Helstu verkefni sambandsins, á öllum tímum, eru upplýsingamiðlun varðandi réttindamál á sviði höfunda- og útgáfuréttar, endurnýjun og breytingar á gildandi samningum um notkun á verkum íslenskra rithöfunda og ýmiskonar hagsmunagæsla. Ennfremur umsýsla og úthlutun greiðslna sem RSÍ tekur við frá Fjölís, IHM, Hljóðbókasafni og Námsgagnastofnun. Einnig sér skrifstofa sambandsins um úthlutun á greiðslum fyrir útlán á bókasöfnum. Þá rekur sambandið Höfundamiðstöð en hún annast verkefnið Skáld í skólum, auk þess að veita ýmsar upplýsingar um höfunda. Skáld í skólum eru bókmenntadagskrár fyrir ólík stig grunskólanna og hafa þær notið mkilla vinsælda bæði í Reykjavík og á landsbyggðinni.
Á vordögum 2014 urðu formannsskipti hjá RSÍ. Kristín Steinsdóttir lét af störfum eftir fjögurra ára formannstíð og Kristín Helga Gunnarsdóttir tók við embættinu.
Í stjórn RSÍ sitja: Jón Kalman Stefánsson, varaformaður, Sölvi Björn Sigurðsson, Úlfhildur Dagsdóttir, Hallgrímur Helgason og varamennirnir Gauti Kristmannsson og Oddný Eir Ævarsdóttir. Framkvæmdastjóri RSÍ er sem fyrr Ragnheiður Tryggvadóttir.
Verkefni ársins hjá RSÍ hafa verið margvísleg, en fyrirferðarmest hefur án efa verið baráttan gegn hækkun bókaskatts sem þó bar ekki árangur. Stjórnvöld hækkuðu virðisaukaskatt á bækur úr 7 % í 11% fyrir áramótin 2014. Bókasafnssjóður var fyrirvaralaust skertur um nær helming á milli áranna 2013 og 2014 og fór úr 42,6 milljónum króna í 23 milljónir króna. Hann náði þó aftur fyrri stærð nú um áramót fyrir tilstuðlan stjórnamálamanna. Það hefur verið verkefni stjórnar og fulltrúa sambandsins að vinna að því að tryggja þessum sjóði lagalegt umhverfi svo hann komist út úr þeim aðstæðum að stækka og minnka eftir geðþótta stjórnmálamanna á milli ára. Sambærilegir sjóðir nágrannalandanna eru háðir sameiginlegum samningum höfunda og stjórnvalda og er það markmið okkar að sjóðurinn fái slíkt umhverfi. Samstarfshópur RSÍ og ráðuneytis hefur undanfarið unnið að því. Að auki má benda á að þessi sjóður er afar langt frá eðliegri stærð miðað við hlutverk hans. Honum er ætlað að greiða höfundum afnotagjöld af verkum sínum í samræmi við útlán. Um aldamótin stefndu menntamálayfirvöld að því að sjóðurinn yrði 90 milljónir króna. Það myndi þýða að sjóðurinn ætti með réttu að geyma árlega hátt í 300 milljónir króna af afnotagjöldum höfunda. Fulltrúar RSÍ hafa á árinu fundað með ráðherra og stjórnmálamönnum um hagsmuni félagsmanna og halda áfram að rækta það samstarf.
RSÍ á öflugt samstarf við systurfélög sín á Norðurlöndum ásamt því að taka þátt í Evrópusamstarfi. Rithöfundasambandið tekur þátt í starfi Norræna rithöfunda- og þýðendaráðsins, Evrópska rithöfundaráðsins og Baltneska rithöfundaráðsins. Rithöfundasambandinu býðst auk þessa á hverju ári að senda fulltrúa og taka þátt í námskeiðum og ráðstefnum víða um heim (þó aðallega í Evrópu). Sambandið er löngu orðið sjálfsagður gestgjafi erlendra rithöfunda, þýðenda og bókmenntafrömuða sem sækja Ísland heim. Sambandið telur 430 félagsmenn og hefur aðsetur í eigin húsnæði, Gunnarshúsi, að Dyngjuvegi 8, Reykjavík. Þar er einnig íbúð til útleigu fyrir gestahöfunda og þýðendur og er hún mikið notuð af erlendum kollegum. Þá er í Gunnarshúsi boðið upp á höfundastofur – vinnuaðstöðu fyrir fjóra til fimm listamenn í tímabundnum verkefnum.
RSÍ á tvö hús á landsbyggðinni, Norðurbæ á Eyrarbakka og Sléttaleiti í Suðursveit. Þar er einnig góð vinnuaðstaða fyrir félagsmenn ásamt því að félagsmenn hafa aðgang að annarri aðstöðu hérlendis og erlendis í gegnum Rithöfundasambandið.