hún birtist ekki bara í sýningarsölum þar sem við getum notið sama verksins jafn lengi og okkur lystir innan auglýsts opnunartíma. Fyrir utan þessa afmörkuðu staði erum við nefnilega stöðugt vitni að óvæntum kringumstæum sem geta fært okkur nær. Myndlist gerir einmitt það, hún færir okkur nær, hún er næring, stundum beint í æð. Hún á sér stað þegar við setjum það sem umkringir okkur í samhengi og sjáum í öðru ljósi. Rétt eins og við erum stöðugt að safna sönnunargögnum og staðfestingu á tilveru okkar, gera hana merkingarbæra. Okkur grunar og grunurinn er líka grunnurinn að forvitni. Og fyrr en varir læðist undrunin í ljós. Myndlistin fylgir gjarnan í humátt á eftir. Hún er til dæmis risastórt auglýsingaskilti sem varpar línhvítum fleti út í nágrennið. Hún er hillustæða með jafnmörgum ljósaperum og nægja til að baða heila mannsævi í tunglsljósi. Hún er nýhnoðaðir snjóboltar í mismunandi stærðum sem liggja í röð á gangstétt við fjölfarna götu og eru til sölu á ólíku verði eftir stærð. Hún er glerklefi sem fyllist af þoku svo ekki sér handanna skil. Hún er nýmáluð og mjólkurhvít undirgöng í gegnum fjölbýlishús sem er að hruni komið. Hún er klifurveggur sem dregur upp stjörnumerki himinhvolfanna og hægt er að klifra upp á milli þeirra. Myndlist birtist alltaf nafnlaus og hún gerir aldrei boð á undan sér. Eitt annað dæmi af handahófi er kannski þetta nafnlausa eldfjall sem er að gera allt vitlaust og tekur á sig nýja mynd á hverjum degi. Eldfjallið er auðvitað ekki myndlist í sjálfu sér heldur það sem getur kviknað í bilinu á milli þess og okkar. Skynhrifin, venslin og ummyndanirnar. Drög að þessu eldfjalli komu í ljós þegar varir jarðarinnar urðu aftur sýnilegar í ljósaskiptunum núna um daginn. Þær brostu og út úr þeim byrjuðu að leka logandi línur, form, tákn og lúmsk skilaboð sem önguðu af iðrum jarðar. Þau streymdu eitt á eftir öðru út um logandi opið og mynduðu kóðaða frásögn þangað til taumurinn storknaði og varð eitt með steinrunnu slefinu. Skynjunin er nákvæmlega svona, líkamsheitt kvikuhólf sem opnast þegar minnst varir. Hvar endar þetta og hver er annars munurinn á gosinu og sprunginni hitavatnslögn í þéttbýli? Verður landslagið fallegra eða ljótara er reyndar spurning sem brennur á vörum sumra. Við erum engu nær og hraunið það eyrir heldur engu Það róast reyndar í dagsbirtunni en æsist þegar myrkrið brestur á. Elfan heldur áfram og gleypir bæði myndavélar og mælitæki og líka farsímana okkar ef við pössum okkur ekki. Við stöndum á milli nafnlausra sprungna, allra þessara ómálga jarðmunna sem opnast hver á eftir öðrum í seigfljótandi, margradda, muldrandi og glóandi söng og við vitum varla í hvorn fótinn við eigum að stíga. Þetta er allt saman í beinni útsendingu en við viljum samt stöðugt nær, ná sambandi og koma við kvikuna. Hún myndar straum og læk, þráð og þrá sem leiðir og togar í okkur og vísar leiðina gegnum nóttina og daginn. Myndlist er einmitt þessi þráður og þrá. Hún er tengingin inn til okkar og líka á milli okkar í endalausum núningi þangað til við náum jafnvel áttum. Myndlist er staðsetningartæki. Hún ýtir við, kitlar, hrærir og kemur okkur áleiðis. Hún er leikur sem felur og leiðir í ljós. Hún er spegilmynd og afsteypa. Góð myndlist er óvænt stefnumót og þegar hún á sér stað afhjúpar hún okkur og við verðum ekki söm. Til hamingju með daginn.
Haraldur Jónsson