Samþykkt BÍL um starfsumhverfi listamanna og atvinnuástand í skapandi greinum.

Ástand það sem myndaðist í kjölfar samkomubanns á liðnu ári kom afar illa við listamenn og það fólk sem starfar í listum og skapandi greinum. Af því að ekki sér fyrir endann á afleiðingum þessa ástands vill aðalfundur Bandalags íslenskra listamanna vekja athygli á alvarlegri stöðu listamanna á vinnumarkaði og því hversu erfiðlega stjórnvöldum gekk að sníða úrræði að þörfum þeirra sem starfa við listir og menningu. Starfsumhverfi listamanna er afar flókið og margbreytilegt, svo flækjustigið var mikið þegar ráðast átti aðgerðir til stuðnings geiranum. Stærstur hluti listamanna starfar sem einyrkjar að hluta eða öllu leyti og hefur ótryggar og óstöðugar tekjur, nokkuð sem vafðist fyrir þegar úrræði stjórnvalda vegna Covid-ástandsins voru heimfærð upp á listamenn. Því reyndust þau þeim ekki sú björg sem til var ætlast. Reynsla okkar af síðasta ári kallar á að átak sé gert í því að kortleggja starfsumhverfi listamanna og það atvinnuástand sem fólk í hinum skapandi geira býr við. Breyta þarf launa-, skatta- og atvinnutryggingakerfi þannig að það taki mið af þeim raunveruleika sem listamenn búa við.